Ofbeldi gegn börnum og unglingum

Til að börn og unglingar nái að vaxa og þroskast sem sterkir og jákvæðir einstaklingar í þokkalegri sátt við sjálfa sig og umhverfið þurfa þau heimili þar sem hlúð er að alhliða þroska þeirra, líðan og tilfinningum. Hversu gott sem t.d. leikskóla- og skólakerfi er, þá er heimilið fyrst og fremst sá staður þar sem grunnur lífshamingjunnar er lagður og þar eru foreldrarnir öflugustu mótunaraðilarnir.

Börn og unglingar hafa vissar grunnþarfir, sem nauðsynlegt er að koma til móts við eigi vel að takast til.

Þessar þarfir eru m.a.:
1. Líkamleg umönnun s.s. fæði, klæði, hvíld og vernd gegn hættum.
2. Tilfinningalegt atlæti s.s. snerting, blíða, huggun, virðing, aðdáun, þolinmæði, hvatning og örvun.
3. Jákvæð samskipti við fullorðna, sem eru m.a. færir um að leiðbeina og nota réttlátan aga mótaðan af kærleika og vissu umburðarlyndi.
4. Öryggi sem varðar reglu og stöðugleika í umhverfinu.

Börn og unglingar sem búa við heimilisofbeldi fá ekki þessum grunnþörfum sínum fullnægt og fara aldrei varhluta af því andlega og tilfinningalega álagi sem fylgir ofbeldi. Margir foreldrar í ofbeldissambandi telja að þeir geti haldið börnum sínum fyrir utan ofbeldið og er það m.a. trú yfir 80% þeirra kvenna sem leita til Kvennaathvarfsins. Foreldrarnir verða síðan mjög undrandi og oft slegnir þegar þeir komast að því að börn þeirra eru fær um að lýsa ofbeldinu, jafnvel í smáatriðum og að þau eru orðin ,,sérfræðingar“ í líðan og viðbrögðum foreldra sinna. Margoft hefur komið fram í rannsóknum að börn og unglingar þurfa hvorki að verða sjálf fyrir ofbeldinu eða verða beint vitni að því, til að þjást. Óbein þátttaka hefur einnig alvarlegar afleiðingar s.s. að vera í öðru herbergi og ,,heyra og skynja“ horfa e.t.v. á niðurbrotna móður fulla af ótta og kvíða og mögulega með áverka, sjá e.t.v. brotna hluti eða gæludýr sem hefur verið fargað. Þar fyrir utan kemur álagið að búa á heimili sem stöðugt er hlaðið samskiptalegri spennu og enginn veit hvað næsti dagur ber í skauti sér.

Áhrif ofbeldis á börn og unglinga er komið undir ýmsum þáttum s.s. tegund þess og tíðni, hvort búið er við ákveðinn stöðugleika í umhverfinu s.s. tíðni flutninga, skólaskipti og vinatengsl. Auk þess hefur aldur, kyn og þroskastig barnanna áhrif, auk hlutverka sem þau hafa í fjölskyldunni.

Hjá kornabörnum koma afleiðingarnar fram þannig að grunnþörfum þeirra er ekki sinnt, sem sést gjarnan sem truflun á líkamsþroska, svefni og skorti á hreinlæti. Það vantar allan stöðugleika og reglufestu í líf þeirra og þau verða öryggislaus. Þau fá ekki næga andlega örvun og tilfinningaþroskinn hægir á sér. Oft eru þessi börn ranglega metin sem einstaklega ,,þæg og góð“ þar sem örvunarleysið veldur því að þau gera litlar kröfur og liggja gjarnan langtímum saman þögul og hljóð. Nokkuð er um það að kornabörn í fangi móður ,,lendi á milli“ og verði því ,,óvart“ fyrir höggum sem áttu að lenda á móður. Árlega sjást í Kvennaathvarfinu kornabörn með áverka eftir þannig aðstæður. Móðir sem býr við ofbeldi er sjálf undirlögð af vanlíðan, kvíða og spennu og stenst því illa það álag sem umönnun kornabarns er og af þeim sökum er barn hennar í töluverðri áhættu hvað alhliða vanrækslu varðar.

Á smábarnaaldrinum sést einnig truflun á líkamsþroska og önnur einkenni eins og að framan getur. Skapgerðar- og hegðunarerfiðleikar sem og eðlileg tengslamyndun við fullorðna og önnur börn er oft ábótavant hjá börnum í þessum aldurshópi sem búa við heimilisofbeldi. Hegðun þeirra einkennist oft af ,,tilfinningalegu hungri“ sem talið er að drengir sýni frekar með árásargirni, háværð/fyrirferð og að skemma ýmislegt á meðan stúlkur sýni það frekar með því að vera sinnulausar, fjarrænar og óeðlilega háðar öðrum.

Á skólaaldrinum líta börn á foreldrana sem sínar aðalfyrirmyndir og hefja þau gjarnan yfir gagnrýni. Þau læra mest af því sem þau sjá og skynja en minna af því sem sagt er við þau. Á þessum aldri er algengt að þau kenni sér um ofbeldið og reyni því eins og hægt er að vera ,,góð“ þannig að ástandið lagist. Þegar síðan engin breyting verður, fyllast þau vonleysi, sektarkennd og kvíða. Þau þjást oft í þögn, þar sem ofbeldið verður hluti af daglega lífinu og vel varðveitt leyndarmál. Sum þeirra bera ofurábyrgð á heimilinu m.a. gagnvart yngri systkinum, móðirin treystir á dugnað þeirra og þau verða jafnvel eini ,,trúnaðarvinur“ illa farinnar móður sinnar.

Börnin koma alltaf með vanlíðan sína í skólann, sem kemur síðan fram með ýmsu móti. Þau eiga erfitt með að skilgreina eigin og annarra mörk, sem veldur ýmsum samskiptaárekstrum. Eins hafa þau oft slaka færni í að leysa ágreining, sem bæði getur leitt til þess að þau verða óvenju árásargjörn eða illa fær um að verja sig. Þessi börn eiga því oft í erfiðleikum með að sýna ,,viðeigandi“ hegðun og geta því orðið ,,afbrigðileg“ í augum félaganna, sem býður ýmsum hættum heim í hinum harða heimi skólasamfélagsins. Áhyggjur og kvartanir frá kennurum berast síðan heim, sem getur gert spennuna á heimilinu enn magnaðri og börnin enn vansælli, sé ekki vel og vandlega haldið á málum.

Þessi börn leita oft til skólahjúkrunarfræðingsins þar sem aðalkvartanirnar eru höfuð- og magaverkur ásamt ýmsum öðrum óljósum líkamlegum kvörtunum. Á þessum aldri eiga börn erfitt með að skilgreina og tjá tilfinningar sínar eða orða líðan sína með öðru en líkamlegum einkennum. Það er síðan hinna fullorðnu að þróa með sér næmni fyrir skilaboðunum, minnug þess að ofbeldið er eitt best falda leyndarmál þessara barna.

Unglingsaldurinn getur verið sérlega erfiður fyrir þá sem búa við ofbeldi. Það sem fram hefur komið um börn á skólaaldri á einnig við um unglinga en þeir eru einnig í sérstakri áhættu á öðrum sviðum. Á þessum aldri eiga sér stað miklar breytingar á þroska og tilfinningum, sem veitist mörgum unglingum ærið erfitt að fást við þó ekki komi til ofbeldi. Unglingar sem búa við ofbeldi eiga oft í miklum tilfinningalegum erfiðleikum þar sem þeir lifa í skjóli skammar, sektar, vonbrigða og niðurlægingar vegna þess leyndarmáls sem ofbeldið er. Þeir ala oft þá von í brjósti að einhver komi og ,,bjargi“ þeim. Þeir sveiflast á milli vonar og vonleysis um að nú sé ástandið að lagast og tilfinningin um að hafa litla sem enga stjórn á eigin lífi gerist áleitin. Á unglingsaldri hefst tímabil kynferðislegrar aðlöðunar þar sem unglingarnir falla oftast inn í þann farveg sem þeir þekkja fyrir, bæði varðandi kynhlutverk og samskipti. Það gefur því auga leið að unglingar sem búa við heimilisofbeldi geta verið sérlega illa staddir á þessu sviði. Þeir eiga oft í töluverðum erfiðleikum varðandi samsömun í félagahópi, sumir taka upp andfélagslega hegðun, aðrir geta orðið ofurábyrgir fyrir fjölskyldu sinni og eins er ekki óalgengt að sjá þá lokast inni í sjálfum sér. Þeir sveiflast gjarnan á milli ástar og haturs á foreldrum sínum og á milli vonar og vonleysis varðandi ástandið. Þeir eiga að geta sótt bæði öryggi og andlega næringu til foreldra sinna en fá jafnvel hvorugt.

Erlendar kannanir hafa margoft leitt það í ljós að ákveðin tengsl eru á milli heimilisofbeldis og andfélagslegrar hegðunar unglinga, vímuefnaneyslu, þunglyndis, almennrar vanlíðunar, vændis, sjálfsvígstilrauna og sjálfsvíga.

Í stað þess að búa við öryggi og alhliða, andlega og líkamlega næringu þá búa börn og unglingar í heimilisofbeldi við stöðugan kvíða, ótta, reiði, stjórnleysi, vanmátt og ringulreið. Þau þurfa jafnvel alla ævi að glíma við afleiðingar ofbeldisins bæði á líkama og sál og í flestum samskiptum þeirra við aðra, nokkuð sem getur dregið verulega úr tækifærum þeirra á að ,,njóta sín“ í lífinu. Þau læra takmarkað um hvað einkennir venjulegt heimilislíf, því á heimilinu búa þau e.t.v. með föður sem er nokkuð sjálfmiðaður og illa sveigjanlegur og leysir gjarnan ágreining með valdbeitingu. Á móti getur síðan móðirin verið svo yfirþyrmd af ofbeldinu, og því að ,,lifa af“ að hjá henni er lítið öryggi og skjól að finna. Tilfinningalega má því segja að mörg þessara barna og unglinga séu heimilislaus.

Svo vitað sé eru ekki ennþá til íslenskar rannsóknir á afleiðingum heimilisofbeldis á börn og unglinga, né neinar aðrar rannsóknir tengdar heimilisofbeldi og þessum aldurshópi. Því hefur hér aðallega verið stuðst við erlendar heimildir. Ekkert sem þar kemur fram kemur á óvart og þeir sem vinna í Kvennaathvarfinu og ýmsir sem vinna með börnum og unglingum á öðrum vettfangi telja sig með góðu móti geta yfirfært þetta yfir á íslenskan veruleika.

Ofbeldi og afleiðingar þess eru greinilega alvarlegt og útbreitt heilbrigðisvandamál og hvað raunhæfa aðstoð og forvarnir varðar ætti heilbrigðisfólk að geta, í góðri þverfaglegri samvinnu, lyft Grettistaki – enn vantar þó töluvert uppá að það mark sé í sjónmáli.

Birt með góðfúslegu leyfi Samtaka um kvennaathvarf www.kvennaathvarf.is