Nýrnabilun með þvageitrun

 • Hvað er þvageitrun (Uremia)?
 • Hlutverk nýrnanna er meðal annars, að losa okkur við úrgangsefni, sem myndast við efnaskipti líkamans. Ef nýrnastarfsemin bilar safnast þessi efni fyrir í blóðinu og öllum líkamanum. Þetta ástand nefnist þvageitrun.

  Hver er orsök nýrnabilunar?

  Verulega minnkað blóðflæði gegnum nýrun getur leitt til nýrnabilunar, t.d. ef um er að ræða mikinn vökva- eða saltskort. Það getur einnig orðið vegna losts í tengslum við mikla blæðingu eða vegna skyndilegs blóðþrýstingsfalls af öðrum ástæðum. Ef blóðþrýstingsfallið er viðvarandi í einhvern tíma getur það leitt til varanlegrar skemmdar á nýrunum.

  Nýrnabilun getur einnig stafað af hindruðum þvagútskilnaði, t.d. vegna mikillar blöðruhálskirtilsstækkunar hjá karlmönnum eða af völdum nýrnasteina.

  Aðrir kvillar sem valda bráðum eða langvinnum skemmdum á nýrnavefnum hafa einnig nýrnabilun í för með sér. Þetta getur gerst af völdum blóðeitrunar, eitrunar af völdum ýmissa efna eða heiftarlegra ofnæmisviðbragða.

  Hver er meðferðin?

  Það segir sig sjálft að bæði bráð og langvinn nýrnabilun er alvarlegt ástand sem krefst meðhöndlunar. Algengasta meðferðin er blóðskiljun (dialysis), þar sem úrgangsefnin líkamans eru hreinsuð úr blóðinu. Ef um langvinnt sjúkdómsástand er að ræða með mjög mikilli nýrnabilun er gripið til þess ráðs að græða ný nýru í sjúklinginn ef sá möguleiki er fyrir hendi.