Ný aðferð í sjúkraþjálfun fatlaðra barna

 • Hvaðan kemur meðferðin?Fyrir um 2 árum kom hingað til lands ungverskur sjúkraþjálfari, Margit Klein Hubikné og starfaði hér á landi með fötluð börn. Hún þykir hafa náð mjög góðum árangri. Þessi góði árangur hennar vakti áhuga minn og varð það til þessa að ég fór til Ungverjalands þar sem ég dvaldi í tæpt 1 ár og vann með henni. Ungverjar hafa löngum verið duglegir við að finna upp nýjar aðferðir við meðhöndlun fatlaðra barna. Ein af þessum aðferðum er kennd við Önnu Deveny, sjúkraþjálfara og hreyfilistamann. Hún tengir saman þessi tvö störf og er út frá því búin að þróa sína kenningu og meðferð. Hún byrjaði fyrir um 20 árum og meðferðarformið er enn í þróun. Þetta er meðferðarformið sem Margit beitir. Þessi meðferð hefur mest verið notuð á börn með Cerebral Palsy (heilalömun). Algengustu ástæður heilalömunar eru blæðing eða blóðtappi í heila, sem verður þá oftast rétt fyrir, í, eða rétt eftir fæðingu og eru fyrirburar stór áhættuhópur. Heilalömun getur annarsvegar valdið of hárri vöðvaspennu og þá verður barnið spastískt og á erfitt með að stjórna hreyfingum sínum og hinsvegar of lágri vöðvaspennu og þá verður barnið lint og á erfiðara með að hreyfa sig og viðhalda eðlilegum hreyfiþroska.

  Vöðvar spastísku barnanna eru sífellt að dragast saman og því endar oft með því að þau þróa með sér styttingar í vöðvum sem veldur minnkaðri hreyfigetu hjá þeim og þá um leið eiga þau erfiðara með að hreyfa sig eðlilega. Þegar vöðvi er alltaf í spennu og í sömu stöðu verður hann stífur, og því fylgja eymsli. Rétt eins og fólk sem er alltaf stíft í öxlum og fær þá vöðvabólgu á því svæði. Þessi börn þurfa alltaf á sjúkraþjálfun að halda, kannski mismikilli eftir hve alvarlegur skaðinn er, en meðferðin eykur hreyfifærni þeirra, auðveldar þeim athafnir daglegs lífs og eykur vellíðan þeirra.

 • Í hverju fellst meðferðin?Þessi aðferð er ekki svo ólík þeim hefðbundnu aðferðum sem hér eru þekktar. Meðferðin miðar að því að losa um styttingar sina, vöðva, og sinabreiða, að draga úr vöðvaeymslum og örva barnið til eðlilegra hreyfinga. Það er farin aðeins önnur leið en tíðkast hefur. Helsti munurinn er nuddið. Um leið og börnin gera æfingar og teygjur eru þau nudduð. Kenningin er sú að ekki sé nóg að teygja vöðva til að liðka þá, gera æfingar til að styrkja þá, heldur þurfi líka að nudda vöðvana til að mýkja þá og minnka eymslin sem fylgja síspenntum vöðvum. Þegar búið er að nudda og mýkja vöðvana og barninu líður betur vegna minni verkja, þá er hægt að auka æfingar. Því auðvitað forðast barnið að gera æfingar og nota vöðva sem vont er að hreyfa. Þannig er meðferðin í raun tvíþætt.

  Nuddið sem um er rætt er í raun tvenns konar, bandvefsnudd og hreyfinudd. Hreyfinuddið er eins og nafnið bendir til, nudd sem framkvæmt er meðan á hreyfingu stendur. Bandvefsnuddið er aftur á móti töluvert frábrugðið. Bandvefur hylur alla vöðva líkamans og festir þá við beinagrindina. Þegar vöðvi hreyfist ekki eðlilega verður aukin stífni og minnkaður hreyfanleiki í bandvefnum (kannski má þá líkja honum við þæfða ull). Bandvefsnuddinu fylgir stundum smá sviði í húðinni, sem er vegna þess að verið er að losa um bandvefinn og hreyfanleiki eykst. Þess vegna gráta börnin stundum og á það þá helst við um börn undir 2ja ára aldri, þar sem það er þeirra tjáningarform. Eldri börnin segja bara til og auðveldara er að semja við þau. Þetta er oftast sárast fyrstu skiptin en þegar vöðvarnir eru orðnir mýkri, minnka sárindin. Þá er farið að leggja meiri áherslu á æfingarnar, til að styrkja og auka hreyfifærni þeirra.

  Spastískir vöðvar leita mikið í sömu stöðurnar og við það verða stundum smá tilfærslur eða aflaganir á þeim. Því þarf að leiðrétta stöðu þeirra og meðhöndla þá þar. Auk þess sem leitast þarf við að meðhöndla hreyfingar barnanna með tilliti til eðlilegra hreyfinga og eðlilegs hreyfiþroska. Horfa þarf á allan líkamann í heild sinni en ekki bara það svæði þar sem vandamálið er, þar sem smá skekkja hér getur valdið smáskekkju á öðru svæði.

  Nauðsynlegt er að börn komist allra, allra fyrst í sjúkraþjálfun þegar ljóst er að þau þurfa þess. Talað er um að á fyrstu mánuðum ævinnar sé hæfileiki heilans til að mynda ný taugatengsl hve mestur. Eftir því sem mánuðunum fjölgar minnkar geta heilans til að mynda ný tengsl og hverfur við ákveðin aldur. Á þessu byggist m.a. kenning Önnu. Því fyrr sem meðhöndlunin byrjar því meiri líkur eru á að örva myndun nýrra tengsla, í stað þeirra sem tapast hafa. Í Ungverjalandi hefur þessari aðferð verði beitt á fyrirbura inná vökudeildum með góðum árangri. Og má segja að líkur á góðum árangri aukist því fyrr sem meðferð hetst. En fyrir utan það, þá skiptir miklu máli að barnið fái þá hjálp sem það þarf svo það geti verið sem næst eðlilegum hreyfiþroska. Því ættu foreldrar sem eru í einhverjum vafa um eðlilegan þroska barna sinna ekki að hika við að leita sér hjálpar og fræðslu um hvort eitthvað sé hægt að gera til að hjálpa barninu þeirra.

 • Hvers vegna sjúkraþjálfun?Börn geta þurft á sjúkraþjálfun að halda af ýmsum ástæðum, alveg eins og við fullorðna fólkið. Áður var ekki um marga staði að ræða og má segja að eini staðurinn fyrir börnin hafi verið hjá Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra og hafa því oft verið miklir biðlistar þar. Sem betur fer er þetta að breytast og nú getur fólk valið hvert það fer og fleiri staðir geta tekið við öllum þeim börnum sem þurfa á sjúkraþjálfun að halda. Ástæðurnar fyrir þörf á sjúkraþjálfun eru alveg jafn margvíslegar og hjá okkur fullorðna fólkinu. Allt frá smávægilegum áverka, væg þroskafrávik eins og t.d. ofvirkni eða alvarlegri ástæður eins og heilalömun.
 • Sjúkraþjálfun ReykjavíkurEf ykkur vantar frekari upplýsingar eða ef einhverjar spurnigar vakna þá getið þið haft samband við mig í Sjúkraþjálfun Reykjavíkur að Seljavegi 2, s. 562-1916 E-mail: sr@centrum.is, merkt Una eða Guðrún. Þar starfar einnig Guðrún Brynjólfsdóttir. Ég hef sérhæft mig í fötluðum börnum og Guðrún hefur unnið mikið með börn sem eiga við þroskafrávik að stríða.