Nú er gott að borða grænmeti

Þessa dagana svigna borð matvöruverslana af brakandi fersku, innlendu grænmeti. Sjaldan eða aldrei hefur verðið verið lægra né úrvalið betra. Notum tækifærið og hlöðum heilsubatteríin með grænmeti eða ávöxtum í hvert mál.

Fimm skammtar á dag, það er markmiðið!
Það er auðveldara en margur heldur að ná fimm skömmtum á dag: Hvernig væri að fá sér salatskál eða grænmetissúpu með hádegismatnum? Ávöxt til að seðja sultinn um miðjan daginn? Er ekki sjálfsagt að hafa bæði hrátt og soðið eða steikt grænmeti með kvöldmatnum? Hvað með ávöxt í eftirrétt?

Grænmeti – ekki bara hrásalat
Margir virðast halda að það þurfi að borða grænmeti hrátt til að tryggja hollustuna. Þetta er sem betur fer misskilningur. Það er að vísu ekki gott að ofsjóða grænmeti frekar en annan mat, sum hollustuefni eyðast við mikla suðu eða leka út í soðvatnið. Léttsoðið eða steikt grænmeti er hins vegar hlaðið hollustu ekki síður en það hráa, og í mörgum réttum er soðið meira að segja borðað, t.d. þegar gerð er súpa, sósa eða pottréttur og þá fer ekkert til spillis. Því er um að gera að matreiða grænmeti á mismunandi hátt, allt eftir smekk og hentugleikum.
Hvernig væri t.d. að gera ilmandi súpu úr fersku grænmeti; nýta kjötafgangana í pottrétt með miklu grænmeti; elda jafnvel íslenska kjötsúpu með rófum, gulrótum og lauk eða útbúa mexíkóska tortillu með grænmetisfyllingu?

Tillaga að einföldum grænmetisrétti fylgir með í lokin. Sjálfsagt er að nota aðrar tegundir í réttinn, t.d. blómkál, kúrbít eða eggaldin – allt eftir því hvað fæst á bestu verði í grænmetisborðinu eða er til í ísskápnum hverju sinni.

Steikt grænmetisblanda með pastaskrúfum
nýjar kartöflur, 2–3 stk eftir stærð
spergilkál, 1 vænn stilkur
gulrætur, 2–4 stk
laukur, 1 stk
paprika, 1 stk
hvítlaukur, 1–2 rif, marin
tómatar, ½ dós eða 4 stk ferskir
matarolía
oreganó, 2 tsk
piparblanda
salt

Allt grænmetið nema tómatarnir sneitt og steikt í stórum potti eða pönnu í matarolíu. Tómatar skornir í bita og þeim bætt á pönnuna ásamt kryddi. Látið malla í u.þ.b. tíu mínútur. Bætið vatni og kryddi í réttinn eftir þörfum og smekk. Borið fram með soðnum pastaskrúfum og rifnum parmesanosti.

Laufey Steingrímsdóttir
forstöðumaður Manneldisráðs
LANDLÆKNISEMBÆTTIÐ