Notkun lyfja

Hér er skýrt frá til hvers viðkomandi lyf er að jafnaði notað. Þegar heilbrigðisyfirvöld skrá lyf til notkunar hérlendis eru jafnframt skráðar svonefndar „ábendingar“, þ.e.a.s. í hvaða tilgangi leyfilegt er að nota lyfið. Sum lyf hafa fleiri en eitt notkunarsvið og stundum er ekki leyfilegt að nota lyf í ákveðnum tilgangi þó hægt væri að nota það. Dæmi um þetta er að sum lyf sem notuð eru við blæðingaóreglu geta verkað sem getnaðarvörn. Notkun þeirra í því skyni er hins vegar miklu hættulegri en notkun getnaðarvarnapilla og hún er því óleyfileg.

Stundum hafa lyf tvenns konar óskylda verkun. Dæmi um þetta er lyfið Avloclor sem er gigtarlyf, en má einnig nota til að lækna malaríu. Slík lyf hafa stundum tvö ATC-númer. Þar sem þessi bók er ætluð almenningi en ekki læknum höfum við lagt aðaláherslu á að greina frá þeirri notkun sem algengust er og skiptir fólk máli, en ekki er alltaf greint frá öllum ábendingum sem skráðar eru hérlendis. Sömuleiðis eru eldri lyf hérlendis oft skráð án ábendinga. Þar höfum við gert grein fyrir þeirri notkun sem algengust er hér og í nágrannalöndunum. Þeim sem vilja vita um allar skráðar ábendingar íslenskra lyfja er bent á Sérlyfjaskrána, sem gefin er út af Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu.

Til að fá fyllri skilning á verkun lyfja er gott að kynna sér vel kaflann um „Flokkun lyfja eftir verkun.“ Þessi flokkun er svokölluð ATC-flokkun og þegar fólk lærir að nýta sér þetta kerfi öðlast það betri skilning á eðli lyfjanna. Lyfjum er skipt eftir líffærakerfinu sem þau verka á og eftir verkunarmáta, og síðan er lyfjum sem eru efnafræðilega skyld raðað saman. Stundum eru lyf sem eru efnafræðilega alveg eins seld undir mismunandi nöfnum. Í ATC-kerfinu eru þessi lyf flokkuð saman undir einu efnisheiti, þannig eru t.d. lyfin Fúrósemíð, Lasix og Furix öll flokkuð undir innihaldsefnið fúrosemíð og geta því alltaf komið hvert í annars stað. Einstaka sinnum er þó munur á slíkum lyfjum sem stafar af því að bindiefni og litarefni eru mismunandi og geta haft svolítil áhrif á hvernig líkaminn nýtir lyfin.

Það hefur líka oft afgerandi áhrif á verkun lyfsins hvernig lyfjaformið er. Verkun lyfs kemur hraðast fram ef því er sprautað í æð en nokkru hægar ef því er sprautað undir húð eða í vöðva. Sé lyfi sprautað í húð virkar það oft staðbundið í húðinni og sé því sprautað í olíulausn í vöðva fer lyfið ekki inn í æðakerfið heldur situr í vöðvanum oft vikum saman þar til hvítu blóðkornin éta upp olíuna og lyfið með og flytja það inn í blóðrásina, þannig heldur lyfið áfram að verka vikum saman. Lyf í olíulausn getur verið lífshættulegt ef því er sprautað í æð.

Sum lyf komast ekki úr blóðrásinni inn í heilann. Ef slík lyf (t.d. sýklalyf) eiga að verka á heilann þarf að sprauta þeim í mænuhol.

Bólgueyðandi lyfjum, sem eiga að verka á einn ákveðinn lið en ekki allan líkamann, er oft sprautað beint í liðinn. Ástungur á mænuhol og liði eru þó sérstaklega vandasamar vegna sýkingarhættu.

Í lyfjaskránni er stundum vísað til þess að lyfið sé venjulega gefið af læknum eða hjúkrunarfræðingum, sem geti þá gefið nánari upplýsingar um verkun. Reyndar gildir það um nær öll sprautulyf að aðeins læknar eða hjúkrunarfræðingar mega gefa lyfin. Tannlæknar og ljósmæður mega þó gefa viss sprautulyf.