Nokkrar rangar fullyrðingar um bólusetningar

1. „Sjúkdómum sem bólusett er gegn var farið að fækka áður en bólusetningar gegn þeim hófust vegna betra hreinlætis í þjóðfélaginu og betra almenns heilbrigðis.“

Ofangreindar fullyrðingar eru algengar og þeim ætlað að telja fólki trú um að bólusetningar séu ekki nauðsynlegar. Án vafa á betra ástand í þjóðfélaginu sem leiðir til betra hreinlætis og heilbrigðari lifnaðarþátta, bætt aðgengi að heilbrigðiskerfi og betri lyf þátt í að færri einstaklingar hljóta alvarleg örkuml eftir sýkingar nú en áður. Hins vegar sýna rannsóknir hér á landi og erlendis að fækkun sjúkdóma sem bólusett er gegn má rekja beint til bólusetninga.

Á Íslandi er þetta mjög áberandi og má sérstaklega benda á útrýmingu bólusóttar og lömunarveiki og á síðari tímum heilahimnubólgubakteríunnar hemofilus influenzae b. Þessi baktería olli alvarlegri sýkingu hér á landi hjá um 20 einstaklingum (einkum ungbörnum) á hverju ári fram til 1989. Þá hófst almenn ungbarnabólusetning gegn henni hér á landi með þeim afleiðingum að nú sést bakterían ekki hér lengur.

Fyrir nokkrum áratugum hættu Svíar, Englendingar og Japanir að bólusetja gegn kikhósta vegna áróðurs um skaðsemi kikhóstabólusetningarinnar. Afleiðingin varð sú að sjúkdómurinn náði sér á strik í þessum löndum með skelfilegum afleiðingum fyrir fleiri þúsundir barna. Það var ekki fyrr en bólusetning hófst að nýju að sjúkdómstilfellum fækkaði.

Sömu sögu má segja af öðrum sjúkdómum í mörgum löndum þ.e. fækkun sjúkdóma má rekja beint til bólusetninga.

2. „Flestir sem fá þá sjúkdóma sem bólusett er gegn hafa verið bólusettir.”

Með ofangreindri fullyrðingu er gefið í skyn að bólusetning verndi ekki eins og ætlast er til. Það er rétt að engin bólusetning veitir öllum einstaklingum fullkomna vernd en flestar bólusetningar veita um og yfir 90% vernd ef bóluefnið er gefið eins og til er ætlast. Líkurnar á að bólusettur einstaklingur sýkist eru hins vegar margfalt minni en líkurnar á að óbólusettur einstaklingur sýkist.

Ef bólusetning í þjóðfélaginu er almenn (meira en 85% þátttaka) næst í mörgum tilvikum að útrýma bakteríunni eða veirunni sem veldur sjúkdómnum, og þeir sem ekki fá fulla vernd af bólusetningunni eða eru óbólusettir sýkjast ekki. Þetta nefnist hjarðónæmi og sýnir að almenn þátttaka í bólusetningum er mjög mikilvæg. Dæmi frá mörgum löndum sýna að þegar þáttaka í bólusetningum fer undir 80% þá verður aukning á sjúkdómum sem hægt er að bólusetja gegn eins og t.d. mislingum.
Á Íslandi, þar sem almenn þátttaka í bólusetningum er mjög góð, hafa engir einstaklingar greinst með þá sjúkdóma sem bólusett er gegn á síðustu árum nema kikhósta stöku sinnum og þá í vægu formi.

3. „Ákveðin framleiðslunúmer sama bóluefnis eru líklegri til að valda aukaverkunum en önnur og bóluefni með þessum númerum á að forðast.“

Þessi fullyrðing er röng af eftirfarandi ástæðum:
1) Hvert framleiðslunúmer bóluefnis inniheldur mismunandi fjölda bólusetningarskammta, allt frá nokkur hundruð þúsund upp í nokkrar milljónir skammta. Af því leiðir að mismunandi fjöldi aukaverkana getur sést á milli framleiðslunúmera af tilviljun einni saman.

2) Framleiðslunúmer bóluefna eru öryggisprófuð ítarlega áður en þau eru sett á markað og því ólíklegt að „skemmd“ bóluefni komist á markað.

3) Í mörgum löndum er í gangi virkt eftirlitskerfi með aukaverkunum. Komi í ljós óeðlilegt samband aukaverkana við ákveðin framleiðslunúmer eru þau tekin af markaði.

4. „Bóluefni geta valdið margvíslegum skaða og jafnvel dauða svo og seinni tíma aukaverkunum sem við þekkjum ekki.“

Bólusetningar eru í raun mjög öruggar þrátt fyrir að ýmsir hafi látið í ljós að svo sé ekki. Flestar aukaverkanir eftir bólusetningu eru minniháttar eins og hiti og eymsli á stungustað sem ganga fljótt yfir. Bóluefni eru rannsökuð mjög ítarlega á fleiri þúsundum einstaklinga áður en þau eru sett á markað. Þannig er reynt að tryggja sem best öryggi þeirra sem bólusetja á.

Einnig er fylgst mjög náið með bóluefnum eftir að þau eru tekin í notkun og komi upp grunur um alvarlegar aukaverkanir eftir bólusetningu eru slík tilfelli rannsökuð ítarlega. Slíkt eftirlit er mjög nauðsynlegt og hefur leitt til þess að notkun bóluefna hefur verið hætt.

Hægt hefur verið að tengja alvarlegar aukaverkanir við ákveðin bóluefni en þær eru margfalt sjaldgæfari en eftir sjúkdómana sem bólusett er gegn eins og sjá má í töflunni hér að ofan.

5. „Sjúkdómum sem bólusett er gegn hefur verið útrýmt á Íslandi og því ekki þörf á að halda áfram bólusetningum.“

Það er rétt að flestum sjúkdómum sem bólusett er gegn hefur verið útrýmt á Íslandi, þökk sé bólusetningum. Hins vegar hefur þeim ekki verið útrýmt í heiminum þar sem bólusetningar eru ekki nægilega útbreiddar. Sem dæmi má nefna að á hverju ári deyja hundruðir þúsunda einstaklinga af völdum mislinga sem ekki sjást lengur á Íslandi. Ef við slökum á í almennum bólusetningum er hætt við að sjúkdómar eins og mislingar og barnaveiki komi upp hér á landi með slæmum afleiðingum. Dæmi um slíkt eru vel þekkt í mörgum löndum á undanförnum árum.

6. „Gjöf margra bóluefna á sama tíma veldur of miklu álagi á ónæmiskerfið og eykur líkur á alvarlegum aukaverkunum.“

Bóluefni innihalda svokallaða mótefnavaka frá bakteríum eða veirum sem örva ónæmiskerfið þannig að einstaklingur verður varinn fyrir sýkingu. Allir einstaklingar verða fyrir mörgum mótefnavökum á hverjum degi einkum í öndunar- og meltingarvegi þar sem mikið magn af bakteríum er til staðar. Við hverja veirusýkingu sem einstaklingur fær þá má ætla að um 10–50 mismunandi mótefnavakar veirunnar herji á ónæmiskerfið, eftir því hvaða veiru eða bakteríu er um að ræða, án þess að skaði hljótist af.

Það er því rangt að bóluefni sem inniheldur allt að 8 mótefnavaka valdi of miklu álagi á ónæmiskerfið. Þetta er raunar rannsakað mjög ítarlega á fleiri þúsundum einstaklinga áður en bóluefni er sett á markað og ekki hefur komið í ljós að samsett bóluefni væru hættulegri en ósamsett og virkni þeirra í flestum tilfellum sambærileg.

Á síðustu árum hefur umræða um skaðsemi MMR-bóluefnisins (mislingar-hettusótt-rauðir hundar) verið mjög hávær og ýmsir hafa haldið því fram að þar sem bóluefnið er samsett væri það hættulegra en ósamsett bóluefni.

Ítarleg athugun á þessu hefur leitt í ljós að svo er ekki og því engin ástæða til að gefa bóluefnið í ósamsettu formi.

Gjöf samsettra bóluefna er mikið framfaraspor fyrir börn og foreldra þeirra þar sem börnin fá mun færri stungur og foreldrar þurfa sjaldnar að koma með börnin í bólusetningar. Ætla má að samsettum bóluefnum muni fjölga á næstu árum, börnum og foreldrum til hagsbóta.

Þessi grein er fengin af vef Landlæknisembættisins