Níasín


Almennt um níasín

Níasín er samheiti fyrir níkótínamíð og níkótínsýru. Ein af þeim 20 amínósýrum sem prótein er gert úr heitir tryptófan og líkaminn getur notað það til að búa til níasín ef ekki er nóg af því í fæðunni. En það þarf 60 milligrömm af tryptófani til að það jafngildi einu milligrammi af níasíni.

Unnt er að fullnægja þörfinni fyrir níasín með því að neyta nógu mikils prótíns.

Hvernig nýtir líkaminn níasín?

Níkótínsýra og níkótínamíð binst tveimur mikilvægum kóensímum í orkuefnaskiptum í öllum frumum líkamans. Þessi kóensím (flavínadeníndínúkleótíð og flavínmónónúkleótíð) eiga þátt í búskap glúkósa, amínósýra og fitu og eru mikilvæg fyrir orkubúskap og myndun nýrra efnasambanda.

Hvaða fæða inniheldur níasín?

Níasín er í próteinríkri fæðu nema mjólk og eggjum. Kjöt, fiskur, fuglakjöt og gróft korn er góð uppspretta níasíns.

Líkaminn ræður samt við að umbreyta tryptófan-hluta mjólkur- og eggjapróteina í níasín og bæta sér þannig upp hugsanlegan skort.

Hvað þýðir „NE“ eða „níasínjafngildi“?

Oft má sjá áletrunina NE eða í níasínjafngildi í stað milligramma á matarpakkningum eða vítamínglösum. Ástæða þess er sú að oft er innihald tryptófanamínósýrunnar umreiknað í samsvarandi magn níasíns því tryptófan breytist í níasín í líkamanum. Þá er gengið út frá því að 60 milligrömm af tryptófani jafngildi 1 milligrammi af níasíni.

Hversu mikil er þörfin fyrir níasín?

Þar sem níasín er hluti af orkuefnaskiptum er dagleg þörf háð því hve mikla orku líkaminn notar. Þörfina er hægt að reikna út á eftirfarandi hátt:

 • Venjulegur maður notar 10 MJ (1 Megajoule = 1000 KJ) orku á dag og þörfin fyrir níasín er um það bil 1,6 milligrömm á hvert MJ, það gildir jafnt fyrir börn sem fullorðna.
 • Það þýðir að ráðlagður dagskammtur fyrir venjulegan mann er um það bil 16 milligrömm á dag. í venjulegum mat eru um það bil 3 milligrömm á hvert MJ, helmingi meira en þörf krefur.

Stritandi verkamaður þarf meira níasín en kyrrsetumaður. 18 mg eru ráðlögð fyrir karla en 15 mg fyrir konur.

Hvað eykur hættuna á níasínskorti?

Áhættan eykst við:

 • drykkjusýki
 • lifrarsjúkdóma
 • sykursýki sem illa er fylgst með
 • elli
 • langvarandi megrun
 • einhæft mataræði
 • notkun þvagræsandi lyfja

Hartnups-veikin

Hartnups-veikin er alvarlegur, arfgengur sjúkdómur, veldur því að nokkrar amínósýrur skiljast út með þvaginu. Tryptófan er ein þeirra sýra, en eins og áður sagði getur líkaminn notað hana til að framleiða níasín. Þegar amínósýran hverfur er skrúfað fyrir uppsprettu níasíns og það veldur sömu einkennum og sjúkdómurinn pellagra (sjá neðar).

Karcinoid-heilkennið

Karcinoid-heilkennið er annar mjög sjaldgæfur sjúkdómur sem veldur níasín-skorti. Sjúkdómurinn er afleiðing krabbameinshnúts sem gleypir amínósýruna tryptófan í miklum mæli, en líkaminn þarfnast hennar til að framleiða níasín. Einkenni krabbameins af þessari tegund er m.a. niðurgangur, magaverkur, roði í húð og öndunarerfiðleikar.

Langtímanotkun ýmissa lyfja getur einnig aukið hættuna á níasínskorti.

 • Levodopa við Parkinsonsveiki
 • Búsúlfan og mercaptópúrín við krabbameini
 • Ísóníazíð við berklum

Níasínskortur og sjúkdómurinn Pellagra (húðangur)

Níasínskortur þekkist varla hérlendis. Í löndum þar sem mataræði er einhæft, einkum í þeim löndum þar sem aðalfæðan

er maís verður oft vart við sjúkdóminn pellagra. Níasín í maís er sérlega erfitt upptöku í þörmum. Einkenni Pellagra sjúkdómsins eru helst:

Niðurgangur og breytingar í húð sem líkjast sólbruna, og ef skorturinn er alvarlegur getur það leitt til þunglyndislegs geðsýkisástands og meðfylgjandi ofsjónum (pellagra er ítalskt orð sem þýðir „gróf húð“).

Ef sjúkdómurinn er langt genginn, getur það haft í för með sér vitsmunaskerðingu, síþreytu og þyngdartap. Ef ekki er leitað lækninga við þessu, endar það með dauða af völdum hjartabilunar.

Hvernig er ráðin bót á níasínskorti?

Ráðin er bót á níasínskorti með inntöku 200-600 milligramma af níasíni daglega þar til árangur næst.

Hvers þurfa barnshafandi konur að gæta?

Ekki ætti að taka inn stóra skammta af níasíni ef konan er þunguð.

Hvernig lýsir of mikið níasín sér?

Of stór skammtur af níkótínsýru (en ekki af níkótínamíði) getur valdið skammvinnum roða og húðkláða.
Stærri skammtar, t.d. 3-6 grömm á sólarhring geta eytt sykurbirgðum líkamans og minnkað blóðfitumagn (við sjúkdómum sem valda mikilli blóðfitu er níasín reyndar notað til að minnka hana).

Stórir skammtar af níasíni geta einnig valdið því að blóðþrýstingur falli vegna þess að æðarnar víkka út.