Náttúruefni

Notkun ýmissa náttúruefna til sjálfslækninga, forvarna gegn sjúkdómum og til að bæta útlit nýtur aukinna vinsælda hérlendis. Með þessari auknu neyslu er talið að tilfellum fjölgi þar sem rekja megi orsakir aukaverkana til náttúruefna.

    Aukaverkanir Efni sem notuð eru í læknisfræðilegum tilgangi geta valdið aukaverkunum. Efnið hefur þá óæskileg áhrif á líkamsstarfsemi. Áhrifin eru misalvarleg, allt frá því að vera væg upp í að stofna lífi einstaklingsins í hættu. Lyfjameðferð byggist meðal annars alltaf á því að ávinningur hennar sé meiri heldur en hugsanleg áhætta.

Almenningur telur oft að lækningajurtir valdi ekki aukaverkunum en slík viðhorf geta haft alvarlegar afleiðingar(1). Þó löng hefð fyrir notkun ýmissa náttúruefna gefi talsverða reynslu um ákjósanleg og óákjósanleg áhrif þeirra getur oft verið erfitt að greina ýmsar aukaverkanir enda eru þær ekki alltaf þekktar. Einnig geta líkurnar á að náttúruefni valdi aukaverkun verið háðar eiginleikum neytanda svo sem aldri, erfðum og sjúkdómsástandi(2).

Skilgreiningar á náttúruefnum eru á margan hátt óljósar en þeim má þó skipta gróflega í tvo flokka. Náttúrulyf annars vegar en náttúruvörur og fæðubótarefni hins vegar. Búið er að setja skýra reglugerð hér á landi hvað varðar náttúrulyf en skilin á milli náttúruvara og fæðubótarefna eru aftur á móti óljós og oft getur vara bæði verið túlkuð sem náttúruvara og fæðubótarefni.

Náttúrulyf

Þau náttúruefni sem fengið hafa markaðsleyfi sem náttúrulyf þurfa að standast jafn strangar kröfur um hráefnis-, framleiðslu og gæðaeftirlit og lyfseðilsskyld lyf. Kröfur um verkun, aukaverkanir o.þ.h. eru þó langt frá því að vera í líkingu við þær kröfur sem gerðar eru til lyfseðilsskyldra lyfja en þau gangast undir margra ára rannsóknir.

Náttúruvörur og fæðubótarefni

Náttúruvörur og fæðubótarefni eru seld án þess að gæðakröfur séu gerðar til framleiðslu. Framleiðendur þurfa því ekki að staðfesta öryggi og áhrif náttúruvara og fæðubótarefna áður en þau eru markaðssett. Engin trygging er fyrir því að vörur innihaldi þau efni og í þeim styrk sem fullyrt er að þær hafi og vörur hafa fundist sem innihalda ekki þau efni sem fullyrt var að þær hefðu(3,4). Ófullnægjandi og rangar merkingar valda því að oft er óljóst hvað varan inniheldur. Oft eru virku og eitruðu innihaldsefnin ekki þekkt og þar með er ekki hægt að vita með vissu hvort þau eru til staðar(3). Hver planta inniheldur auk þess mikið af efnum og stundum er erfitt að ákvarða hvaða og hve mörg þessara efna taka þátt í lyfjafræðilegri verkun(1). Munur er oft milli innihaldsefna plantna af sömu tegund sem safnað er á mismunandi stöðum á mismunandi tíma ársins. Einnig getur verið munur á geymslu og framleiðslu þannig að breytileiki verður milli vara og framleiðslulota innan þeirra(3).

Mikið úrval er af náttúrulyfjum, náttúruvörum og fæðubótarefnum hérlendis. Verkun þeirra er á margvíslegan máta og orsökuð af ýmsum innihaldsefnum. Ljóst er að efnin geta bæði valdið vægum og alvarlegum aukaverkunum og hafa þarf ákveðnar varúðarráðstafanir í huga. Þeir sem neyta náttúruefna ættu að fá óháðar upplýsingar um verkun þeirra t.d. með því að leita til lyfjafræðinga í apótekum. Ef neytandinn á við sjúkdóm að stríða eða tekur lyfseðilsskyld lyf er nauðsynlægt að lækni sé greint frá notkuninni því náttúrefnin geta tekið milliverkað við lyfin og haft áhrif á lyfjameðferðina. Barnshafandi konur og konur með börn á brjósti ættu ekki að neyta náttúruefna nema í samráði við lækni.

    Milliverkanir Milliverkanir eiga sér stað þegar tvö eða fleiri efni hafa áhrif á hvert annað þannig að verkun efnanna í líkamanum getur breyst. Sem dæmi má nefna að náttúruefni getur dregið úr verkun ákveðinna lyfja eða aukið hættu á aukaverkunum og/eða eiturverkunum.

Fæðubótarefni með efedríni

Neytendur þurfa sérstaklega að varast þau efni sem ekki eru leyfileg hérlendis, til dæmis fæðubótarefni með efedríni svo sem Ripped Fuel. Efedrínið kemur úr Ephedra plöntum (ma huang) og er ætlað að örva og auka orku(5). Neysla efedríns getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Dæmi um aukaverkanir af völdum fæðubótarefna með efedríni eru: Hækkaður blóðþrýstingur, hraður hjartsláttur, hjartaáfall, heilablóðfall, kvíði, skjálfti, svefnleysi, persónuleikabreytingar, sturlun, myndun nýrnasteina og lifrarbólga(5,6,7). Alvarlegar aukaverkanir eru ekki bundnar við stóra skammta eða langvarandi notkun því þær geta einnig átt sér stað við litla skammta og/eða eftir stutta notkun. Í kjölfar langtímanotkunar á efedríni í stórum skömmtum hefur geðtruflunum og ávanabindingu verið lýst(6).

Lokaorð

Talið er að það skorti fleiri vísindalegar tilraunir til að meta áhrif og öryggi við notkun náttúruefna í læknisfræðilegum tilgangi(8) og þær tilraunir sem birtar hafi verið skýri ekki raunverulega tíðni aukaverkana(7). Nauðsynlegt er fyrir heilbrigðisstarfsmenn að þekkja aukaverkanir af völdum náttúruefna en skortur hefur verið á óháðum upplýsingum fyrir neytendur og starfsmenn í heilbrigðisþjónustu(3).
Nauðsynlegt er að meta með gagnrýnu hugarfari auglýsingar og umfjöllun um efni sem fullyrt er að ráði bót á hinum ýmsu kvillum. Það að þekktir einstaklingar ráðleggi ákveðin efni þýðir ekki að efnið sé áhrifaríkt og öruggt, hvað þá að það henti hverjum sem er. Áður en náttúruefni er tekið þarf viðkomandi að kynna sér hvaða verkun efnið hefur, hvaða aukaverkunum efnið getur valdið og hvort það geti haft áhrif á lyfjameðferð eða sjúkdómsástand einstaklingsins.

Heimildir:

1. Ernst E, Rand JI, Stevinson C. Complementary therapies for depression. Archives of General Psychiatry, 55:1026-1032, 1998.
2. De Smet PAMG. Adverse effects of herbal remedies. Adverse Drug Reaction Bulletin, 183:695-698, 1997.
3. Shaw D, Leon C, Kolev S, Murray V. Traditional remedies and food supplements. A 5-year toxicological study (1991-1995). Drug Safety, 17(5):342-356, 1997.
4. Kristín Ingólfsdóttir og Guðborg Guðjónsdóttir. Greining ginsenosíð sambanda í ginseng afurðum. Læknablaðið, 77:61-5, 1991.
5. Haller CA, Benowitz NL. Adverse cardiovascular and central nervous system events associated with dietary supplements containing ephedra alkaloids. New England Journal of Medicine, 343(25):1833-1838, 2000.
6. Micromedex healthcare series; Martindale. Micromedix inc., Engerwood Colorade, 13(107), 2000.
7. Stickel F, Egerer G, Seitz HK. Hepatotoxicity of botanicals. Public Health Nutrition 3(2):113-124, 2000.
8. Miller LG. Herbal medicinals. Archives of Internal Medicine, 158:2200-211, 1998.