Næturvæta

Kristleifur Kristjánsson, barnalæknir
María Muller, hjúkrunarfræðingur
Ólafur Gísli Jónsson, barnalæknir
Viðar Ö. Eðvarðsson, barnalæknir
Þröstur Laxdal, barnalæknir

 • Hvað er næturvæta?Talað er um næturvætu eða undirmigu, þegar barn missir óviljandi og ómeðvitað þvag í svefni eftir 5 ára aldur, eða á þeim aldri sem börn eru almennt hætt að pissa undir.
 • Hver er tíðni næturvætu?Næturvæta er algeng og almennt talin hrjá allt að 10-15% 5-6 ára barna. Þetta þýðir að um það bil 2 börn í hverjum 6 ára bekk væta rúmið. Drengir pissa talsvert oftar undir en stúlkur. Sem betur fer lagast þetta vandamál í flestum tilvikum með aldrinum. Án sérhæfðrar meðferðar verða 15% nætur-vætubarna þurr í hverjum árgangi, en 0,5-1% allra einstaklinga glíma þó enn við þennan vanda á fullorðinsaldri.
 • Hvað veldur næturvætu?Orsakir næturvætu eru enn lítt þekktar og eru sennilega margþættar, þar sem engin ein meginorsök skýrir öll tilfellin. Þó er löngu ljóst að erfðir eru veigamikill þáttur.
 • ErfðirVitað er að næturvæta erfist. Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að hafi annað foreldri vætt rúmið sem barn eru 43% líkur á því að barn þess pissi einnig undir.Líkurnar aukast í 77% hafi báðir foreldrar einhvern tíma vætt rúmið á barnsaldri, sem er nánast tífalt hærri tíðni en hjá viðmiðunarhópi. Ef hvorugt foreldra hafði vætt rúm voru aðeins 15% líkur á að barn þeirra gerði það.

  Allt bendir til þess að næturvæta ráðist af samspili erfða og umhverfis, þótt erfðir virðist ráða meiru.

  Sýnt hefur verið fram á að næturvæta tengist ákveðnum litningum, en þörf er á mun ítarlegri rannsóknum til að kortleggja og einangra þá erfðaþætti sem gætu valdið eða stuðlað að þessum sjúkdómi. Ekki er vitað hvaða þættir erfast sérstaklega eða öðrum fremur, en vitað er að eftirtalin atriði vega þyngst:

 • BlöðrustjórnunEf barnið hefur vætt rúm frá fyrstu tíð er helst álitið að þroska hafi seinkað í þeim hluta taugakerfisins, sem stjórnar tæmingarviðbrögðum þvagblöðrunnar. Þetta er í samræmi við lægri tíðni næturvætu með hverjum árgangi og auknum andlegum og líkamlegum þroska.
 • ÞvagmagnHjá heilbrigðum börnum dregur úr þvagmyndun að næturlagi. Sum börn eru hins vegar talin mynda óeðlilega mikið þvag á nóttunni og hefur það verið tengt ónógri framleiðslu eða minni virkni þvagtemprandi hormóns frá heiladingli.
 • SvefnMargir foreldrar vætubarna lýsa því að börn þeirra sofi óeðlilega djúpum svefni og að þau vakni ekki við hróp og köll eða vekjaraklukku. Þetta hefur verið staðfest með rannsóknum. Vísindalegar athuganir hafa þó sýnt að svefn vætubarna er á engan hátt frábrugðinn svefni annarra barna. Samt sem áður vantar enn skýringu á því, hvers vegna þessi börn vakna ekki þegar þvagblaðran er full.
 • Sálrænir þættirSálrænir þættir eru ekki taldir vera frumorsök næturvætu og aldrei skyldi skilgreina það að væta rúm sem hegðunarvandamál.Börn sem glíma við næturvætu eru að upplagi ekki frábrugðin öðrum börnum andlega. Mörg eru þó með slæma sjálfsmynd og haldin sektarkennd og vanlíðan, sem hverfur þegar bati hefur náðst.

  Stundum geta sálrænir þættir þó ýtt undir einkennin, sem t.d. má sjá hjá börnum sem hafa verið þurr vikum saman en byrja skyndilega að væta rúm á nýjan leik eftir eitthvert áfall, svo sem skilnað foreldra, dauðsfall í fjölskyldu eða búferlaflutninga.

 • Vandamál tengd næturvætuNæturvæta er yfirleitt einangrað vandamál. Börn, sem aðeins bleyta sig um nætur og reynast við rannsókn mynda eðlilegt morgunþvag, þarf sjaldnast að rannsaka frekar.Þau börn sem væta sig einnig yfir daginn (10-20%) eða eru oft í spreng og geta illa haldið í sér, eiga stundum við önnur vandamál að stríða, svo sem þvagfærasýkingar og hægðatruflanir.

  Alltaf þarf að rækta þvag frá börnum sem missa þvag yfir daginn en einnig við minnsta grun um sýkingu hjá þeim sem pissa einungis undir um nætur. Börn sem greinast með þvagfærasýkingu þarf að rannsaka nánar með ómskoðun og röntgenmyndatöku af nýrum og þvagblöðru. Þetta er oftast gert á sjúkrahúsi.

  Mjög áríðandi er að koma í veg fyrir hægðatregðu hjá börnum sem hafa tíð þvaglát og halda illa í sér þvagi yfir daginn. Hægðakögglar geta þrýst á þvagblöðru og minnkað rúmtak hennar og þar með aukið líkur á þvagmissi.

  Hægðaklíningur í nærbuxum eykur mjög hættu á þvagfærasýkingu og þar með ósjálfráðum þvaglátum í vöku. Því er afar brýnt að meðhöndla ávallt hægðatregðu. Slík meðferð hrífur oft mjög vel til að stöðva sjálfan þvaglekann.

 • Val á meðferð við næturvætuEnda þótt 15% vætubarna vaxi frá vandanum á hverju ári, getur biðin eftir bata reynst erfið, bæði börnum og foreldrum. Því oftar sem barnið vætir rúmið, þeim mun meiri líkur eru á því að lausn vandans dragist á langinn. Sum börn neita að fara í sumarbúðir eða að sofa hjá vinum og geta því einangrast félagslega. Þess vegna er mikilvægt að taka vanlíðan barnsins alvarlega og þar með þörf þess fyrir meðhöndlun.Ýmsir kostir gefast á meðferð og fer það eftir barni, foreldrum og lækni, hvað reynt er fyrst. Óháð því hvaða meðferð er valin, batnar meira en helmingi allra vætubarna að mestu eða öllu leyti, en oft vill sækja í sama horfið ef meðferð er hætt.

  Mikilvægt er að ná góðri samvinnu við barnið sjálft um meðferð til að góður árangur náist.

  Það sem ekki leysir vandamálið:

  • Skammir, hótanir eða refsing.
  • Að taka barnið upp hálfsofandi
  • til að láta það pissa.
  • Að banna barninu algerlega að
  • drekka á kvöldin.

  Meðferð, sem að gagni kemur:

  • Umbunarmeðferð.
  • Vekjara- og rakaskynjarameðferð.
  • Lyfjameðferð.
 • UmbunarmeðferðÞessi meðferð byggir á því að umbuna barninu á jákvæðan hátt fyrir þurrar nætur, t.d. með hrósi, stjörnugjöf og verðlaunum. Leitast er við að auka ábyrgðartilfinningu barnsins gagnvart vandamálinu og örva það til dáða. Einnig er sjálfsagt að láta barnið tæma þvagblöðru rétt fyrir svefn og styrkja trú þess á að árangur náist.
 • Vekjara- og rakaskynjunarameðferðHér er notast við tæki með sérstökum rakaskynjara, sem virkjar vekjarabjöllu, þegar skynjarinn kemst í snertingu við þvag. Skynjarinn situr á yfirborði þunnrar mottu sem barnið liggur á eða er festur við nærbuxur. Bjallan hringir um leið og barnið missir fyrstu þvagdropana.Árangur miðast við að barnið vakni og tengi með tímanum saman tilfinninguna fyrir þaninni þvagblöðru og nauðsyn þess að vakna og létta á sér.

  Þessi meðferð getur staðið allt frá 6 vikum að 6 mánuðum, og er mikilvægt að bæði barn og foreldrar hafi áhuga og vilja til að láta reyna á hana, því allir verða að taka virkan þátt í henni.

  Stundum vaknar barnið alls ekki upp við vekjarabjölluna og þurfa þá foreldrar að vera viðbúnir að bregðast skjótt við og vekja barnið. Ef þessi tilraun til meðferðar gengur ekki verður að leita nýrra leiða.

 • Lyfjameðferð.Yfirleitt er ekki gripið til lyfja fyrr en eftir að 5 ára aldri er náð og þá í nánu samráði við lækni. Lyfjameðferð ætti að halda áfram í minnst 3 mánuði hjá þeim sem hún gagnast. Lyfin eru gefin á kvöldin, oftast u.þ.b. 1 klst áður en barnið fer að sofa. Gæta verður þess að missa ekki úr lyfjagjafir. Meðferðin byggist fyrst og fremst á þremur tegundum lyfja:Lyf sem draga úr þvagmyndun um nætur, t.d. Minirin nefúði eða töflur. Reynt er að stöðva lyfjagjöf á þriggja mánaða fresti í minnst 3 kvöld til að kanna bata.

  Lyf sem verka m.a. á taugaboð til þvagblöðru (slakandi á blöðruvegg, herðandi á blöðruháls) og létta auk þess svefn, t.d. Tofranil eða Amilín töflur. Hér þarf að byrja á að gefa lágmarksskammt og auka hann hægt upp í hámarksskammt, miðað við aldur og þyngd barnsins. Sömuleiðis verður að minnka lyfjaskammt hægt, jafnvel á nokkrum vikum, þegar ákveðið hefur verið að hætta lyfjagjöf.

  Lyf sem draga úr óeðlilegum samdrætti í þvagblöðru, t.d. Ditropan töflur. Þetta lyf er fyrst og fremst gefið ef barnið hefur einnig ör þvaglát eða vætir sig að degi til.

  Þessi lyf geta haft mismiklar aukaverkanir, sem foreldrar þurfa að kynna sér. Til að ná góðum árangri er nauðsynlegt að hafa nákvæmt eftirlit á nokkurra vikna fresti hjá lækni barnsins, samhliða fræðslu og uppörvun.

  Birt með góðfúslegu leyfi Íslenskrar erfðagreiningar

 • Rannsókn á næturvætuSíðastliðin tvö ár hefur staðið yfir stór rannsókn á næturvætu (undirmigu, enuresis nocturna) á Íslandi þar sem aðalmarkmið er að finna þá erfðaþætti eða gen sem stuðla að næturvætu. Vitað er að næturvæta liggur töluvert í ættum og er sérstakur áhugi á því að fá með í rannsóknina einstaklinga (bæði börn og fullorðna) sem átt hafa við þetta vandamál að stríða eftir 5 ára aldur.Rannsóknin er samstarfsverkefni Íslenskrar erfðagreiningar og læknanna Kristleifs Kristjánssonar, Ólafs Gísla Jónssonar, Viðars Eðvarðssonar, Þóris B. Kolbeinssonar og Þrastar Laxdal.

  Mörg hundruð manns hafa þegar tekið þátt í þessu verkefni en nýir einstaklingar verða áfram teknir í rannsóknina um óákveðinn tíma þar sem nákvæmni niðurstaðna vex með auknum fjölda þátttakenda. Vonast er til að þessi rannsókn muni stuðla að aukinni þekkingu á orsökum næturvætu sem gæti mögulega komið að gagni við meðferð eða fyrirbyggjandi aðgerðir í framtíðinni.

  Þátttaka í rannsókninni er að sjálfsögðu öllum að kostnaðarlausu og fyrir þá sem vilja taka þátt eða fræðast meira um rannsóknina er velkomið að hafa samband við Maríu Muller hjúkrunarfræðing í síma 520-2800 í Þjónustumiðstöð rannsóknaverkefna við Nóatún í Reykjavík.