Næringarefnum bætt í matvæli

Öll þurfum við nauðsynleg næringarefni til að halda heilsu. Hollt, fjölbreytt fæði getur veitt okkur öll þessi efni, þó með fáeinum mikilvægum undantekningum og þá sérstaklega D-vítamín sem ekki fæst í nægjanlegu magni úr algengu fæði. En verði fæðið of fábreytt eða lítilfjörlegt verða vítamín og steinefni oft af skornum skammti. Ákveðnir hópar, ekki síst aldraðir, eru líklegri en aðrir til að fá ófullnægjandi næringu. Ein leið til að tryggja sem flestum bætiefnaríkt fæði og koma í veg fyrir skort er að bæta einstökum efnum í matvæli.

 

Hvað er átt við með íblöndun bætiefna?

Talað er um íblöndun bætiefna í matvæli  þegar næringarefnum, yfirleitt vítamínum og/eða steinefnum, hefur verið bætt í matvæli við framleiðslu þeirra. Þetta hefur aðallega verið gert í þrennum tilgangi:

  • Til að endurheimta bætiefni sem tapast við framleiðslu, geymslu eða meðferð matvæla.
  • Við framleiðslu vöru sem líkir eftir annarri vöru í útliti og næringarlega séð, t.d. smjörlíki.
  • Til að auka næringargildi matvæla til hagsbóta fyrir neytendur.

 

Bætiefni sett í matvæli til að bæta lýðheilsu

Dæmi eru um að íblöndun einstakra efna í ákveðin matvæli sé lögbundin eða að reglugerðarákvæði hvetji til íblöndunar í því skyni að bæta heilsu almennings eða hópa fólks.

Dæmi um slíka íblöndun eru:

·        D-vítamín í mjólk víða á norðurhveli.

·        Joð í salt víða um heim þar sem joðskortur er landlægur.

·        Járn og B-vítamín í mjöl.

Til að íblöndun bætiefna virki sem lýðheilsuaðgerð – þ.e. viðhaldi eða bæti heilsu – er mikilvægt að matvaran sem um ræðir sé vandlega valin og nái til alls þorra markhópsins. Íblöndun efna í mörg eða margs konar matvæli á markaði er ekki æskileg þar sem það eykur líkur á að fólk fái það mikið af einstökum næringarefnum að það skaði heilsuna.Ráðlagðir dagskammtar af bætiefnum segja til um það magn bætiefna sem talið er fullnægja þörfum flestra en einnig hafa verið settar ráðleggingar um efrimörk neyslu t.d. í nýjum norrænum næringarráðlegginum.
Sjá t.d. www.lydheilsustod.is

 

Er alltaf æskilegt að blanda bætiefnum í matvæli?

Undanfarið hefur færst í vöxt að framleiðendur óski eftir að blanda bætiefnum í ýmsar matvörur, til að gera þær meira aðlaðandi fyrir neytendur. Slík íblöndun getur í sumum tilvikum verið villandi sérstaklega þegar varan er mikið sykruð eða feit  því vítamínbætingin gefur í skyn að um sérstaka hollustuvöru sé að ræða. Eins getur íblöndun bætiefna í margar vörur orðið til þess að neytendur eigi á hættu að fá of stóra skammta af einstökum næringarefnum. En í sumum tilvikum getur markaðurinn og lýðheilsan átt samleið og óskir framleiðenda um íblöndun orðið til að bæta heilsu almennings.

 

Hætta á ofneyslu bætiefna

Eftir því sem vítamín- eða steinefnabættum matvælum fjölgar aukast líkurnar á ofneyslu bætefna, t.d. ef í flest eða öll matvæli sem viðkomandi neytir yfir daginn hefur verið bætt efnum. Hættan á ofneyslu er meiri fyrir ákveðin næringarefni en önnur, þar sem bilið á milli ráðlagðrar neyslu og efri marka neyslu er þröngt. Sem dæmi um slík efni má t.d. nefna A- og D-vítamín, níasín, fólasín, járn og steinefni. Það er því mikilvægt að eftirlit sé með vítamínbætingu matvæla. Hér á landi þurfa framleiðendur og innflytjendur að sækja um leyfi fyrir íblöndun bætiefna í matvæli til Umhverfisstofnunar.

Vítamínbætt matvæli geta ekki komið í staðinn fyrir fjölbreytt mataræði. Oftast er aðeins fáeinum vítamínum eða steinefnum bætt í fæðuna, og mataræðið getur orðið einhæft ef neytendur treysta alfarið á að fá öll nauðsynleg næringarefni úr vítamínbættum matvælum.  Fjölbreytt mataræði með grófmeti og ríflegri neyslu af grænmeti og ávöxtum er æskilegasti kosturinn.

 

Frá Landlæknisembættinu