MS sjúkdómurinn

MS eða Multiple Sclerosis er algengasti taugasjúkdómurinn sem veldur fötlun í Evrópu og þar sem Evrópubúar hafa sest að, s.s. N-Ameríku, Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Algengara er að konur fá MS en karlar (2:1). Fyrstu einkenni koma oftast fram á aldrinum 20-40 ára eða í 80 % tilfella. Sjúkdómurinn kemur að jafnaði í köstum sem standa yfir í nokkra daga, vikur eða mánuði. Köstin ganga síðan alveg til baka eða að hluta. Einkennin eru margvísleg en algengust eru sjóntruflanir, blinduköst eða tvísýni, dofi í útlimi og bol, máttleysi í útlim eða útlimum, jafnvægisleysi við gang og klaufska í höndum, verkir og mikil þreyta og úthaldsleysi.

Sjúkdómurinn getur verið mildur með sama sem engri fötlun eftir 30 ár en því miður getur gengið illa í sumum tilfellum, þar sem þörf er á hækjum eða hjólastól eftir nokkur ár. Orsök MS er óþekkt en það er nokkuð víst að það er samspil á milli erfða og umhverfisþátta.

Síðastliðin 7 ár hefur verið mjög góð samvinna milli MS sjúklinga og Íslenskrar erfðagreiningar. Tilgangur rannsóknarinnar er að staðsetja gen sem orsaka MS og að greina stökkbreytingar og þátt þeirra í tilurð sjúkdómsins. Jafnframt að gera frekari úttekt á faraldsfræði og erfðum MS á Íslandi. GAMES er sameiginleg erfðarannsókn á MS í Evrópulöndunum og erum við þátttakandur í þeirri rannsókn í samvinnu við DeCode.

Greining á MS er oftast auðveld en getur verið erfið og dregist, þar sem það fyrirfinnst ekkert greingarpróf. Segulómun og mænuvökvarannsókn eru hjálpleg við greiningu.

Mikilvægt er að sjúklingur fái meðferð, þó svo að sjúkdómurinn sé því miður ekki enn læknanlegur. Fyrst er að nefna lyf gegn sjúkdómnum sjálfum. Þar er í fyrsta sinn verið að beita lyfjum (Interferon Beta) sem hafa bein áhrif á sjúkdómin og bæði fækka og milda köstin og seinka versnun. Auk þessa er háskammtasterameðferð oft notuð til að stytta og milda MS versnunarköst.

Að öðru leyti er mikilvægt að meðhöndla sum einkenni s.s. verki, sýkingar o.s.frv. með lyfjum. Sjúkraþjálfun hjá sérhæfðum sjúkraþjálfara getur komið að miklu gagni.

Sjá einnig efni um MS-sjúkdóminn á vísindavefnum.