MS-sjúkdómur

 • Hvað er heila- og mænusigg (MS)?
 • MS-sjúkdómur (Multiple sclerose) er taugasjúkdómur sem leggst á taugafraumur miðtaugakerfisins þ.e. heila og mænu. Hann lýsir sér með skemmdum á taugaslíðrinu (myelín) sem umlykur enda taugafrumnanna. Slíðrið er nauðsynleg einangrun til þess að taugaboð geti borist með eðlilegum hraða eftir taugafrumunum. Ef boðin berast of hægt , missir sjúklingurinn stjórn á hreyfingum og ýmissi annarri starfsemi líkamans. Þegar slíðrið skemmist myndast örvefsskellur (plaques) í stað heilbrigða slíðursins og þannig minnkar hæfni taugafrumunnar til þess að leiða taugaboðin áfram og þau fara mun hægar en eðlilegt er. Sjúkdómurinn er algengari hjá konum en körlum og hann gerir oftast vart við sig á aldurinum milli tvítugs og fertugs. Tíðni sjúkdómsins er mishá eftir heimshlutum og hæst á norðlægum svæðum jarðar.

  Hver er orsökin?

  Orsökin er enn óþekkt. Nokkrir þættir eru taldir spila saman og hafa sameiginleg áhrif, s.s. umhverfi, t.d. veirusýkingar, ákveðnir vefjaflokkar, erfðir og einhvers konar röskun í ónæmiskerfinu. Talið er að samspil flestra þessarra þátta valdi sjúkdómnum. Erfðamynstur sjúkdómsins er ekki þekkt en það hefur lengi verið vitað að ættingjar MS-sjúklings eru líklegri til þess að fá sjúkdóminn en þeir sem eiga ekki ættingja með MS. Verið er að leita að galla í erfðaefni mannsins sem gæti orsakað sjúkdóminn.

  Hver eru einkennin?

  Einkennin koma í köstum sem geta þróast á nokkrum dögum eða vikum, síðan dregur úr þeim. Eftir að kastinu lýkur getur sjúklingurinn ýmist orðið jafn góður aftur eða beðið varanlega skerðingu á færni. Það fer síðan eftir því hversu stór skemmd hefur orðið á taugakerfinu og hvar hún er staðsett hve mikil skerðing einstaklingsins verður. Enginn veit hversu langur tími líður áður en næsta kast byrjar eða hvaða hluti taugakerfisins verður fyrir skemmdum. Fyrsta einkenni MS-sjúkdóms er oftast skyntruflanir, t.d. truflanir á titringsskyni og dofatilfinning. Hita- og kuldaskyn, auk sársaukaskyns getur einnig breyst. Þessar breytingar standa oft svo stutt yfir að fólk gleymir þeim. Annað algengasta einkennið er sjóntaugabólga, sem lýsir sér í skerðingu sjónsviðsins ásamt verk bak við augað og við hreyfingu þess. Bólgan gengur yfir á nokkrum vikum og oftast verður sjónin eðlileg aftur. Í fáum tilfellum verður sjónskerðingin varanleg og er það gjarnan miðhluti sjónsviðsins sem skaddast. Þessum einkennum fylgja oft almenn einkenni, t.d. þreyta, höfuðverkur, og verkir í útlimum en þau geta einnig fylgt öðrum sjúkdómum og eru því ekki sértæk fyrir MS-sjúkdóminn. Byrjunareinkenni geta einnig verið lömun, óstöðugleiki, svimi, breytingar á skaphöfn og vandamál með þvaglát.

  Það má segja að aðaleinkenni sjúkdómsins séu tímabundinn köst og örvefsskellur á taugafrumum í miðtaugakerfinu.

  Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?

  Læknirinn byggir sjúkdómsgreininguna á sjúkrasögu sjúklingsins ásamt frekari rannsóknum. Sjúklingurinn er spurður nákvæmlega út í ýmis einkenni og oft koma fram upplýsingar um einkenni sem sjúklingurinn veitti ekki sérstaka athygli en sem skipta lækninn verulegu máli og hjálpa til við greininguna. Gera þarf segulómun af heila og/eða mænu, með henni er hægt að sjá hvort örvefsskellur séu til staðar í miðtaugakerfinu. Taugalífeðlisfræðilegar aðferðir t.d. sjónhrifrit (VEP) eru notaðar til þess að mæla hversu hratt taugaboðin ferðast eftir taugaendunum og bera saman við eðlilegan leiðsluhraða. Mænuvökvinn er einnig rannsakaður m.t.t. sérstakakra mótefna.

  Hver er meðferðin?

  Sjúkdómurinn er ólæknanlegur. Hinsvegar er hægt að draga úr einkennum og stytta köstin með barksterum sem gefið er í töflu- eða sprautuformi. Verkjalyf eru einnig mikið notuð. Lyfið Interferón hefur einnig verið notað, það virkar á ónæmiskerfið og virðist geta fækkað köstum í takmarkaðann tíma. Interferóni er sprautað í vöðva eða undir húð. Sjúkraþjálfun er mikilvæg til þess að vinna á móti færniskerðingu sem köst skilja eftir sig.

  Er hægt að segja til um framvindu sjúkdómsins við upphaf hans?

  Gangur sjúkdómsins er mjög mismunandi eftir mönnum og það er ekki hægt að segja til um það þegar einstaklingur greinist með sjúkdóminn hvernig framvinda sjúkdómsins verði. Flestir fá í fyrstu köst á nokkurra ára fresti og jafna sig oftast fullkomlega á eftir. Með tímanum hættir batinn að verða eins góður og áður og hjá hluta sjúklinganna minnkar færnin eftir hvert kast. Algengt er að þeir sem veikjast seint, þ.e. eftir 45 ára aldur fá strax slæm köst og lítill bati fái eftir hvert kast. Sumir fá köst á margra ára fresti í upphafi sem verða síðan tíðari eftir því sem þeir eldast, Þeir geta því orðið mjög fatlaðir, mjög fljótt.

  Sjá einnig efni um MS-sjúkdóminn á vísindavefnum.