Mótefnamyndun á meðgöngu

Hvað er mótefnamyndun á meðgöngu?

Mótefnamyndun þýðir að ónæmiskerfi móðurinnar myndar mótefni gegn fóstrinu. Þekktasta dæmið er resusónæmismyndun, en það er fjöldi annarra til.

Fóstrinu má líkja við aðskotahlut í líkama móður. Svo lengi sem frumur móður og fósturs blandast ekki saman þá myndast ekki mótefni. Við fæðingar, fósturlát og aðgerðir eins og til dæmis fylgjuvefssýnatöku, getur blóð úr fóstrinu komist í blóðrás móður. Þetta gerist einnig stundum í eðlilegri meðgöngu, áður en að fæðingu kemur. Ef blóðfrumur barnsins eru öðru vísi en móðurinnar myndar hún mótefni gegn þeim.

Í blóðrannsókn í mæðravernd er athugað hvort blóð verðandi móður sé resusjákvætt eða –neikvætt. Um 15% fólks eru resusneikvætt. Við resusmótefnamyndun er barnið með resusjákvætt blóð og móðirin resusneikvætt. Við slíka resusmótefnamyndun er barnsfaðirinn alltaf resusjákvæður, en þarf ekki alltaf að eignast resusjákvæð börn. Þetta er skýrt nánar hér á eftir, undir resuserfðafræði.

Í mæðravernd er tekið blóð hjá öllum þunguðum konum til þess að finna út blóðflokk hennar og meta hvort mótefni hafi myndast. Þetta er gert í byrjun meðgöngu og sé konan resusneikvæð er mótefnamyndunin skoðuð oft á meðgöngutímanum.

Mótefnamyndun í öðrum blóðflokkakerfum:

Mótefnamyndun getur komið fyrir í mörgum öðrum blóðflokkakerfum, en þær alvarlegustu eru vegna resusmótefnavaka. Aðrar mótefnamyndanir geta orðið en eru mun sjaldgæfari.

Hvað er svona slæmt við mótefnamyndun?

Myndist í blóði móðurinnar mótefni gegn blóði fóstursins getur það orsakað niðurbrot rauðra blóðkorna hjá fóstrinu og blóðleysi í kjölfar þess.Alvarleg mótefnamyndun með blóðskorti er hættuleg og getur valdið fósturdauða. Einnig er álitið að langvarandi blóðleysi geti haft neikvæð áhrif á miðtaugakerfið og jafnvel valdið heilaskaða.

Ef barnið fæðist með blóðskort getur þurft að gera á því blóðskipti. Þetta þýðir að skipt er út blóði barnsins, sem inniheldur mótefni frá móðurinni, og látið er eðlilegt blóð í staðinn. Þessar nýju blóðfrumur geta því lifað lengur og barnið getur eftir það myndað nægilega mikið af blóði til þess að halda uppi blóðmagni sínu.

Hvað er hægt að gera?

Mikilvægast er að fyrirbyggja að mótefnamyndun verði hjá konum. Á Íslandi er resusneikvæðum konum gefið anti-D immunoglobulin eftir fæðingu resusjákvæðs barns og einnig eftir fósturlát.

Immunoglobulin er mótefni sem virkar á þann hátt að það gerir resusjákvæðar blóðfrumur frá fóstrinu óskaðlegar í blóði móðurinnar. Með því að gefa immunoglobulin er komið í veg fyrir það að ónæmiskerfi móðurinnar fari í gang. Til þess að forða að það gerist þarf að gefa anti-D innan 48 klukkustunda eftir fæðinguna eða fósturlátið.

Ekki er gefið immunoglobulin að staðaldri við ónæmismyndun í öðrum blóðflokkakerfum en resus.

Ef ónæmismyndun hefur nú þegar orðið hjá móðurinni

Ef móðirin hefur myndað mótefni á fyrri meðgöngu myndar ónæmiskerfi hennar hraðari og öflugri viðbrögð ef hún er útsett fyrir mótefnavaka (til dæmis resus) í næstu meðgöngu. Þetta er skýringin á því að sjaldan sést alvarleg mótefnamyndun á fyrstu meðgöngu.

Það er ekki mögulegt að hindra myndun mótefna þegar ónæmiskerfið er orðið virkt. Því þarf að fylgjast með hinni þunguðu konu með endurteknum blóðprufum til að fylgjast með styrk mótefnisins. Ef mótefnisstyrkurinn eykst mikið getur þurft að flýta fæðingunni.

Ef þetta gerist mjög snemma á meðgöngunni, til dæmis fyrir 28. viku, þarf að meta áhættuna við að bíða með fæðingu þar til fóstrið hefur stækkað meira.

Resuserfðafræði

Resusneikvæður einstaklingur hefur tvo litninga fyrir neikvæðri resusgerð (r r), einn frá hvoru foreldri. Resusjákvæð manneskja hefur annaðhvort litningagerðina R r eða R R. Resusjákvæður litningur (R) er erfðafræðilega ríkjandi yfir resusneikvæðum litningi (r). Faðirinn getur gefið barni sínu litninginn r eða R, ef hann hefur R r, en eingöngu R ef hann er með R R. Ef faðirinn hefur litningagerðina R R munu börn hans verða resusjákvæð og hætta er á mótefnamyndun sé móðirin resusneikvæð. En effaðirinn hefur litningagerðina R r getur hann átt resusneikvætt barn og þá verður engin ónæmismyndun. Því þarf að rannsaka blóð föðurins ef upp kemur resusmisræmi á meðgöngu.

Þótt sjaldgæft sé eru fleiri undirflokkar í resuskerfinu, sem einnig geta valdið ónæmismyndun og er einnig skimað fyrir þeim á meðgöngu.