Mólýbden


Almennt um mólýbden

Vítamín og sameindir eru settar saman úr fleiri eða færri frumeindum sem bindast hver annarri en mólýbden er frumefni (nr. 42 í lotukerfinu), þ.e. ein frumeind. Þörfin fyrir mólýbden er afskaplega lítil og því flokkast það sem snefilefni en sá flokkur ásamt vítamínunum telst til örnæringarefnanna.

Mólýbden binst mörgum ensímum. 90% af því mólýbdeni sem inn í líkamann kemur er tekið upp í smáþörmunum.

Hvernig nýtir líkaminn mólýbden?

Mólýbden er innbyggt í nokkur ensím (metallóensím) sem eru mikilvæg fyrir brennisteins- og þvagsýruefnaskiptin. Mólýbden er líka í B12-vítamíni. Hugsanlega á mólýbden þátt í að minnka hættuna á tannskemmdum.

Hvaða matur inniheldur mólýbden?

Mjólk og kornmeti.

Mismikið er af mólýbdeni í landbúnaðarafurðum og innihaldið ræðst af efnasamsetningu gróðurmoldarinnar.

Hversu mikil er þörfin fyrir mólýbden?

Ekki er alveg vitað hve mikil þörfin er fyrir Mólýbden en líklega er hún nálægt 25 míkrógrömmum á dag. Til öryggis er ráðlagður skammtur samt hafður stærri, 50-400 míkrógrömm á dag eru ætluð fullorðnu fólki og er nálægt því sem fólk fær í daglegu fæði sínu.

Hver eru einkenni mólýbdenskorts?

Flestir fá nóg mólýbden í fæðunni, til dæmis úr mjólk- og kornmat. Samt getur orðið vart mólýbdenskorts í einstaka tilfellum ef nærst er of lengi á gervimat. Einkennin koma fram sem meðvitundartruflanir.

Mjög sjaldgæfur efnaskiptasjúkdómur getur líka valdið mólýbdenskorti. Þá vantar þann þátt í efnaskiptin sem setur mólýbden inn í ensímin. Fólk með þennan sjúkdóm verður þroskaheft.

Hvernig lýsir of mikið mólýbden sér?

Of mikið af mólýbdeni getur valdið koparskorti og blóðleysi. Einkennin geta líkst einkennum þvagsýrugigtar.

Það er nær ómögulegt að fá of mikið af mólýbdeni með fæðunni og því óþarft að taka inn bætiefni sem innihalda meira en ráðlegan dagskammt af efninu.