Misþroski barna

Matthías Kristiansen, formaður Foreldrafélags misþroska barna
Málfríður Lorange, sálfræðingur
Olga Björg Jónsdóttir, félagsráðgjafi

Glímir barnið við…

 • athyglisbrest og einbeitingarörðugleika?
 • ofvirkni?
 • hvatvísi?
 • eirðarleysi?
 • vanvirkni?
 • skyntruflanir?
 • hreyfiörðugleika?
 • málþroskatruflanir?
 • námsörðugleika?
 • þráhyggju?
 • hegðunartruflanir?

Misþroski er ekki greiningarviðmið heldur samheiti yfir ýmis þroskavandamál sem geta til dæmis birst sem:

 • athyglisbrestur og einbeitingarörðugleikar
 • ofvirkni
 • hvatvísi
 • eirðarleysi
 • vanvirkni
 • skyntruflanir
 • hreyfiörðugleikar
 • málþroskatruflanir
 • námsörðugleikar
 • þráhyggja
 • hegðunartruflanir

ADHD eða DAMP?

Greiningarheitið í Bandaríkjunum er ADHD eða athyglisbrestur með ofvirkni. Greiningarheitið í Svíþjóð og Danmörku er DAMP eða athyglisbrestur ásamt skyn- og hreyfitruflunum.

Hvað er misþroski?

Misþroska einstaklingar glíma oft við athyglisbrest (með ofvirkni), námsörðugleika, félagsleg vandamál og fleira þrátt fyrir eðlilega greind. Því er um að ræða dulda fötlun.

Tíðni

Rannsóknir sýna að nálægt fimm prósentum barna eru með þessi vandamál og að um eitt prósent þeirra á við alvarlegan vanda að stríða, auk þess sem fleiri börn geta verið með vægari einkenni.

Hvað veldur misþroska?

Misþroska má rekja til truflana og/eða vanþroska í miðtaugakerfinu og geta erfðir haft þar áhrif. Vandinn er einnig stundum rakinn til alvarlegra sjúkdóma eða annarra skaðlegra áhrifa á miðtaugakerfið, einkum við meðgöngu. Því er ekki um að kenna uppeldi barna eða starfsáherslum í skólum eða leikskólum.

Hvernig lýsir vandi misþroska barna sér?

1. Einbeitingarörðugleikar

Misþroska börn eiga gjarnan erfitt með einbeitingu, jafnvel þótt vilji sé fyrir að leysa verkefni af hendi. Þau byrja gjarnan á verkefnum en ljúka þeim sjaldan, einkum ef þau eru tímafrek og/eða flókin. Þau eru oft óróleg og eiga að jafnaði erfitt með að hafa stjórn á hegðun sinni.

Þau geta verið vanvirk og átt í erfiðleikum með að takast á við ný verkefni.

Samkvæmt erlendum könnunum getur athyglisbrestur orsakað aukna slysahættu hjá börnum.

2. Hreyfiörðugleikar

Misþroska börn eru oft klunnaleg og eiga erfitt með að stjórna hreyfingum sínum. Þau eiga einnig í erfiðleikum með að ná færni í íþróttum, að læra að hjóla, sippa og renna sér á hjólaskautum svo dæmi séu tekin. Þau eiga oft erfitt með samhæfingu og jafnvægi.

Einkennin eru mismunandi hjá einstaklingum og taka breytingum með aldrinum.

Eltikannanir hafa sýnt að töluverðar líkur eru á að misþroska börn glími við námsörðugleika og félagsleg vandamál í skóla.

3. Skyntruflanir

Misþroska börn eiga oft í erfiðleikum með að skilja og túlka skynáhrif. Þess vegna bregðast þau oft við á annan hátt en búist er við af umhverfinu. Það getur leitt til félagslegra erfiðleika. Skyntruflanir geta komið fram í:

 • slöku tímaskyni
 • erfiðleikum með að átta sig á nýjum aðstæðum og að rata í umhverfinu
 • erfiðleikum með skynjun á eigin líkama. Börnin eru oft snertifælin og skynja ekki hæfilega nálægð í samskiptum við aðra
 • erfiðleikum með að tileinka sér bókstafi og tölur
 • erfiðleikum með að átta sig á stöðu hluta og mynda og afstöðu þeirra
 • erfiðleikum með að átta sig á svipbrigðum, líkamstjáningu, raddblæ eða óyrtri tjáningu

Þessir erfiðleikar geta leitt til þunglyndis og annarra geðrænna vandamál sé ekki brugðist við þeim.

Fullorðinsárin

Allt að helmingur misþroska einstaklinga nær góðum tökum á eigin lífi á fullorðinsárum. Velgengni þeirra er þó einnig háð:

 • skilningi umhverfisins á erfiðleikunum
 • greind
 • alvarleika einkenna
 • félagslegri stöðu

Um helmingur misþroska einstaklinga á við vandkvæði að stríða eins og t.d.

 • skipulagsleysi
 • félagslega einangrun
 • atvinnuleysi eða tíð atvinnuskipti

 

Viss hætta er á að hluti þessa hóps leiðist út í glæpi og vímuefnaneyslu, sé ekki brugðist við vandanum með réttri meðferð.

Hvað er til ráða?

Góð sjálfsímynd er forsenda velgengni og því er lykilatriði að stuðla að því að misþroska börn bíði ekki stöðuga ósigra í daglegu lífi. Börnin læra ekki af ávítum og viðurkenningar og hrós skiptir þau miklu máli. Mikilvægt er að leita eftir sterkum hliðum misþroska barna og styrkja þær. Misþroska börn þurfa skýran ramma í uppeldinu og góð foreldraímynd skiptir þau miklu máli. Foreldrar misþroska barna verða því að horfast í augu við og takast á við þann vanda að ala upp misþroska barn.

Að takast ekki á við vandann getur verið ávísun á enn meiri erfiðleika. Hvert barn er einstakt og því þarf að grípa til aðgerða sem hæfa hverju barni fyrir sig. Mikilvægt er að vera í samstarfi við aðra sem koma að uppeldi misþroska barna, eins og t.d. leik- og grunnskólakennara, sérkennara, íþróttaþjálfara, ættingja og vini.

< Sumum börnum nýtast lyf sem þá draga úr einkennum. Fjölskyldur þurfa oftast stuðning sálfræðinga eða félagsráðgjafa.

Skilningur á vanda misþroska barna, einkennum og áhrifum vandans á umhverfið er forsenda fyrir betra lífi þeirra og fjölskyldna þeirra.

Hvert er hægt að leita?

 • Heimilislæknar og/eða barnalæknar með sérþekkingu á misþroska geta annast frumgreiningu. Krafist er tilvísunar fyrir heimsókn til sérfræðinga.
 • Greining er einnig framkvæmd hjá ungbarnaeftirliti heilsugæslustöðva á Stór Reykjavíkursvæðinu en þar er starfrækt séstakt greiningarteymi. Síminn þar er 585 1350.
 • Sálfræðingar eru margir hverjir sérhæfðir í nákvæmari greiningu. Oft þarf nánari greiningu talmeinafræðings, iðjuþjálfa og/eða sjúkraþjálfara.
 • Barna- og unglingageðdeild Landspítalans við Dalbraut (BUGL – sími 560 25 00) veitir börnum með ofvirkni og athyglisbrest þjónustu gegn tilvísun.
 • Félagsráðgjafar hvar sem þeir starfa geta leiðbeint foreldrum um hvar hægt er að leita félagslegrar þjónustu. Slík leiðsögn er mikilvæg þar sem aðstæður breytast ört, m.a. með hliðsjón af aldri og þjónustuþörf barna.
 • Á Geðdeild Landspítalans (sími 560 17 70 / 560 17 40) er veitt neyðarþjónusta.
 • Eirð sf, Fræðslu- og ráðgjafaþjónusta um uppeldi og geðheilsu barna og unglinga starfar að Suðurlandsbraut 6. Síminn þar er 553 99 66.
 • Foreldrafélag misþroska barna rekur upplýsinga- og fræðsluþjónustu að Laugavegi 178. Allir þeir sem áhuga eða þörf hafa á að afla sér upplýsinga um misþroska geta leitað þangað, hvort heldur til að spyrjast fyrir um þjónustu fyrir misþroska börn, fræðsluefni, fræðslufyrirlestra og/eða námskeið fyrir foreldra. Síminn þar er 581 11 10 og bréfasími er 581 11 11 og opið er alla virka daga kl. 14 til 16.

Helsta hlutverk Foreldrafélags misþroska barna er að fræða foreldra og aðra sem vilja kynna sér misþroska. Fræðsluefni félagsins er sent til skóla, leikskóla og annarra stofnana þeim að kostnaðarlausu. Einnig geta félagar óskað eftir að kennarar á öllum skólastigum og aðrir sem vinna með misþroska börn fái sent fræðsluefni án endurgjalds.

Félagar í Foreldrafélagi misþroska barna fá:

 • sent fréttabréf félagsins með greinum og upplýsingum minnst þrisvar á ári
 • samantekt á því helsta sem félagið hefur gefið út frá upphafi
 • ráðgjöf og upplýsingar um fyrirlestra á vegum félagsins
 • aðgang að miklu magni fræðsluefnis í eigu félagsins
 • afslátt af þátttökugjaldi á fræðslunámskeið
 • upplýsingar um íþróttastarfsemi á vegum Íþróttafélags fatlaðra fyrir misþroska börn
 • ráðgjafaþjónustu sérfræðinga á auglýstum símatímum
 • tækifæri til að kynnast öðrum foreldrum misþroska barna og læra af reynslu annarra
 • tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum og reynslu á framfæri.

Foreldrafélag misþroska barna
Laugavegi 178
Pósthólf 5475
125 Reykjavík
Sími 581 11 10
Bréfasími 581 11 11
Opið virka daga kl. 14 til 16 nema yfir hásumarið.
Árgjald er nú kr. 1.800,-.