Mikilvægi virðingar og sjálfstæðis

Hverjum einstaklingi er það afar mikilvægt að njóta virðingar og finnast hann vera þátttakandi í samfélagi okkar, – skoðanir hans séu virtar og það sé þörf fyrir hann.  Allir hafa líka þörf fyrir viðurkenningu og allir hafa þörf fyrir að láta gott af sér leiða.

Allt sem þér viljið að aðrir gjöri yður skuluð þér og þeim gjöra

Gullna regla biblíunnar segir svo margt, hún segir svo margt um lífið og tilveruna.  “Allt sem þér viljið að aðrir gjöri yður, skuluð þér og þeim gjöra”.  Ef við hugsuðum öll með þessum hætti væri líklega margt öðruvísi í þessum heimi.

Hættum að stinga hausnum í sandinn og láta sem vandamálin komi okkur ekki við og það sé einhver annar sem eigi að leysa þau.  Náungakærleikur og samfélagsábyrgð eru nokkuð sem við eigum að meta meira.  Margir þarfnast okkar í sínu daglega lífi og við getum víða látið gott af okkur leiða. Þannig líður okkur líka sjálfum betur með því að bæta líðan annarra..

Skert starfsorka

Margir eiga undir högg að sækja í okkar, annars ágæta samfélagi. Ýmsir búa við skerta starfsorku og sumir þurfa stuðning til þess að geta lagt sitt af mörkum til samfélagsins. Allir hafa jafn mikla þörf fyrir að leggja sitt af mörkum, hvort sem mætt er í vinnu tvisvar í viku eða tvo tíma á dag.  Það er svo mikilvægt að vera með, hafa eitthvað fyrir stafni, finnast maður skipta máli og fá tækifæri á eigin forsendum.  Við þurfum að leggja miklu meiri áherslu á að hjálpa fólki að taka þátt í lífinu, atvinnulífinu jafnt sem félagslífinu.  Það er hluti þeirrar mikilvægu viðleitni að draga úr félagslegri einangrun, þunglyndi og annarri andlegri og líkamlegri vanlíðan.  Með færri vandamálum, ánægðari og heilbrigðari einstaklingum spörum við samfélaginu mikinn kostnað.

Fyrirtæki og stofnanir geta gert miklu betur í því að bjóða fólki með skerta starfsorku og fólki sem þarf stuðning vinnu. Það hefur orðið mikil breyting á atvinnumarkaðnum undanfarin ár, eignarhald fyrirtækja er í ríkara mæli á mörgum höndum og arðsemiskrafa hluthafa mikil.  Því er oft á tíðum erfiðara að ákveða að bjóða t.d. þroskahömluðum eða andlega eða líkamlega fötluðum starf, sérstaklega ef starfið krefst stuðnings. Það er enginn til að taka ákvörðun um slíkt og þar fyrir utan er svo auðvelt að segja nei við slíkum bónum, því eignarhaldið er einhverra annarra og hver vísar á annan þegar leitað er t.d. eftir starfi með stuðningi.

Fyrirtæki gefa gjarnan háar upphæðir til félagasamtaka, sem er góðra gjalda vert, en það má líka láta gott af sér leiða með því að bjóða upp á störf fyrir einstaklinga með skerta starfsorku og einstaklinga sem þurfa stuðning.

Virðing og sjálfstæði

Sjaldan er góð vísa of oft kveðin, en virðing og sjálfstæði er okkur öllum mikilvægt.  Allir geta lagt eitthvað af mörkum til samfélagsins.  Einn góður vinur minn sem þarf mikinn stuðning í lífinu, hefur nú þörf fyrir að komast í vinnu.  Við vorum að velta fyrir okkur hvað gæti hentað honum um daginn.  Þá kom fram þessi frábæra hugmynd. Getur hann ekki bara verið gleðigjafi?  Einmitt!  Af hverju ekki?  Ég er sannfærð um að hvar sem hann mun hefja störf mun hann svo sannarlega verða til mikillar gleði fyrir allan þann vinnustað.

“Ég hef aldrei kynnzt manni sem hefur verið einskis nýtur.  Allir geta eitthvað, fái þeir aðeins tækifæri til þess.”

                                                                        Henry Ford (1863-1947)