Mikil aukning á blóðsmitandi lifrarbólgum á árinu 2007

Óvenju margir greindust með lifrarbólgu B á árinu 2007, eða 48 manns. Um helmingur
þeirra voru innflytjendur og vitað var um átta sem höfðu sprautað sig með fíkniefnum.
Síðast gekk yfir faraldur meðal fíkniefnaneytenda á árunum 1989–1991 (sjá mynd).
Mikilvægt er að bjóða fíkniefnaneytendum, sem ekki hafa smitast af lifrarbólgu B, bólusetningu
gegn sjúkdómnum til að koma í veg fyrir nýjan faraldur í þessum hópi. Hlutur
innflytjenda meðal þeirra sem greinast með lifrarbólgu B er enn nokkuð hár.
Lifrarbólga C er langalgengasta lifrarbólgan hér á landi. Meginþorri þeirra sem smitast
eru fíkniefnaneytendur sem sprauta sig. Á árinu 2007 greindust 95 manns með lifrarbólgu
C, sem er umtalsverð aukning miðað við árin á undan. Þessi aukning er vísbending
um hugsanlega aukningu á misnotkun fíkniefna með sprautum og nálum og ógætilega
notkun þeirra þar sem skipst er á menguðum áhöldum.
Lifrarbólga B meðal innflytjanda til landsins er viðvarandi lifrarbólga sem stafar yfirleitt af
smiti frá móður til barns í þeim löndum þar sem sjúkdómurinn er landlægur. Hins vegar
má ætla að lifrarbólga C meðal innflytjenda eigi sér svipaða skýringu og hjá Íslendingum.

Grein þessi birtist fyrst í Farsóttarfréttum, 4. árgangur 5. tölublað Maí 2008