Meniere-sjúkdómur

Inngangur

Meniere-sjúkdómur eða völundarsvimi eins og hann er nefndur á íslensku, er sjúkdómur í innra eyra sem orsakast af breytingum á vökvamagni. Sjúkdómurinn einkennist af skyndilegum svima og ógleði, uppköstum, verri heyrn og suði fyrir eyra. Sviminn getur komið án fyrirvara og orðið svo mikill að nauðsynlegt reynist að styðja sig við eitthvað til þess að hníga ekki niður. Kastið getur varað í nokkra klukkutíma.

Framgangur

Dæmigerður framgangur sjúkdómsins er á þann veg að fólk fær svimaköst af og til, sumir nokkuð oft, en þess á milli koma einkennalaus tímabil sem geta varað upp undir eitt ár. Á fimm til tíu árum versnar heyrnin smám saman hjá sumum og þá oftast á öðru eyranu. Á endanum verða svimaköstin vægari, jafnvel engin, en eftir stendur suð fyrir eyra og í sumum tilfellum skert heyrn.

Ef köstin eru tíð er nauðsynlegt að forðast aðstæður sem valda streitu þar sem talið er mögulegt að mikil streita geti ýtt undir þessi köst. Einnig er ráðlegt að hvíla sig vel. Sú vitneskja að engin hætta er á ferðum sem og að þekkja sjúkdóminn vel getur haft róandi áhrif þrátt fyrir að kastið sé slæmt.

Völundarsvimi er sjúkdómur í innra eyra og orsakast af breytingum á vökvamagninu þar.

Meðferð

Engin lyf eru til sem geta læknað völundarsvima, komið í veg fyrir kast eða dregið alveg úr einkennunum. Hins vegar er mögulegt í samráði við lækni eða sérfræðing að fara í róandi meðferð sem getur gagnast við svimanum. Yfirleitt verður fólk að prófa sig áfram áður en heppilegasta meðferðin finnst. Ef köstin eru tíð og verulega slæm er í einstaka tilfellum gripið til skurðaðgerðar.

Mismunagreining

Nokkrir aðrir sjúkdómar líkjast völundarsvima og er þeim stundum ruglað saman við hann. Þar má nefna faraldssvima, sem reyndar er ekki skilgreindur sem sjúkdómur heldur er einkenni sem svipar til þeirra sem koma fram við völundarsvima og því oft sett undir sama hatt.

Annar er jafnvægistaugarþroti sem er sjúkdómur með svipuð einkenni. Einnig er talið að í sumum tilfellum sé um að ræða veirusýkingu sem veldur svima, í byrjun jafnvel stöðugum en þegar frá líður kemur hann með hléum. Þetta veldur einnig ósjálfráðum hreyfingum í augum. Loks má nefna ógleði, uppköst og óskýra sjón sem eru algeng einkenni í tilfellum þar sem um svima af völdum sýkingar er að ræða.

Ólíkt völundarsvima fylgja suð fyrir eyra og skerðing á heyrn ekki þessum sjúkdómum eða einkennum. Ekki er til meðferð við þessum sjúkdómum, en hins vegar er hægt að slá á sum einkennin með lyfjum. Einkennin hverfa oftast með tímanum án þess að valda varanlegum skaða.


Grein þessi birtist fyrst á Vísindavef HÍ