Meltingarsár, magabólgur og sýklar

Eru sýklar orsök fleiri sjúkdóma en talið hefur verið?

Læknisfræðin, eins og flestar aðrar rótgrónar fræðigreinar, er mjög íhaldssöm í eðli sínu. Sterk rök og góðar vísindalegar sannanir þarf þess vegna að leggja fram til að kollvarpa eldri kenningum. Þetta er undantekningarlítið af hinu góða, veitir fræðunum festu og gerir það að verkum að læknar eru ekki sífellt hlaupandi eftir óljósum og ósönnuðum kenningum. Dæmi um hvað nýjar kenningar geta átt erfitt uppdráttar er rúmlega 20 ára kenning um það að meltingarsár (sár í maga eða skeifugörn) sé bakteríusýking.

Í lok síðustu aldar var lýst nokkrum tegundum af gormlaga bakteríum sem fundust í meltingarfærum dýra. Í upphafi þessarar aldar var því lýst að í magaslímhúð sjúklinga með magasár eða magakrabbamein væri oft að finna sumar af þessum gormlaga bakteríum. Á þessum árum tóku menn einnig eftir því að sjúklingar með sár í skeifugörn höfðu oftast magabólgur og sjúklingar með sár eða krabbamein í maga höfðu mjög oft bólgur annars staðar í slímhúð magans. Þetta þótti einkennilegt en á því fannst ekki skýring fyrr en um 80 árum síðar. Árið 1975 var birt skýrsla þar sem fundist höfðu gormlaga bakteríur í maga nálægt 80% sjúklinga með magasár en þessi skýrsla vakti enga athygli. Önnur skýrsla 1983 sem lýsti tengslum milli magabólgu og gormalaga bakteríu mætti einnig mikilli tortryggni en upp úr því fóru hjólin samt að snúast. Bakterían sem um ræðir nefnist Helicobacter pylori og segja má að 1994 hafi endanlega verið búið að viðurkenna að hún sé einn af mikilvægustu orsakaþáttum magabólgu og meltingarsára og að hún eigi einnig þátt í að orsaka magakrabbamein. Rannsóknir undanfarinna ára hafa sýnt að bakterían Helicobacter er nánast alltaf til staðar í maga sjúklinga með langvarandi magabólgur og bólgurnar læknast ef bakteríunni er eytt með lyfjum. Næstum allir sem hafa sár í skeifugörn eru með Helicobacter í maganum og þegar bakterían er upprætt læknast sárið og kemur yfirleitt ekki aftur. Tengsl Helicobacter og sára í maga eru ekki eins sterk, bakterían finnst einungis í 80% sjúklinganna. Undantekningar frá þessu öllu eru sjúklingar sem fá magabólgur eða meltingarsár sem aukaverkun lyfja, einkum bólgueyðandi gigtarlyfja. Þrjár hóprannsóknir hafa ennfremur sýnt að einstaklingar með Helicobacter í meltingarfærum eru í meiri hættu en aðrir að fá magakrabbamein en ekki er enn vitað hve sterkur þessi áhættuþáttur er. Ef tekið er heilbrigt fólk innan við þrítugt, í Norður-Evrópu eða Norður-Ameríku, kemur í ljós að um 10% eru með Helicobacter í meltingarfærum og þessi tala fer hækkandi með aldrinum. Ekki er vitað með vissu hvernig á þessu stendur, hugsanlega gæti verið um að ræða mismunandi afbrigði af bakteríunni þar sem sum valdi sjúkdómum en önnur ekki en einnig gætu ástæðurnar verið aðrar. Smitleiðir eru ekki þekktar að fullu en vitað er að sóðaskapur eykur hættu á smiti, m.a. skemmdur matur. Nýlega kom í ljós að kettir geta borið bakteríuna í sér og gætu þeir, og hugsanlega önnur gæludýr, átt þátt í að útbreiða smit.

Sýkingu með Helicobacter er hægt að greina með ýmsum aðferðum sem hver um sig hefur sína kosti og galla. Við magaspeglun er hægt að taka lítinn bita úr slímhúð magans og greina bakteríuna í sýninu. Í blóðsýni má greina hvort sjúklingurinn er með mótefni gegn bakteríunni. Nýjasta prófið, og það mest spennandi, er gert á þann hátt að sjúklingurinn drekkur vökva sem inniheldur þvagefni sem er merkt með kolefnissamsætunni C13 (ekki geislavirkt). Ef bakterían er til staðar í maganum, klýfur hún þvagefnið og úr því myndast kolsýra sem sjúklingurinn andar frá sér. Hálftíma eftir að vökvinn hefur verið drukkinn blæs sjúklingurinn í lítinn poka sem síðan er sendur til greiningar á kolsýru með C13. Þetta próf er bæði næmt og öruggt og efni og sýni má senda í pósti þannig að sjúklingurinn getur verið í öðrum landshluta.

Bakterían Helicobacter er oftast ágætlega næm fyrir sýklalyfjum en samt er erfitt að eyða henni í meltingarfærum. Ein af ástæðum þessara erfiðleika er að bakteríurnar búa um sig inni í slímhúð maga og skeifugarnar þar sem sýklalyfin komast illa að. Þessi baktería hefur einnig mikla hæfileika til að verða ónæm fyrir lyfjunum. Þekktar eru ýmsar lyfjablöndur sem hafa reynst uppræta bakteríuna hjá allt að 95% sjúklinganna. Þessar lyfjablöndur innihalda venjulega tvö sýklalyf auk lyfs sem dregur úr sýrumyndun í maganum.

Verið er að þróa betri aðferðir til að greina og lækna sýkingu með Helicobacter. Eitt af því sem lofar góðu í dýratilraunum er bóluefni, þannig að þess er vonandi ekki langt að bíða að hægt verður að bólusetja fólk fyrir magabólgum og meltingarsári.