Meinatæknir


Heiti stéttarfélags/stjórnar:

Meinatæknafélag Íslands

Nafn á tengilið:

Formaður: Ásta Björg Björnsdóttir

Skrifstofustjóri: Margrét Eggertsdóttir

Skrifstofa Meinatæknafélags Íslands er opin mánudaga, þriðjudaga og miðvikudaga frá 13-16, utan opnunartíma tekur símsvari við skilaboðum.

Aðsetur:

Lágmúla 7 (3.hæð),
108 Reykjavík.

Símar: 588-9770 og 895-7559
Faxnúmer: 588-9234
Veffang: http://www.bhm.is/mti/
Netfang: mti@bhm.is

Starfssvið (hlutverk):

Starfssvið meinatækna er mjög fjölbreytt. Meinatæknar vinna flestir við rannsóknastörf, t.d. á rannsóknastofum sjúkrahúsa og annars konar rannsóknastofum.

Andstætt því sem margir halda þá felst starf hins almenna meinatæknis í fleiru en því að taka blóðsýni. Þetta er reyndar hluti af starfinu hjá mörgum þeirra, en síðan eru líka margir meinatæknar sem aldrei taka blóðsýni né hitta sjúklinga augliti til auglits. Flest fela störfin í sér rannsóknir á lífsýnum (t.d. blóði) frá mönnum.

Rannsóknastörfin eru fjölbreytileg því rannsóknastofurnar eru mismunandi. Innan meinatækninnar eru margar greinar og getur meinatæknir því sérhæft sig í ákveðinni eða ákveðnum greinum, fer þetta líka eftir því á hvers konar rannsóknastofu viðkomandi kýs að starfa. Algengustu, eða stærstu, greinarnar eru: blóðfræði, meinefnafræði, sýklafræði og líffærameinafræði. Óhætt er þó að segja að mesti vaxtarbroddurinn í dag sé í erfðavísindarannsóknum og er sameindalíffræðin (þ.e. vinna með erfðaefni) ört vaxandi grein og kjörinn vettvangur fyrir meinatækna.

Með tilkomu stórra fyrirtækja í erfðavísindarannsóknum fjölgaði mjög störfum fyrir meinatækna. Í dag er svo komið að mikil eftirspurn er eftir meinatæknum á markaðnum. Lítil nýliðun hefur orðið í stéttinni á síðustu árum og hefur það líka haft áhrif á jafnvægið milli framboðs og eftirspurnar.

Rannsóknagjöld/kostnaður:

Ef sjúklingur þarf að fara í blóðrannsókn (eða annars konar rannsóknir) að beiðni læknis, þá greiðir sjúklingur hluta þess kostnaðar sem rannsóknunum fylgja. Hér er þó ekki um hærri upphæðir að ræða en:

1000 krónur (almennir fullorðnir sjúklingar) 400 krónur (fullorðnir m/afsláttarkort) 300 krónur (öryrkjar, lífeyrisþegar, og börn (0-18 ára)) 100 krónur (börn, lífeyrisþegar og öryrkjar með afsláttarkort) Það sem uppá vantar í kostnaði rannsóknanna greiðist af Tryggingastofnun.

Afsláttarkort fá þeir sem greitt hafa ákveðna upphæð í rannsóknagjöld á því ári sem stendur yfir.

Þurfi sjúklingur að fara í fleiri en eina rannsókn innan ákveðins tíma, eða ef rannsóknir eru framkvæmdar á fleiri en einum stað, þá flokkast seinni rannsóknin sem framhaldsrannsókn og þá þarf sjúklingur ekki að greiða neitt.

Er starfsemin niðurgreidd af Tryggingastofnun/Verkalýðsfélögum:

sbr. hér að ofan

Er viðkomandi stétt viðurkennd af heilbrigðisyfirvöldum:

Heilbrigðisráðherra veitir starfsleyfi að undangenginni viðurkenndri menntun.

Menntun:

Nám sem liggur að baki, hva Meinatæknanám er 4ja ára nám(þ.e. 8 anna) á háskólastigi sem lýkur með B.Sc. prófi.

Bóklegur hluti kennslunnar, sem og hluti verklegrar kennslu fer fram í Tækniskóla Íslands. Stærstur hluti verklegrar kennslu og þjálfunar fer hins vegar fram á rannsóknastofum sjúkrahúsanna í Reykjavík.

Nám í meinatækni er lánshæft.

Tilhögun námsins er í grófum dráttum þannig:

1. ár (2 annir): Líffæra-, lífeðlis- og frumulíffræði, almenn-, lífræn- og verkleg efnafræði, lífefnafræði, eðlisfræði, tækjaeðlisfræði. Krafist er grunnþekkingar í tölvufræðum.

2. ár (2 annir): Verklegt nám í meinarannsóknum á kennslurannsóknastofu og á viðurkenndum rannsóknastofum. Fyrirlestrar í grunnaðferðafræði, rannsóknatækni, ónæmisfræði, lyfjafræði, tölfræði, siðfræði, lífefnafræði bókleg og verkleg og meinefnafræði.

3. ár (2 annir): Verklegt nám í meinarannsóknum á kennslurannsóknastofu og á viðurkenndum rannsóknastofum. Fyrirlestrar í erfðafræði og sameindalíffræði rannsóknatækni, sýklafræði og blóðmeinafræði.

4. ár (2 annir): Verklegt nám í meinarannsóknum á kennslurannsóknastofu og á viðurkenndum rannsóknastofum. Fyrirlestrar í líffærameinafræði, rekstri og stjórnun. Verkleg valgrein og undirbúningur rannsóknaverkefna. Lokaverkefni er lýkur með ritgerð.

Framhaldsnám í meinatækni:

Nýlega var farið að bjóða upp á mastersnám í greininni við Læknadeild Háskóla Íslands. MS námið við læknadeild er rannsóknarverkefni og tekur minnst 2 ár, þ.e. skráning við læknadeild og skólagjöld í 2 ár, 60 einingar. Verkefnið sjálft getur verið á bilinu 30-45 einingar og afgangurinn kúrsar á háskólastigi, annað hvort sérstaklega kenndir fyrir MS nema eða eitthvað annað tengt verkefninu.

Einnig eru ýmsir möguleikar á framhaldsmenntun erlendis.

Annað sem brýnt er að taka fram:

Ef þú sem lest þetta hefur áhuga á meiri upplýsingum varðandi nám meinatækna, þá getur þú haft samband við:

Þór Steinarsson ( thorst@ti.is ), deildarstjóra Meinatæknadeildar Tækniskóla Íslands.

Einnig má fá ítarlegri upplýsingar varðandi námið hér

UNNIÐ AF: Guðm. Bjarka Halldórssyni, meinatækni á Sjúkrahúsi Akraness fyrir hönd Meinatæknafélags Íslands (MTÍ).