Meðvirkni – fjölskyldusjúkdómur

Meðvirkni byrjar sem eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum.

Skilgreining á meðvirkni:

 

 • Samansafn viðhorfa, viðbragða og tilfinninga, sem gera lífið sársaukafullt. (Sandra Smalley)
 • Einkennir þá sem eru í tilfinningasambandi við fíkil, eiga pabba, mömmu, afa, ömmu eða systkini, sem er fíkill, eða hafa alist upp í tilfinningalega bældri fjölskyldu. (Sharon Wegschieder- Cruse)
 • Tilfinningalegt, hugrænt og hegðunarlegt ástand sem þróast í hópum fólks þar sem ekki má tjá tilfinningar, né ræða persónuleg mál eða vanda í samskiptum. (Robert Subby)

Meðvirkni = samansafn viðhorfa

Meðvirkur einstaklingur hefur lært ákveðið hegðunarmynstur og aðlagað sig að þeim aðstæðum sem hann býr við. Með því t.d. að taka ekki ábyrgð á ástandinu og koma sér út úr sjúklegum aðstæðum heldur aðlaga sig þeim. Meðvirknin er í raun leið til að skilgreina sig í gegnum aðra.

Dæmi um viðhorf:

 • Viðurkenning annarra segir til um manngildi mitt.
 • Ef einhverjum líður illa þá ber mér að bregðast við því. Mér getur ekki liðið vel á meðan.
 • Aðrir eiga að sjá þegar ég á í vanda og/eða líður illa og bregðast við því.
 • Ef einhver gerir eitthvað rangt, þá ber mér að bregðast við því. A.m.k. þarf ég að mynda mér skoðun á því.
 • Mér finnst ég strengjabrúða sem umhverfið og annað fólk togar í að vild. Ég er fórnarlamb.
 • Mér finnst aðrir vera strengjabrúður og ég því þurfa að toga á ákveðinn hátt í þeirra strengi. Ég er bjargvættur.

Þessi viðhorf eru arfleifð okkar og því sjaldnast nóg að vinna með áföll bernskunnar án þess að skoða viðhorfin sem viðhalda meðvirknisviðbrögðum og tilfinningasárum.

Allmargir eru ómeðvitaðir um þessa hegðun sína. Fyrir marga er þetta eðlilegt og nánast meðfætt og hefur fylgt okkur frá æsku, en birtist svo ef við verðum fyrir áföllum eða atviki, sem opnar á s.k. meðvirkni.

Meðvirkni = samansafn tilfinninga

Margir aðstandendur/meðvirkir finna sterkt fyrir eigin tómleika eða tilgangsleysi og reyna þessvegna að fylla upp í tómleikatilfinninguna með að taka ábyrgð á öðrum einstaklingi. En þetta reynist oftast jafn erfitt og að setja tvo fætur í sama skóinn. Það reynist ekki síður erfitt að ganga þannig um, en að komast í skóinn.
Skömm og sektarkennd koma mikið við sögu í allri meðvirkni og undir niðri finnst aðstandandanum að hann eigi ekki rétt á að eiga eigið líf sem fullgildur einstaklingur.
Annað sem meðvirkur einstaklingur gerir, er að flækja sig í líf annarra og trúa því að það sé það sama og að vera í innilegu sambandi við aðra.
Meðvirkur einstaklingur leitar að eigin „sjálfi“ utan við sig í öðru fólki og aðstæðum. Sjálfsástin er engin og sjálfsvirðingin týnd. Og þegar fólk spyr meðvirkan einstakling hver hann sé, eru viðbrögð hans oft „hver viltu að ég sé?“ og hann reynir svo að haga lífi sínu eftir því!

Dæmi um tilfinningar:

 • Sektarkennd.
 • Bæld reiði, beiskja.
 • Kvíði.
 • Einmanaleiki.
 • Höfnunarkennd.
 • Skömm.
 • Tilgangsleysis-tilfinning = þunglyndi.

Dæmi:

 • Sektarkennd vegna viðhorfsins, að ég beri ábyrgð á lífi annarra.
 • Reiði og beiskja vegna vihorfsins að aðrir eigi að bera ábyrgð á mér. Og vegna inngróinna viðbragða að tjá ekki reiði jafnóðum.
 • Þunglyndi og vonleysi vegna óraunhæfra væntinga.

Meðvirkni = samansafn viðbragða

Eitt vandamálið við meðvirkni er að að fólk hefur engin persónuleg mörk, engin landamæri. Og án eðlilegra marka er erfitt að vera í fullnægjandi samskiptum við aðra einstaklinga án þess að flækja sig í líf þeirra. Allir eru flæktir inn í veruleika hvers annars. Fólk veit ekki hvar það endar og aðrir byrja. Er alltaf inní höfðinu á öðrum og að reyna að breyta öðru fólki og aðstæðum.

Dæmi um viðbrögð:

 • Ég gleymi sjálfri/um mér, mínum skoðunum, þörfum og áhugamálum nálægt öðrum.
 • Ég á auðvelt með að skilgreina persónuleika, hegðun og vanda annars fólks.
 • Ég segi hluti sem ég ekki meina til að fá viðurkenningu annarra.
 • Ég reyni að finna út hvað veldur líðan og gjörðum fólks, ef ég finn það ekki á mér.
 • Það særir mig þegar fólk er ekki jafn næmt á mig og ég á það.

Fókusinn í lífi mínu er á öðrum en mér. Þessi viðbrögð eru inngróin, búa oft í taugakerfi okkar og því ekki nóg að breyta viðhorfum sínum til að losna frá meðvirkninni. Álíka og að læra nudd bara af bókum. Þetta þarfnast meðvitaðra æfinga.

Reglur í meðvirkum/alkóhólískum fjölskyldum:

1. Það á ekki að tala um vandamál.
2. Ekki bera tilfinningar þinar á torg.
3. Samskipti eiga að vera óbein og helst í gegnum þriðja aðila. Sjaldnast talað umbúðarlaust og beint við þann sem málið varðar.
4. Vertu sterkur, góður og fullkominn og hafðu rétt fyrir þér.
5. Gerðu okkur stolt af þér (óraunhæfar væntingar).
6. Gerðu eins og ég segi, en ekki eins og ég geri.
7. Það er ekki æskilegt að bregða á leik og vera of ærslafullur.
8. Við skulum ekki ýfa öldurnar eða fitja upp á einhverju sem gæti valdið leiðindum eða óróleika. – „Ekki rugga bátnum“.
Meðvirkni er þróun líkt og alkóhólismi og aðstandendur verða veikari og veikari og mynda aukið þol líkt og alkóhólistinn. Fjölskylda sem er með óvirkt samskiptamynstur er í ójafnvægi.

Dæmi um fjölskyldu í ójafnvægi:

A. Hrygg, leið, döpur, mikið um líkamleg streitueinkenni s.s. magabólgur, vöðvabólgur og höfuðverk.
B. Lágt sjálfsmat, lélegt mat á fjölskyldunni.
C. Lítið sjálfsöryggi, tjáskiptaörðugleikar, jákvæðar tilfinningar tjáðar á hörkulegan hátt eða alls ekki. Ásakanir og öll tjáskipti eins lítil og unnt er.
D. „Halda saman“. Hér eru málin leyst innan fjölskyldunnar. Redda hlutunum fyrir horn.
E. Gamalt er geymt en ekki gleymt.
F. Einangrast, hver frá öðrum og stórfjölskyldunni.
G. Óraunhæfar væntingar til annarra fjölskyldumeðlima og sjálfs sín.

En hvar byrja þessi ósköp? Gera má ráð fyrir að öll meðvirkni lærist í bernsku innan fjölskyldunnar. Sem börn þurfum við að skilgreina okkur og afmarka frá foreldrum okkar. Um leið er það hverju barni nauðsynlegt að fá eðlilega uppörvun, hrós, viðurkenningu og athygli frá foreldrum sínum. Barninu er nauðsynlegt að finna að það sé einhvers virði sem einstaklingur. Í fjölskyldum þar sem samskiptin eru veik „óvirk“ byggist tilveruréttur/tilgangur hvers og eins á að hann geti tekið ábyrgð á einhverjum öðrum, lagt sitt líf til hliðar. Barnið lærir af foreldrum sínum það sem fyrir því er haft. Barnið sem fær ekki hrós, viðurkenningu og kærleiksríkan aga lærir fljótt að leita eftir þessum hlutum með því að m.a. þóknast öðrum. Ef tilfinningalegum þörfum okkar sem börnum er ekki fullnægt með heilbrigðum hætti leitum við sem fullorðnir einstaklingar að leiðum til að uppfylla þessar þarfir.

Ef fólk elst upp í fjölskyldu sem ekki gat sett heilbrigð mörk fer það með þann lærdóm út í lífið. Það hefur verið rannsakað hvaða áhrif það hefur á börn að alast annarsvegar upp við harðneskju og hinsvegar við frjálsræði. Í ljós kom að þetta tvennt hefur sömu áhrif á börn! Hvorugt kennir börnum að setja og virða mörk. Mörkin liggja einhverstaðar þarna á milli.

Í meðvirkum „veikum“ fjölskyldum hefur enginn persónuleg mörk. Allir eru í einum graut að vinna í öllum öðrum en sjálfum sér. Ákveðin hlutverkaskipan er í gangi. Í meðvirkri fjölskyldu ríkir stífni í samskiptum. Allt er gert til að viðhalda óbreyttu ástandi. Fjölskyldan er hrædd við allar breytingar.

Þróun frá afneitun til upplausnar. Við skulum skoða hvernig fjölskyldan þróast með alkóhólistanum.

A. Afneitun. Afneitar ástandinu. Neitar að horfast í augu við aukin vandamál.
B. Felur/skömm. Felur sig fyrir umhverfinu. Reynir að halda öllu í horfinu (oft fínt heima). Finnur fyrir skömm. Einangrun byrjuð.
C. Sektarkennd. Aðstandandinn lítur á sig sem orsök drykkjunnar. Ég hefði ekki átt að….
D. Minnistöp. Langvarandi svefnleysi, vannæring og spenna valda minnistruflunum.
E. Vandinn ekki ræddur. Aðstandandinn glatar hæfninni til eðlilegra tjáskipta og fer því oft að gráta eða rífast. Börnin einangrast og taka oftar en ekki afstöðu með þeim sem drekkur.
F. Stjórnun/stjórnleysi. Aðstandandinn reynir að draga úr eða koma í veg fyrir drykkju með t.d. kynlífi, stjórnun innkaupa, afþökkun samkvæma. Notaðar eru aðferðir eins og „ef þú ferð ekki í meðferð þá…. Ef þú elskaðir mig þá færir þú í meðferð eða…“.
G. Þegar við reynum að stjórna því sem við ráðum ekki við missum við stjórnina á því. Það fer að stjórna okkur.
H. Flótti/skilnaður. Umhverfisflótti. Drekkur með og/eða flutt í annað hverfi. Flytur frá vandamálinu, skilnaður.
I. Sjálfsvorkunn. Engin skilur mig eða getur hjálpað mér.
J. Vonleysi. Er alltaf að reyna að stjórna því sem ég ræð ekki við. Mistekst hvað eftir annað. Stöðugir ósigrar og minnkandi sjálfsvirðing.
K. Vanrækir þarfir. Tannlæknar, fatakaup, klippingar, heimsóknir o.fl.
L. Einangrun. Félagsleg og tilfinningaleg einangrun. Hrun sjálfsvirðingar.

Í meðvirkri fjölskyldu er tilfinningum afneitað eða hafnað. Um ótta, öryggisleysi, sorg, skömm, reiði o.fl. er ekki rætt. Ekkert sagt um að þessar tilfinningar séu eðlilegar, engin hluttekning sýnd. Áhugaleysi og þar af leiðandi tilgangsleysi festir sig í sessi innan fjölskyldunnar. Þögn ríkir, aldrei talað um vissa hluti. Rifist yfir smátriðum, fullkomnunaráráttan ræður ríkjum. Eitt er sagt en annað liggur í loftinu, sífelld misvísandi skilaboð! Allt er skilyrt, líka væntumþykjan. Mér þykir vænt um þig… en bara ef þú ferð út með ruslið. Ekkert fæst ókeypis.

Vandamálið er ekki vandamálið, heldur það að vandamálinu er afneitað. En vandamálið stjórnar samt lífi fjölskyldunnar. Það er eins og bleikur fíll sé í miðri stofunni, allir sjá hann en enginn talar um hann.

Í alkóhólískri fjölskyldu er fólk alltaf með óraunhæfar væntingar. Þess vegna eru stöðug vonbrigði, reiði og tilheyrandi refsiaðgerðir og sjálfsásakanir.

Fjölskylduvarnirnar

Stjórnunin mistekst og fjölskyldan upplifir vaxandi sektarkennd. Fer að einangra sig, tengsl við vini og kunningja rofna, áhugamálum fórnað og fjölskylduboðum fækkar.

Fjölskyldan byggir upp varnir, fer að reyna að hafa áhrif með því að breyta aðstæðum og hegða sér á ákveðinn hátt. Hlutverkaskipti koma fram með skýrum hætti, stuðningsmenn, hetjur, svartir sauðir, trúðar og týnd börn.

Allt er gert til að verja orðstír alkóhólistans og finna aðra sökudólga. En þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir skánar alkinn eða ástandið ekki neitt. Og aðstandandinn verður smátt og smátt reiðari og reiðari. En ásakar sjálfan sig samt meir og meir fyrir ástandið og fer að trúa þvi að hann sé ómögulegur.

Fjölskyldulífið hrynur

Þegar þörfum einstaklinganna um öryggi, ást og tilfinningalegt jafnvægi er ekki fullnægt hrynur fjölskyldulífið og upphlaðin streita, kvíði og mikil skömm, sektarkennd og reiði brýst fram. Með vaxandi erfiðleikum og tilfinningalegum þvingunum koma fram kynlífsvandamál þar sem kynlíf er notað sem stjórntæki eða refsivöndur. Vonleysi er hér farið að vaxa ásamt örvæntingu. Hver einstaklingur er hér farinn að bjarga sér sjálfur.

Til að forðast meðvirkni eru ýmsar leiðir

Ein leiðin er að setja mörk og það eru bæði innri og ytri mörk

Þegar mörk eru sett má nota t.d. eftirfarandi:
1. Einföld og skýr skilaboð eins og „ég held“ eða „mér finnst“.
2. Muna eftir því að mörkin sem þú setur verða prófuð.
3. Styrkja mörkin með því að láta ekki undan.
4. Setja aðeins mörk sem þú getur staðið við.
5. Endurskoða mörkin eftir ákveðinn tíma.
6. Nota sinn eigin hraða til að vinna eftir. Finna hvað það er gott að geta staðið á sínu.
7. Taka eitt skref í einu ná jafnvægi þar. Byrja svo á því næsta og þannig koll af kolli.

Aðstandendur verða veikir eins og alkóhólistinn. Aðstandendur þróa meðvirkni eins og alkinn alkóhólismann. Og verða að lokum jafn veikir, eða jafnvel veikari en þeir. Bati aðstandandans frá meðvirkni er þróun, ferli sem stöðugt þarf að æfa.

 • Að skoða tilfinningarnar getur verkað ógnandi. En með því að þora að skoða þær og viðurkenna að þú hafir þær, ertu á réttri leið. Leið sem hjálpar þér út úr meðvirkninni. Leið sem gerir þig að sjálfstæðum einstaklingi. Leyfðu öðrum að gera það sem þeim ber. Þú berð ábyrgð á þér sem einstaklingi. Hefur rétt til að hafa skoðanir og þarfir.
 • Settu upp plan fyrir framtíðina um hvernig þú vilt lifa þínu lífi og forðast meðvirkni.
 • Hugsaðu um sjálfan þig eins og þú myndir vilja hugsa um aðra. Þú átt það sannarlega skilið af sjálfri/um þér.
 • Vertu í nútíðinni. Það sem er liðið – er liðið. Þú getur ekki breytt því. En þú getur tekið með þér inn í framtíðina þá þekkingu og reynslu sem þú telur þér til góðs.
 • Horfðu á það sem þú ert ánægð/ur með í eigin fari og njóttu þess. En mundu að þú hefur leyfi til að breytast og þroskast.
 • Mundu að þú ert sjálfstæður einstaklingur, sem átt rétt á að hafa skoðanir og velja þér kunningja jafnt sem vini. Jafnt innan fjölskyldunnar sem utan.

Percy B. Stefánsson, dagskrárstjóri á Teigi.