MedicAlert – merki sem gæti bjargað mannslífi

 

Við getum þurft meira en rétt lyf og greiðan aðgang að læknum eða sjúkrastofnunum ef við veikjumst.  Margir eru haldnir alvarlegum sjúkdómum sem geta versnað með litlum fyrirvara.  Sumir þessara sjúkdóma geta valdið því að einstaklingurinn getur hvorki tjáð sig né leitað aðstoðar og getur það valdið örlagaríkum drætti á því að viðkomandi fái rétta meðferð.  Má þar nefna sykursýki, flogaveiki, alvarlegt ofnæmi og ýmsir hjartasjúkdómar.

MedicAlert er kerfi sem kemur til  hjálpar í neyðartilfellum.  Á sérstakt merki, sem borið er sem armband eða hálsmen, eru grafnar upplýsingar um

  • sjúkdóm eða hættuástand viðkomandi,
  • símanúmer vaktstöðvar sem geymir spjaldskrá hans og
  • spjaldskrárnúmer.

Á Íslandi er það Slysadeild Landspítala háskólasjúkrahúss í Fossvogi sem þjónar sem vaktstöð og er á merkið grafið grænt símanúmer Slysadeildarinnar.  Spjaldskrárnúmerið veitir lækninum, sem fær einstaklinginn til meðferðar aðgang að spjaldskránni á öllum tímum sólarhrings.  Þannig ,,talar” MedicAlert fyrir hinn sjúka og tryggir að viðeigandi upplýsingar geti borist réttum aðila á örfáum mínútum, hvar sem veikindin ber að höndum.

Kerfið er fyrst og fremst sniðið fyrir þá sem eru haldnir alvarlegum eða langvinnum sjúkdómum.  MedikAlert getur þó gagnast þeim sem eru hraustir á þann hátt, að sá sem ber merkið tryggir að hægt sé að ná sambandi við aðstandendur hans fyrirvaralaust, ef eitthvað skyldi koma fyrir.

MedicAlert samtökin eru ekki rekin í hagnaðarskyni heldur er eina markmið þeirra að vernda líf og tryggja rétta meðferð þegar mikið er í húfi.

Það er auðvelt að gerast aðili að MedicAlert og það veitir ævilanga tryggingu.  Þátttökugjald er innifalið í verði merkis og er það aðeins greitt einu sinni í eitt skipti fyrir öll.  Að tilkynna breytingar af einhverju tagi er þó ávallt á ábyrgð þess sem merkið ber.  Í dag kostar ævilöng áskrift á bilinu 4.000 til 7.500 kr. eftir því hvaða gerð af merki viðkomandi velur sér.

Læknar fylla út sérstakt eyðublað sem síðan er undirritað af umsækjenda og lækninum og því er loks komið á skrifstofu MedicAlert á Íslandi, Sóltúni 20, 105 Reykjavík.

MedicAlert var stofnað í Bandaríkjunum 1956 af dr. M.C. Collins, en dóttir hans var afar hætt komin af bráðalosti eftir að hafa fengið stífkrampasprautu sem hún hafði ofnæmi fyrir.  Hann vildi með kerfinu, fyrirbyggja læknisfræðilegt slys eins og dóttir hans hafði orðið fyrir.

MedicAlert á Íslandi var stofnað 1985 að frumkvæði Lionshreyfingarinnar.  Það er sjálfseignarstofnun sem starfar með leyfi MedicAlert International.  Að MedicAlert á Íslandi standa Lionshreyfingin og nokkur félagasamtök sjúklinga.

Þú getur fengið allar nánari upplýsingar um MedicAlert á eftirfarandi veffangi:

http://www.lions.is/MedicAlert.doc

Það getur verið skammt milli lífs og dauða hjá þeim sem glímir við alvarlegan sjúkdóm.  Með fyrirhyggju getum við stuðlað að auknu öryggi okkar sjálfra og aðstandenda okkar.  Það er ekki til lítils að vinna.