Medic Alert, merki sem gæti bjargað mannslífi

Besta sjúkdómsneyðarkerfi í heimi.

Sjúklingar þarfnast meira en réttra lyfja og greiðs aðgangs að læknum og sjúkrastofnunum. Margir eru haldnir sjúkdómum, sem geta versnað skyndilega, án þess að það geri boð á undan sér. Sumir þessara sjúkdóma eru þess eðlis, að sjúklingurinn getur hvorki tjáð sig né leitað aðstoðar. Þetta getur valdið örlagaríkum drætti á því, að hann fái rétta meðferð. Í versta tilfelli getur það valdið varanlegum skaða eða jafnvel dauða.

Læknasamtök Bandaríkjanna gera ráð fyrir því, að fimmti hver Bandaríkjamaður sé haldinn sjúkdómi, sem gæti verið lífshættulegur. Við skulum ekki ýkja hlutina hvað okkur Íslendinga varðar, en það er engin ástæða til að ætla að heilsufar okkar sé miklu betra en Bandaríkjamanna að þessu leyti. Sykursýki, flogaveiki, alvarlegt ofnæmi og ýmsir hjartasjúkdómar eru meðal 200 sjúkdóma sem geta leitt til slíkra neyðartilvika, nema sérstakar ráðstafanir séu gerðar til að koma í veg fyrir það.

MedicAlert er einmitt kerfi sem kemur til hjálpar í neyðartilfellum. Á MedicAlert merkið, sem ýmist er borið sem armband eða hálsmen, eru grafnar upplýsingar um sjúkdóm eða hættuástand sjúklings, símanúmer vaktstöðvar (á Íslandi, grænt númer á Slysadeild Landspítala Fossvogi), sem geymir spjaldskrá sjúklingsins og spjaldskrárnúmer. Spjaldskrárnúmerið veitir lækninum, sem fær sjúklinginn til meðferðar, aðgang að spjaldskránni á öllum tímum sólarhringsins. Símtöl til vaktstöðvarinnar, hvaðan sem er úr heiminum, eru greidd af MedicAlert. Geti sjúklingurinn ekki talað eða gert grein fyrir sér og veikindum sínum „talar” MedicAlert fyrir hann og tryggir, að viðeigandi upplýsingar geti borist réttum aðilum á örfáum mínútum, hvar sem veikindin ber að höndum. Þótt MedicAlert kerfið sé fyrst og fremst sniðið fyrir þá sem eru veikir, er þó ekkert sem hindrar, að þeir sem hraustir eru notfæri sér það einnig. Sá sem ber MedicAlert merkið er á öruggan hátt merktur og það tryggir einnig, að hægt sé að ná sambandi við aðstandendur hans fyrirvaralaust, ef eitthvað skyldi koma fyrir.

Kerfi sem miðar að björgun mannslífa

Samtökin eru ekki rekin í hagnaðarskyni og eina markmið þeirra er að vernda líf og tryggja sjúklingum rétta meðferð, þegar mikið er í húfi. MedicAlert er kerfi sem stuðlar að hraðri og nákvæmri læknisþjónustu, innan spítala sem utan og býður upp á bestu neyðarupplýsingar sem völ er á. Ef neyðaratvik eiga sér stað, geta bæði sjúklingurinn og læknirinn verið öruggari, vegna þess að sjúkdómurinn eða hættuástandið greinist strax.

Stór kostur, lítill kostnaður

Það er auðvelt að gerast aðili að MedicAlert og það veitir ævilanga tryggingu. Þátttökugjald, 3000 kr. er innifalið í verði merkis og er aðeins greitt einu sinni þótt fylgst sé reglulega með því, það sem eftir er ævinnar, að allar upplýsingar séu réttar í spjaldskránni. Að tilkynna breytingar af einhverju tagi er þó ávallt á ábyrgð þess sem merkið ber.

Hvernig gerist maður félagi í Medic Alert?

Læknar fylla út sérstakt MedicAlert eyðublað. Eyðublaðið er undirritað af umsækjanda og lækninum og því er síðan komið á skrifstofu MedicAlert á Íslandi, Sóltúni 20, 105 Reykjavík, sími 561 3122.

Medic Alert International

var stofnað í Bandaríkjunum 1956 af dr. Marion C. Collins, en dóttir hans var afar hætt komin af bráðalosti eftir að hafa fengið stífkrampasprautu sem hún hafði ofnæmi fyrir. Hann vildi, með MedicAlert kerfinu, koma í veg fyrir læknisfræðilegt slys eins og dóttir hans hefði getað orðið fyrir. MedicAlert er starfandi í 20 löndum í öllum heimsálfum.

Medic Alert á Íslandi

MedicAlert var stofnað á Íslandi 30. janúar 1985 að frumkvæði Lionshreyfingarinnar. Það er elsta MedicAlert félag á Norðurlöndum. MedicAlert á Íslandi er sjálfseignarstofnun sem starfar með leyfi MedicAlert International. Að MedicAlert á Íslandi standa Lionshreyfingin og nokkur félagssamtök sjúklinga. MedicAlert á Íslandi hefur fengið sérstök meðmæli landlæknis, Læknafélags Íslands og Hjúkrunarfélags Íslands. Þáverandi heilbrigðisráðherra, Matthías Bjarnason, tók við MedicAlert merki númer 1.

MedicAlert á Íslandi hefur opna skrifstofu í Lionsheimilinu Sóltúni 20, Reykjavík, sími 561 3122.

Sjúkdómsgreining og hættuástand eru skráð á ensku. Á þann hátt hafa notendur kerfisins fullt gagn af því á ferðalögum erlendis.

Þannig vinnur öryggismerkið

1. MedicAlert merkið.

Merkið er annaðhvort notað sem armband eða hálsmen. Á framhlið þess er merki MedicAlert. Efst á bakhliðinni er símanúmer vaktstöðvarinnar (lands- og símanúmer) á Slysadeildinni Fossvogi Reykjavík. Þar fyrir neðan er sjúkdómsgreining, hættuástand eða annað sem viðkomandi vill vekja athygli á. Neðst er spjaldskrárnúmer, sem veitir aðgang að upplýsingum í spjaldskránni.

Merkin fást úr ryðfríu stáli eða gullhúðuð. Armböndin eru í tveimur stærðum, en hálsmenið í einni stærð. Verð stálmerkjanna er kr.3000 og þeirra gullhúðuðu kr. 6500.

2. Kort sem geymist í seðlaveski.

Ætlast er til að menn hafi armbandið stöðugt á sér, en auk þess fá allir kort sem þeir eiga að bera í seðlaveski. Kortið er á stærð við greiðslukort. Á því eru persónulegar upplýsingar, sjúkdómsgreining og meðferð ef við á.

3. Símaþjónusta allan sólarhringinn.

Á vaktstöðinni er varðveitt sjúkraskrá með öllum nauðsynlegum upplýsingum. Sjúkraskráin er útfyllt af lækni og undirrituð af honum og sjúklingnum. Með því að hringja í vaktstöðina getur læknir og hjúkrunarfólk fengið vitneskju um sjúkdóminn, lyfjameðferð og sjúkrahúsdvöl. Einnig er þar nafn ættingja, nafn læknis og símanúmer þeirra.

ALLAR UPPLÝSINGAR ERU TRÚNAÐARMÁL OG ÞVÍ AÐEINS LÁTNAR AF HENDI GEGN SPJALDSKRÁRNÚMERI Á MERKI EÐA KORTI. TILKYNNA ÞARF SKRIFSTOFU MEDIC ALERT ÞEGAR Í STAÐ EF MERKIÐ EÐA KORTIÐ TAPAST.

Hér fyrir neðan eru nokkur dæmi um sjúkdóma og hættuástand skráð á ensku:

DESEASE DIAGNOSIS:

Adrenalectomy, Adrenal Insufficiency, Agorphobia, Alzheimer´s Disease, Amnesia, Angina, Aortic Valve Prosthesis, Aphasia, Arthritis, Asthma, Atherosclerosis, Blind, Very Rare Blood Type, Cancer, Cardiovascular Disease, Cataracts, Cerebral Palsy, Cerebral Aneurysm, Coronary Bypass, Coronary Heart Disease, Claustrophobia, Cystic Fibrosis, Diabetes, Deaf, Down´s Syndrome, Epilepsy, Emphysema, Glaucoma, Hiatal Hernia, Hypertension, Hypoglycemia, Heart Condition, Hemolytic Anemia Hodgkin´s Disease, Kidney Transplant, Laryngectomia, Leukemia, Lupus Erythematosus, Malignant Hyperthermia, Meniere´s Disease, Migraine Headaches, Multiple Sclerosis, Muscular Dystrophy, Myasthenia Gravis, Osteoarthritis, Pacemaker, Partial Paralysis, Parkinson´s Disease, Prothesis, Pulmonary Embolism, Raynaud´s Disease, Renal Failure/Hemodialysis, Rheumatoid Arthritis, Senil Dementia, Situs Inversus, Sickle Cell Anemia, Uretero-Intestinal Anastomosis.

ALLERGIES AND SENSITIVITIES:

Anesthetics „Caines“, Aspirin, Barbiturates, Bee Stings, Codeine, Cortisone, Demerol, Horse Serum, Insect Stings, I.V.P. Dyes Morphine, Multiple Drugs, Multiple Foods, Mycins, Narcotics, Novocaine, Penicillin, Phenobarbital, Salicylates, Succinylcholine, Sulfa, Sulfonamides, Streptomycin, Terramycin, Tetanus Toxoid, Tetracycline,

TAKING:

Antibiotic, Anticoagulant, Chemotherapy, Cortisone, Methadone, Thyroid, Nitroglycerine, Oral Contraceptive,

SPECIAL SITUATIONS:

Contact Lenses, Organ Donor, Scuba Diver.

Merkin sýnd í eðlilegri stærð.

Merkin eru fáanleg sem armbönd eða hálsmen. Þau eru oftast úr stáli, en einnig fáanleg gullhúðuð.

Hægt er að sjá og velja merkin á skrifstofu Lions og Medic Alert í Sóltúni 20, Reykjavík.

Birt með góðfúslegu leyfi Landssamtaka hjartasjúklinga og Lionshreyfinagarinnar