Meðganga – fyrsta skoðun

Á Íslandi er mæðravernd með því allra besta sem þekkist í heiminum. 

Markmið mæðraverndar er að gæta að og efla heilsu, vöxt og þroska móður, barns og fjölskyldu með eftirliti, stuðningi og fræðslu. Einnig að greina og meðhöndla frávik frá eðlilegri meðgöngu og væntanlegri fæðingu sem fyrst.

Allar verðandi mæður eiga kost á eftirliti á meðgöngu. Að jafnaði skal fyrsta skoðun fara fram á 12. viku meðgöngutímans. Síðan eru reglulegar skoðanir fram að fæðingu. Flestir væntanlegir foreldrar eiga kost á fræðslunámskeiði.

Í fyrsta tíma mæðraverndar/meðgönguverndar er safnað upplýsingum sem taldar eru skipta máli fyrir meðgönguna og komandi fæðingu.

Byrjað er á því að safna öllum almennum upplýsingum s.s. um:  aldur, heimilisaðstæður og búsetu, stöðu, síma o.s.frv.  Auk þessara upplýsinga er farið yfir heilsufar, tíðarhring og fyrsta dag síðustu tíða til að reikna út meðgöngulengd, hæð og venjulega þyngd, sjúkdóma (hugsanlega arfgenga sjúkdóma), hjúskaparstöðu, fyrri meðgöngur og fleira.

Þá eru teknar blóðprufur til að kanna í hvaða blóðflokk móðirin er og hvort hún sé Rhesus mínus eða plús.  Flestar eru rhesus plús, en ef kona er rhesus mínus eða negatíf þarf að fylgjast nánar með því.  Þá eru einnig athuguð mótefni gegn rauðum hundum, sýfilis, blóðrauða og járnbúskap.  Verðandi móðir getur jafnframt óskað eftir því að athuguð séu mótefni gegn HIV veirunni og lifrarbólgu B og C.

Blóðþrýstingur er athugaður og skráður, hlustað er eftir hjartslætti fóstursins og leg þreifað ef það er hægt. 

Þessar upplýsingar eru síðan allar skráðar inn í svokallaða meðgönguskrá.  Í meðgönguskránna eru færðar inn allar upplýsingar meðgöngunnar sem taldar eru skipta máli fyrir komandi fæðingu.  Í lok meðgöngunnar fær hin verðandi móðir síðan þessa skrá og á hún að hafa hana með sér í fæðinguna.