Matvælafræðingar


Heiti fagfélags/stjórnar:

Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands (MNÍ)

Tengiliður:

Jónína Þ. Stefánsdóttir, formaður
Pósthólf MNÍ 8941, 128 Reykjavík
Sími 863 6681

Heiti stéttarfélags/stjórnar:

Stéttarfélag háskólamanna á matvæla- og næringarsviði (SHMN)

Tengiliður:

Sigurður Einarsson, formaður,
Pósthólf SHMN 8389, 128, Reykjavík
Sími 861 2713

Starfssvið (hlutverk):

Matvælafræðin er nýleg vísindagrein sem fjallar um eiginleika matvæla og þau lögmál sem liggja að baki matvælavinnslu, skemmdum á matvælum og geymslu þeirra. Matvælafræðin hagnýtir ýmsar greinar raunvísinda, þar á meðal efnafræði, líffræði og eðlisfræði. Flest matvæli eru samsett úr miklum fjölda efna og ráðast eiginleikar matvælanna því af samspili margra þátta.

Líftækni er mikilvæg í matvælafræði og geta sumar greinar matvælaiðnaðarins talist líftækniiðnaður.

Matvælafræðin tekur í vaxandi mæli mið af rannsóknum í næringarfræði, enda er ljóst að mataræði hefur veruleg áhrif á heilsu og kröfur til hollustu matvæla hafa aukist.

Matvælafræðingar starfa einkum í matvælafyrirtækjum, rannsóknastofum, stjórnsýslu, ráðgjafaþjónustu, sölusamtökum og matvælaeftirliti.

Starfssviðið er einkum rannsóknir og greiningar, vöruþróun, framleiðslustjórnun, gæðastjórnun, gæðamat, innra eftirlit, efnainnihald og merkingar matvæla, hollusta og öryggi matvæla. Ráðgjöf og þjónusta, eftirlit og löggjöf, kennsla og fræðsla.

Matvælafræðingar starfa hjá:
Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins
Matra (Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Iðntæknistofnun)
Hollustuvernd
Fjölda matvælafyrirtækja um allt land

Er viðkomandi stétt viðurkennd af heilbrigðisyfirvöldum:

Heilbrigðisráðuneytið veitir löggildingu starfsréttinda.

Menntun:

Háskólapróf, B.S.próf, M.S., Dr. frá Háskóla Íslands eða erlendum háskólum.

Hliðargreinar/Sérhæfing:

Margir matvælafræðingar hafa farið í framhaldsnám erlendis og nú á síðari árum í auknum mæli hjá Háskóla Íslands. Þeir hafa sérhæft sig í matvælavinnslu, matvælaefnafræði, næringarfræði, matvælaverkfræði, matvælaörverufræði, gæðastjórnun, líftækni.

Nýjungar í stéttinni:

Matvælafræðingar þurfa að fylgjast með þeim miklu breytingum sem eru í matvælaframleiðslu, dreifingu matvæla og neyslu. Breyttur lífsstíll og þarfir fólks kallar á öðruvísi matvæli en voru á markaðnum fyrir fáum áratugum.

Matvæli eru flutt heimshorna á milli ólíkt því sem áður var. Ný hráefni eru notuð, og mörg hráefni og afurðir eru framandi í okkar heimshluta. Nýfæði eru matvæli eða innihaldsefni matvæla sem framleidd eru með nýjum eða nýstárlegum vinnsluaðferðum og matvæli sem ekki eru hefðbundin neysluvara í Evrópu, þ.á.m. eru erfðabreytt matvæli.