Matur og migreni

Því hefur lengi verið haldið fram að ákveðnar fæðutegundir kalli fram migreniköst, matur fellur þannig undir svokallaða „triggera“ sem er þekkt fyrirbrigði í þessu samhengi. Hins vegar eru viðbrögð einstaklinga mismunandi og svara ekki allir því sama. Þessi vísindi hafa því verið  frekar ónákvæm og reyndar hefur það verið svo að sjúklingar áttu að halda dagbók yfir þær fæðutegundir sem taldar voru falla undir þennan flokk og reyna svo að átta sig á því hvað þeim bæri að forðast að innbyrða.

Nokkrar vinsælar fæðutegundir sem hafa verið lengi ásakaðar um þetta eins og þær sem innihalda aminosýruna Tyramin (Rauðvín, kæstir ostar, reyktur fiskur, baunir o.fl), einnig hefur MSG, Nitrötum sem eru í pylsum, súkkulaði, lauk, banana, avocado, mjólkurvörur, hnetur og svo mætti lengi telja verið kennt um þetta í áranna rás.

Nýverið var birt ritrýnd grein í virtu vísindatímariti þar sem gerð var tvíblind rannsókn á mótefnum gegn fæðutegundum og viðbrögðum sjúklinga með þekkt migreni án áru við ákveðnum slíkum kortlögð.

Í ofangreindri rannsókn kom fram marktæk fækkun migrenikasta hjá þeim sem sneiddu framhjá fæðu sem innihélt efni sem einstaklingurinn hafði verið  skilgreindur með hækkað mótefnasvar við. Þarna voru mæld 266 mótefni sem er nóg til að æra óstöðugan. Ég þekki ekki svo gjörla fjölda þeirra fæðutegunda sem eru prófaðar hér í svokölluðu RAST prófi sem er slík blóðrannsókn en er viss um að hann nær ekki þessum fjölda.

Í fyrsta sinni hefur á vísindalegan hátt tekist að sýna fram á tiltölulega óyggjandi samhengi þarna á milli og má með sanni segja að migreniköst sem tengjast fæðuinntöku séu mögulega vegna ofnæmisviðbragða og að ofnæmispróf ættu hugsanlega að vera hluti af greinandi og forvarnandi meðferð migrenisjúklinga.