Matarsýkingar af völdum Campylobacter


Hvar verður sýkingin?

Bakterían veldur bólgu í smáþörmunum og niðurgangi. Campylobacter er ein af þeim bakteríum sem getur valdið svokölluðum ferðamannaniðurgangi. Bakterían sýkir smáþarmana og veldur þar bólgu sem svo aftur leiðir til niðugangs. Meðgöngutíminn, þ.e. frá því bakterían kemst inn í líkamann og þar til einkenni koma fram eru 2–4 sólahringar.

Hver eru einkennin?

 • Vatnskenndur niðurgangur.
 • Lystarleysi og kviðverkir.
 • Hiti.
 • Blóð sést í hægðum.
 • Einkenni ganga yfirleitt yfir á innan við viku.

Fullorðnir verða sjaldan mjög veikir, en börn geta hins vegar veikst alvarlega og geta veikst það alvarlega að sjúkrahússinnlagnar er þörf. Við tíðan niðurgang og uppköst tapast mikill vökvi, sölt og steinefni. Ofþornun verður þegar líkaminn tapar meiri vökva en hann fær og því mikilvægt fyrir alla sem hafa niðurgang að drekka vel. Vökvatapið er komið á alvarlegt stig þegar gómarnir þorna og tungan verður þurr, þegar húðin þornar og springur og þvagið verður dökkt eða þvaglát hætta. Ef einkenni ofþornunar eru á þessa lund ber skilyrðislaust að leita læknis. Sérstaklega ætti að gæta að þessum einkennum hjá börnum og rosknu fólki.

Hvernig smitast sjúkdómurinn?

Algengast er að smitast við að neyta sýktra matvæla s.s. eggja, kjúklingakjöts, mjólkur eða vatns, en einnig getur sýking komið frá öðrum einstaklingi sem er sýktur eða sýktum dýrum.

Hvernig er hægt að forðast sýkingu?

Til að forðast sýkingu er það fyrst og fremst hreinlæti sem gildir, góður handþvottur, hreinlæti við meðhöndlun matvæla og mikilvægt að steikja allan mat við það háan hita að bakteríur drepist og hann sé gegnsteiktur þegar hann er borðaður.

Hvenær á að leita læknis?

 • Þegar niðurgangurinn varir lengur en í 3–4 sólarhringa.
 • Þegar ekki líða nema 10-15 mínútur milli hægða.
 • Ef hægðirnar verða tíðari og kröftugri.
 • Ef magakrampinn ágerist mjög.
 • Ef blóð litar hægðirnar eða slím er í hægðum.
 • Þegar sótthitinn er hærri en 38,9.
 • Við einkenni um vökvatap.
 • Ef húðin eða augun eru gulleit. Það getur bent til þess að lifrin eða gallrásin sé undirlögð af sýkingunni.

Hvernig greinir læknir sjúkdóminn?

Af sjúkrasögu er ljóst ef sjúklingur hefur niðurgang, en ekki er hægt að greina hvaða baktería orsakar niðurganginn nema með því að taka saurprufur sem sendar eru í bakteríuræktun.

Hver er meðferðin?

Í flestum tilfellum gengur sjúkdómurinn yfir á 5–8 dögum. Niðurgangur af völdum Campylobacter svarar vel meðferð með sýklalyfjum, erythromycini eða ciprofloxasini. Niðurgangi fylgir mikið tap á vökva og söltum og því er mikilvægt að passa að drekka vel, ef niðurgangur stendur í meira en sólarhring er mikilvægt að drekka salt og sykurlausn sem hægt er að blanda með því að setja út í 1 lítra af soðnu vatni:

½ tsk (3.5 gr) af matarsalti (natríum klóríð)
½ tsk (2.5 gr) af bökunarsóda (natríumbikarbonati)
¼ tsk (1.5 gr) af gervisalti (kalíum)
4 msk (20 gr) af sykri

Þessa blöndu er einnig hægt að fá í lyfjaverslunum og þá þarf einungis að setja duftið út í vatn.

Sjúklingum sem eru að taka þvagræsilyf er ráðlagt að hafa samband við sinn lækni, en í sumum tilfellum getur verið þörf á að breyta lyfjaskömmtum venga hættu á ofþornun. Aldrei skal sjúklingur sjálfur þó breyta skömmtunum.