Matarsýkingar af völdum Botulisma


Hvernig verður sýkingin?

Botulismi er mjög sjaldgæfur en alvarlegur sjúkdómur sem orsakast af eiturefnum sem baktería sem kallast Clostridium Botulinum framleiðir. Til eru þrjú form af Botulisma.

Botulismi vegna neyslu á mengaðri fæðu:bakterían kemst inn í líkamann vegna neyslu á mengaðri fæðu, algengast er að um niðursoðin matvæli sé að ræða og koma einkenni fram 8–36 klst. eftir neyslu á mengaðri fæðu.

Botulismi venga sýkingar í gegnum sár: þá er það bakterían sjálf sem fjölgar sér í sárinu og veldur einkennum. Þau koma seinna fram eða allt að 2 vikum eftir að sár komst í snertingu við sýktan jarðveg.

Botulismi hjá ungabörnum: bakterían eða sporar hennar komast í meltingarveg barnsins og fjölgar sér þar. Þekkt er að bakterían finnist í hunangi og því er ráðlagt frá því að setja hunang á snuð ungabarna.

Hver eru einkennin?

Einkenni eru tilkomin vegna þess að eitrið sem bakterían framleiðir truflar boðefni vöðva og því kemur fram vöðvaslappleiki sem hefur svo víðtæk áhrif.

Fyrstu einkenni eru oft munnþurrkur, tvísýni og augnlok síga.
Síðan fylgja ógleði, uppköst, kviðverkir, niðurgangur og kyngingarerfiðleikar.

Og að lokum öndunarerfiðleikar sem geta orðið að öndunarstoppi.

Hvernig er hægt að forðast sýkingu?

Bakterían mydnar svokallaða spora sem framleiða eitrið sem er svo hættulegt. Þessa spora er algengast að finna í heimagerðum niðursoðnum matvælum. Til þess að drepa bakteríuna er nauðsynlegt að sjóða matvæli við 120 C í a.m.k. 30 mínútur, auðveldara er að drepa eitrið og þarf ekki að sjóða nema við 80 C í 30 mínútur til að drepa það. Til að forðast sýkingu gegnum sár er mikilvægt að hreinsa sár vel og forðast að opin sár komist í beina snertingu við jarðveg.

Hvenær á að leita læknis?

Ef grunur leikur á að einstaklingur geti verið sýktur af Botulisma er mjög mikilvægt að leita strax á bráðamóttöku þess sjúkrahúss sem næst er.

Hvernig greinir læknir sjúkdóminn?

Sjúkdómurinn er greindur út frá sjúkrasögu og skoðun, auk þess er nauðsynlegt að taka blóðsýni til að staðfesta eiturefnið sem bakterían framleiðir og einnig er hægt að leita að því í saur. Einnig er mikilvægt að rannsaka þann mat sem talinn er valda einkennum.

Hver er meðferðin?

Um er að ræða bráðasjúkdóm og þarf meðferð að fara fram á bráðadeild sjúkrahúss. Meðferðin byggist á meðhöndlun þeirra einkenna sem koma fram. Ef fram koma öndunar- erfiðleikar, þarf sjúklingur aðstoð við að halda öndunarvegi opnum og aðstoðað er við öndun þegar þess þarf með notkun öndunarvélar. Auk þess er gefið mótefni við Botulinum eiturefninu til að upphefja virkni þess.