Matarfíkn

 • Hvað er matarfíkn?

  Matarfíkn er sjúkdómur. Matarfíklar eru ekki eins og heilbrigt fólk þegar neysla matar er annarsvegar. Matarfíklar eru öðruvísi en aðrir neytendur. Venjulega hætta menn að borða þegar þeir eru orðnir saddir. En ekki við. Heilbrigt fólk felur ekki mat til að borða síðar leynilega í einrúmi. Það gerum við. Heilbrigt fólk notar ekki mat til að slá á óöryggi og ótta eða til að flýja áhyggjur og vandamál. Það gerum við. Heilbrigt fólk finnur hvorki til sektarkenndar né skömmustu eftir að hafa borðað. En það gerum við.

  Við sem þjáumst af matarfíkn héldum framan af að vandi okkar fælist í skorti á viljastyrk eða skynsemi. Meðan við trúðum því hélt okkur áfram að versna. Ef matur er fyrir framan okkur, eða í boði, þá getum við hvorki treyst skynsemi okkar né viljastyrk til að taka eðlilegar ákvarðanir um hvað við borðum. Við höfum mörg hundruð sinnum heitið sjálfum okkur og öðrum þess að falla ekki í ofát. Við höfum prófað alla mögulega megrunarkúra og iðulega önnur úrræði svo sem viðtalsmeðferð, dáleiðslu og pillur. Samt gátum við ekki hætt hömlulausu áti.

  Sjúkdómurinn matarfíkn er þríþættur. Hann er líkamlegur, andlegur og tilfinningalegur. Það er hinn líkamlegi þáttur sjúkdómsins, oftast í formi offitu, sem við berum utan á okkur og er því sjáanlegur. Ástæða þess að matarfíklar ná ekki langtímaárangri í megrun er sú að rót vandans liggur í hinum tilfinningalega og andlega þætti sjúkdómsins. Við skynjum rangt boðskipti taugakerfisins. Meðan heilbrigt fólk bregst ósjálfrátt við hungri með því að sækja í mat bregðumst við á sama hátt við reiði, gremju, ótta og fleiri tilfinningum sem hafa ekkert með matarþörf að gera.

  Spurningarnar sem hér fara á eftir geta hjálpað þér að komast að eigin niðurstöðu um það hvort þú eigir við matarfíkn að stríða.

  1. Borðar þú þegar þú ert ekki svangur/svöng?
  2. Heldur þú áfram að borða óhóflega án þess að kunna á því skýringar?
  3. Finnur þú til sektar og eftirsjár þegar þú hefur borðað yfir þig?
  4. Eyðir þú miklum tíma og hugsun í mat?
  5. Hugsar þú með ánægju og tilhlökkun til þeirrar stundar þegar þú getur borðað ein/n?
  6. Skipuleggur þú þetta leynilega át þitt fyrirfram?
  7. Borðar þú í hófi innan um fólk; en bætir þér það upp eftir á?
  8. Hefur þyngd þín áhrif á það hvernig þú lifir lífinu?
  9. Hefur þú reynt megrun í viku eða lengur á þess að ná tilsettu marki?
  10. Gremst þér það þegar aðrir segja við þig: „Sýndu nú svolítinn viljastyrk til að hætta að borða yfir þig?
  11. Ertu enn á þeirri skoðun, þrátt fyrir að dæmin sýni annað, að þú getir farið í megrun „..á eigin spýtur..“ hvenær sem þú vilt?
  12. Finnur þú sterka löngun til að borða mat á einhverjum tilteknum tíma sólarhringsins sem ekki er matmálstími?
  13. Borðar þú til að flýja áhyggjur og vandræði?
  14. Hefur þú leitað meðferðar vegna ofáts eða vanda sem tengist mat?
  15. Valda átsiðir þínir þér eða öðrum óhamingju?

  Reynslan sýnir að hver sá sem svarar þremur spurningum eða fleirum játandi hefur beina tilhneigingu til ofáts og á jafnvel nú þegar við alvarlega matarfíkn að stríða. Við höfum fundið leið til að halda sjúkdóm okkar niðri en hún er að iðka tólf spora kerfi O.A. samtakanna.

 • Overeaters Anonymous

  O.A. eru félagsskapur fólks sem hittist til að samhæfa reynslu sína, styrk og vonir til að vinna bug á sameiginlegu vandamáli og til að hjálpa þeim sem enn þjást af matarfíkn. Við setjum engin skilyrði og félagsgjöld eru engin. OA samtökin tengjast engum félögum eða fyrirtækjum, stjórnmálahreyfingum, hugmyndafræði- eða trúarhreyfingum. Samtökin taka enga afstöðu til annarra mála en sinna eigin. Meginmarkmið okkar er að halda okkur frá hömlulausu áti og að gefa þeim sem enn þjást upplýsingar um þessa leið til bata.

 • Fráhald

  Megrun er aðferð sem ekki hefur gagnast matarfíklum til lengri tíma. Sum okkar hafa náð skammtímaárangri en jafnan fallið í sama farið aftur. Það er vegna þess að megrun er tímabundið ástand sem á einhverjum tíma lýkur. Margar megranir eru líka svo strangar að þær eru alls ekki heilsusamlegar. Meðan á megrun stendur hugsum við með tilhlökkun til þess tíma þegar henni lýkur og eflum þannig með okkur fíknina. O.A. samtökin dreifa engum megrunarlistum og enginn er viktaður á O.A. fundi. Í stað megrunar stundum við fráhald.

  Orðið fráhald er nafnorðsmynd af sagnyrðingunni að halda sig frá einhverju. Þetta orð er ef til vill ekki að finna í almennum orðabókum en okkur finnst það vera góð þýðing á enska orðinu abstinence. Okkur finnst það vera betra en t.d. orðið afneitun eða bindindi. Fyrir mörg okkar þýðir fráhaldið miklu meira en það að sleppa því að borða of mikið. Það felur líka í sér hugarfarsbreytingu.

  Við setjum okkur ekki tímamörk í fráhaldi. Við hugsum bara um einn dag í einu. Við erum í fráhaldi í dag. Á morgun ákveðum við hvort við viljum halda því áfram. Þannig léttum við af okkur þeirri tímapressu og spennu sem við upplifðum þegar við reyndum að vera í megrun.

  Í upphafi þurftu mörg okkar á framkvæmdaáætlun að halda til að hefja gönguna í átt til þessa nýja lífs og þar kemur einmitt mataráætlunin til sögunnar.

 • Mataráætlun

  Mataráætlun er listi yfir þann mat sem við borðum hvern dag. Fyrir suma félaga er það listi fyrir matartegundir og matarskammta. Fyrir aðra er mataráætlunin breiður rammi sem veitir meiri sveigjanleika í viðleitni viðkomandi til að halda sig frá ofáti, – stunda fráhald sitt.

  Mörg okkar hafa fundið að vissar fæðutegundir eru vanabindandi og kveikja upp í okkur matarfíkn. Hverjar þessar fæðutegundir eru er einstaklingsbundið. Hvernig við skilgreinum hvaða fæða vekur með okkur fíkn og hvernig við setjum saman matarlista án slíkrar fæðu er á ábyrgð okkar sjálfra. Ráð okkar til félaga sem óska hjálpar við það er að fá hana hjá næringarráðgjöfum, læknum eða öðru faglega hæfu fólki. Í O.A. hjálpumst við svo að við að fylgja þessum ráðum og styðjum hvert annað í fráhaldi.

 • Hvað hefur O.A. fram að færa?

  Viðurkenningu á sjálfum/sjálfri þér. Eins og þú ert núna, eins og þú varst áður og eins og þú munt verða í framtíðinni.

  Skilning á vandamálunum sem þú – ásamt svo fjölmörgum öðrum – átt við að stríða.

  Tengsl við annað fólk – við finnum að við eigum samleið og eigum því auðvelt með að eiga samskipti hvert við annað. Það er eðlilegt í ljósi þess að við viðurkennum og skiljum hvert annað.

  Frelsi – Eftir að hafa öðlast viðurkenningu, skilning og tengst öðru fólki þá finnum við frelsi frá sjúkdómnum og lærum að viðurkenna og skilja ekki bara aðra heldur líka sjálf okkur.

  Orku fólk fyllist orku þegar það viðurkennir og skilur sjálft sig. Með því að iðka tólf spora kerfið, með því að lúta handleiðslu æðri máttar, með stuðningi og félagsskap þá opnast okkur leið til nýs lífs.

 • Er O.A. fyrir þig?

  Aðeins þú getur svarað þeirri spurningu… enginn getur tekið þá ákvörðun fyrir þig. Við sem erum nú þegar í O.A. höfum lært nýja lífshætti sem gera okkur kleift að lifa án óeðlilegrar löngunar í mat. Við teljum að hömlulaust ofát sé stigvaxandi sjúkdómur, náskyldur alkóhólisma. Hann er ekki hægt að lækna en honum er hægt að halda í gíslingu með því að vera í fráhaldi og iðka tólf spora kerfi O.A. samtakanna.

  Mundu að það er engin niðurlæging falin í því að játa að þú eigir við heilbrigðisvandamál að etja. Ef svo er þá er höfuðatriðið að þú gerir eitthvað í málinu.

 • Hvar finn ég O.A.?

  O.A. deildir eru starfandi í Reykjavík og á nokkrum stöðum á landsbyggðinni. Það er mikil gróska í starfi O.A. samtakanna og fyrirséð að deildum fjölgi í sumar og í haust. Nýjustu upplýsingar um starfandi O.A. deildir er að finna á heimasíðu O.A. www.oa.is og í svarhólfi samtakanna 878 1178. Nýliðum er velkomið að koma beint á fund, það þarf enginn að boða komu sína eða skrá sig. Þeim sem óska frekari upplýsinga er bent á þjónustunetfang samtakanna; oa@oa.is.

  Lesa kaflann um aukakílóin

  Lesa kaflann um líkama og næringu