Mat á ástandi – Nánari skoðun

Gera á kerfisbundna líkamsskoðun (nánari skoðun) þegar fyrstu skoðun er lokið og hvers konar lífshættulegt ástand hefur verið meðhöndlað. Líkamsskoðun á bráðveiku fólki miðast við tiltekna umkvörtun en á slösuðu fólki beinist líkamsskoðunin frekar að tilteknum líkamshluta. Líkamsskoðun getur þó leitt í ljós áverka og einkenni sjúkdóma.

Sé um fleiri en einn nauðstaddan að ræða þarf að ljúka fyrstu skoðun á þeim öllum áður en hafin er kerfisbundin líkamsskoðun.

Fatnaður getur leynt áverkum. Hversu mikið þarf að fjarlægja af fatnaði við skoðun fer eftir ástandi hins slasaða og áverkunum. Almenna reglan er sú að fjarlægja nægilega mikið af fatnaði til að geta úrskurðað um eðli áverka og einkenna. Það getur snert blygðunarsemi sumra að fatnaður sé fjarlægður. Hafa ber í huga að flestir sem slasast eiga á hættu að ofkælast.

Hvað gerirðu?
• Krjúptu við hlið sjúklingsins. Nálægð veitir öryggiskennd og nálgunin verður meira á jafningjagrundvelli heldur en ef staðið er yfir viðkomandi. Segðu jafn óðum frá því hvað þú ert að gera og hvers vegna.
• Fjarlægðu fatnað ef þörf er á.
• Horfðu, hlustaðu og þreifaðu sjúklinginn í þessari röð: höfuð, háls, brjóstkassi, kviður, mjaðmagrind og alla fjóra útlimi. Notaðu skammstöfunina BOVA, BTH og SJOBL til að minna þig á að leita eftir einkennum áverka. Sé um barn að ræða skal byrja á fótunum því það er ekki eins ógnvekjandi og ef byrjað er á höfðinu.
• HORFÐU á sjúklinginn, litarhaft hans, líkamsstöðu og áverka.
• HLUSTAÐU á öndun hans, raddstyrk, kvartanir og ábendingar.
• ÞREIFAÐU eftir aflögun, eymslum og bólgu, líkamshita og rakastigi húðar.
• BOVA stendur fyrir: B: Bólga; O: Opin sár; V: Verkur; A: Aflögun
• BTH stendur fyrir: B: Blóðrás; T: Tilfinning; H: Hreyfigeta
• SJOBL stendur fyrir: S: Sjáöldur; J: Jöfn; O: Og; B: Bregðast við; L: Ljósi
• Litur húðarinnar, sérstaklega hjá hörundsljósu fólki, endurspeglar bæði blóðflæði og súrefnismettun blóðsins. Hjá hörundsdökku fólki er hægt að meta blóðflæði og súrefnismettun með því að horfa á húðina undir nöglunum, innan í munninum og innan á augnhvörmunum. Ef æðar skreppa saman eða það hægist á hjartslættinum verður húðin köld, föl og bláleit (blágrá). Þegar æðar víkka og blóðstreymi eykst verður húðin heit. Líkamshitann má meta með því að leggja annað handarbakið við enni hins nauðstadda en hitt við sitt eigið eða einhvers annars sem er heill heilsu. Óeðlilegur hiti lýsir sér í heitri, svalri, kaldri eða þvalri húð.
• Varaðu þig á því að menga ekki opin sár.
• Varasamt er að hreyfa einstakling með hugsanlega áverka á hálsi eða hrygg.

Eftirfarandi gátlisti sýnir hvað skal athuga og hverju skal þreifa eftir:

Höfuð 
• Bólga?
• Opin sár?
• Verkur?
• Aflögun?
• Mænuvökvi, tær vökvi, úr eyrum eða nefi?
• Nota má skammstöfunina SJOBL (sjáöldur jöfn og bregðast við ljósi) og kanna með vasaljósi, eða með því að bregða hönd fyrir augu hins slasaða, hvort sjáöldrin bregðast við ljósi (dragist saman). Misstór sjáöldur benda til heilaskaða eða blæðingar. 2-4% manna eru með misstór sjáöldur en þau ættu að bregðast jafnt við ljósi ef ekki er um meiðsl að ræða.

Háls 
• Bólga?
• Opin sár?
• Verkir?
• Aflögun?

Brjóstkassi 
• Bólga?
• Opin sár?
• Verkir? Kreistu eða þrýstu á síðurnar til að kanna sársauka í rifjum.
• Aflögun?
• Biddu einstaklinginn um að anda djúpt að sér og reyndu að meta hvort brjóstkassi þenst jafnt út og hvort öndun er áreynslu- og sársaukalaus.

Kviður 
• Bólga?
• Opin sár?
• Verkir? Þrýstu varlega á alla fjórðunga kviðarins til að kanna hvort hann er stinnur eða mjúkur.
• Aflögun?

Mjaðmagrind
• Bólga?
• Opin sár?
• Verkir? Þrýstu varlega niður og inn.
• Aflögun?

Útlimir 
• Bólga?
• Opin sár?
• Verkir?
• Aflögun?
• Blóðrás, Tilfinning og Hreyfigeta (BTH).
• B: Þreifaðu úlnliðspúlsinn þumalfingursmegin á úlnliðnum þegar um handleggsáverka er að ræða en sköflungspúlsinn milli innanverðs ökklabeinsins og hásinar ef um áverka á fæti er að ræða. Skortur á púlsi í handlegg eða fæti er glöggt merki þess að læknisaðgerðar sé tafarlaust þörf.
• T: Snertu eða kreistu varlega tær hins slasaða eða fingur og spurðu hann hvernig tilfinningin sé. Skyntap er merki um tauga- eða mænuskaða.
• H: Kannaðu hvort um tauga- eða sinaskaða sé að ræða með því að biðja hinn slasaða að hreyfa tær sínar eða fingur ef ekki eru á þe im neinir áverkar. Láttu hann kreista fingur með höndunum og spyrna í lófa með fótunum.

Haltu áfram að skoða fólkið meðan þú bíður eftir sjúkrabílnum. Það gerir þér kleift að róa það um leið og þú fylgist með öndunarvegi þess, öndun, blóðrás og virkni.

Endurtaktu skoðunina á fimmtán mínútna fresti á fólki með meðvitund og á fimm mínútna fresti á fólki með skerta meðvitund eða án meðvitundar.

Rifjaðu upp þá skyndihjálp sem veitt hefur verið og búðu þig undir að gefa heilbrigðisstarfsfólki upplýsingar um hana.

Athugið þessar upplýsingar koma ekki í stað hefðbundinna skyndihjálparnámskeiða.

Birt með góðfúslegu leyfi Rauða kross Íslands.