Mat á ástandi – Heilsufarssaga

Ljúka þarf fyrstu skoðun og leiðrétta lífshættulegt ástand áður en hafin er nánari líkamsskoðun og heilsufarsupplýsinga aflað. Margt getur haft áhrif á það hvernig skoðun er háttað hverju sinni svo sem hvort hinn slasaði eða sjúki er með meðvitund eða ekki, hvort líkur eru á að ástand viðkomandi sé lífshættulegt og síðast en ekki síst hvort langt er í aðstoð eða hennar að vænta innan fárra mínútna. Ef um bráðveikt fólk er að ræða gæti þurft að safna heilsufarsupplýsingum áður en nánari skoðun er framkvæmd.

Hvað gerirðu?
• Spurðu þann sjúka eða slasaða út í heilsufarssögu sína. Allajafna er fólk spurt sjálft en hugsanlega má leita eftir upplýsingum frá fjölskyldu eða sjónarvottar ef viðkomandi er meðvitundarlaus eða ef í hlut á ungt barn. Þeir sem eiga við langvinna sjúkdóma að stríða vita oftast hvað þeim er fyrir bestu.
• Gott er að nota OLSEN – skammstöfunina þegar heilsufarsupplýsingum er safnað hún stendur fyrir:
• O: Ofnæmi. „Hefurðu ofnæmi fyrir einhverju?“ Svarið gæti gefið vísbendingu um eðli vandans.
• L: Lyf. „Tekurðu lyf, ávísuð eða önnur?“ Svarið gæti gefið vísbendingu um eðli vandans og afstýrt því að gefin séu óæskileg lyf.
• S: Sjúkdómar. „Hefurðu leitað læknis vegna einhvers sem tengist vandanum?“ „Ertu með einhverja aðra sjúkdóma?
• E: Einkenni, teikn og saga. Einkenni eru hvert það ástand sem sjúklingurinn lýsir s.s. höfuðverkur eða magaverkur. Teikn eru hvers konar ástand eða áverkar sem hinn sjúki eða særði sýnir og sá sem skyndihjálp veitir þekkir s.s. blæðing eða hitastig húðar. Sagan er tekin með því að spyrja „Hvað gerðist, hvenær byrjaði þetta? Hvað varstu að gera þegar þetta byrjaði?“ og svo framvegis.
• N: Neysla matar. „Hvenær neyttirðu síðast matar eða drykkjar? Hve mikið var það? Var það föst eða fljótandi fæða?“ Svarið er mikilvægt ef skurðaðgerð reynist nauðsynleg eða um eitrun er að ræða.

Athugið þessar upplýsingar koma ekki í stað hefðbundinna skyndihjálparnámskeiða.

Birt með góðfúslegu leyfi Rauða kross Íslands