Mat á ástandi – Fyrsta skoðun

Þegar öryggi á vettvangi hefur verið tryggt má hefja fyrstu skoðun. Fyrsta skoðun getur gefið nokkuð góða mynd af ástandi slasaðra.

Ljúka þarf fyrstu skoðun og leiðrétta lífshættulegt ástand áður en hafin er nánari líkamsskoðun eða heilsufarsupplýsinga er aflað. Margt getur haft áhrif á það hvernig skoðun er háttað hverju sinni svo sem hvort hinn slasaði eða sjúki er með meðvitund eða ekki, hvort líkur eru á að ástand viðkomandi sé lífshættulegt og síðast en ekki síst hvort langt er í aðstoð eða hennar að vænta innan fárra mínútna.

Hvað gerirðu?
Skoðaðu aðstæður á slyssað, þær geta gefið til kynna hvort um alvarleg meiðsl er að ræða og hlustaðu eftir umkvörtunum slasaðra. Reyndu að meta ástand slasaðra með því að horfa, hlusta og snerta. Hafirðu minnsta grun um hryggáverka skaltu halda við höfuð og háls.

Athuga meðvitund
• Athuga þarf hvort einstaklingurinn er með meðvitund með því að kalla til hans og kanna hvort hann bregst við áreiti.
• Ef hann bregst ekki við áreiti þarf að opna öndunarveginn og kanna hvort öndun er eðlileg.
• Ef einstaklingur getur talað eða sýnir viðbrögð við sársauka er öndunarvegurinn opinn. Þá þarf að kanna hvort honum blæðir eða hvort hann er með áverka eða einkenni alvarlegs sjúkdóms.

Athuga öndun
• Sé einstaklingurinn meðvitundarlaus þarf að opna öndunarveginn með því að halla höfðinu aftur og lyfta hökunni. Það er gert með því að horfa á brjóstkassann og sjá hvort hann rís og hnígur, hlusta eftir öndunarhljóðum og reyna að finna hvort loft kemur frá munni eða nefi einstaklingsins (ekki nota meira en 10 sekúndur til að meta öndun).
• Ef viðkomandi andar ekki eðlilega þarf strax að hefja endurlífgun.
• Ef sá slasaði eða sjúki andar eðlilega en er meðvitundarlaus vertu hjá honum og fylgstu vel með ástandi hans. Kannaðu blæðingar og hvort hann sýnir einkenni bráðra veikinda.
• Ef þú þarft að yfirgefa einstaklinginn leggðu hann þá í hliðarlegu.

Kannaðu blæðingar
• Horfðu og þreifaðu eftir því hvort um meiri háttar blæðingu er að ræða, svo sem hvot fatnaður er blóðugur eða blóðpollur er á gólfinu eða jörðinni.
• Ef mikið blæðir þarftu að þrýsta með klút beint á sárið eða leggja við það þrýstiumbúðir.

Kannaðu einkenni bráðra veikinda eða alvarlegra áverka
• Hlustaðu á umkvartanir þess slasaða eða sjúka og aðstoðaðu án tafar þann sem sýnir einkenni bráðra veikinda svo sem brjóstverks, bráðaofnæmis, heilablóðfalls eða lágs blóðsykurs eða eru með alvarlega áverka svo sem bruna eða blæðingu.

Athugið þessar  upplýsingar koma ekki í stað hefðbundinna skyndihjálparnámskeiða.

Birt með góðfúslegu leyfi Rauða kross Íslands