Mannleg mistök eða ytri aðstæður?

Þvert á það sem flestir halda eru helstu orsakir alvarlegra umferðarslysa mannleg mistök af ýmsu tagi en ekki ytri aðstæður, s.s. færð, birta, ástand vega eða ökutækis. Þessu til staðfestingar má benda á að flest banaslys í umferðinni verða við bestu aðstæður, þegar bjart er úti, færðin góð og vegurinn þurr. Þess vegna er afar brýnt að ökumenn líti í eigin barm og velti því fyrir sér hvernig þeir geti gert betur í umferðinni í dag heldur en í gær. Það þykir sýnt að aksturslag hvers og eins hefur úrslitaáhrif hvernig til tekst í umferðinni.

 

Hraðakstur

Rannsóknir sýna að mikinn meirihluta slysa má rekja til mannlegra mistaka á borð við of hraðan akstur miðað við getu og aðstæður. Það er staðreynd að hraðinn skiptir höfuðmáli hvað varðar áhættu við akstur, auknum hraða fylgir stóraukin slysahætta. Ökutækið verður óstöðugra og erfiðara verður að ráða við þær aðstæður sem skapast í akstri. Ökumaðurinn hefur skemmri tíma til að bregðast við óvæntum hættum og aðrir vegfarendur hafa að sama skapi minni tíma til að varast þá hættu sem hraðaksturinn skapar.

 

Hér á landi gilda umferðarlög sem sett eru öllum landsmönnum til verndar. Í þeim miðast reglur um hámarkshraða við aðstæður og er þar átt við gerð og ástand vegar, veður, birtu og ástand ökutækis svo eitthvað sé nefnt. Hraðinn má í raun aldrei verða meiri en svo að ökumaður hafi fullt vald á ökutæki og geti stöðvað það áður en kemur að hindrun. Hámarkshraði á þjóðvegum með bundnu slitlagi er 90 km á kukkustund og er þá miðað við að ekið sé við bestu hugsanlegu aðstæður. Á malarvegum er hann hins vegar 80 km á klukkustund og í þéttbýli er meginreglan sú að hámarkshraði sé 50 km á klukkustund.

 

Athuganir Vegagerðarinnar á þróun hraða á þjóðvegum landsins hafa sýnt að meðalhraðinn þar hefur aukist. Þó má geta þess að heldur hefur dregið úr þessari aukningu á síðustu þremur árum. Engu að síður er ljóst að meðalhraðinn er yfir leyfilegum hámarkshraða og að margir ökumenn aka allt of hratt miðað við getu og aðstæður. Þegar ekið er hraðar en hámarksreglur segja til um stórauka menn líkurnar á að þeir lendi í slysi eða valdi slysi. Hraðakstur er afbrot sem ber vott um virðingarleysi fyrir lífi ökumannsins sjálfs og samferðarmanna í umferðinni.

 

Til þess að takast megi að draga úr ökuhraða, bæði í þéttbýli og dreifbýli, þarf að koma til viðhorfsbreyting ökumanna. Ökumenn þurfa að gera sér grein fyrir því samspili sem er á milli ökuhraða og fjölda alvarlegra slysa.

 

Virðum reglur um hámarkshraða og sýnum þannig okkur sjálfum og öðrum í umferðinni sjálfsagða virðingu.

 

Frá Landlæknisembættinu