Maga- og skeifugarnarsár


Hvað er það?

Maga- eða skeifugarnarsár eru sár á slímhimnu magans eða skeifugarnarinnar. Einkennin eru yfirleitt verkir ofan til í kviði. Magasár er yfirleitt af völdum bakteríusýkingar eða gigtarlyfja. Ef orsökin er ekki upprætt leiðir það til þess að magasárið tekur sig upp aftur og aftur.

Af hverju myndast sár?

Á síðustu 10 árum hafa menn komist að því að flest magasár orsakast af bakteríu, sem heitir helicobacter pylori. Einnig getur magasár myndast sökum ákveðinnar lyfjanotkunar og eru þar fremst í flokki magnýl (asetýlsalisýlsýra) eða lyf sem innihalda það sem og verkjastillandi gigtarlyf.

Hver eru einkennin?

Einkennin geta verið margvísleg og mismunandi frá manni til manns:

 • Yfirleitt fylgir brennandi eða bítandi óþægindatilfinning rétt fyrir ofan nafla, 1 1/2 til 3 klukkutímum eftir máltíð.
 • Verkirnir geta lýst sér sem harðlífi, brjóstsviði eða hungurtilfinning.
 • Verkirnir geta rofið svefn.
 • Hægt er að lina verkina með því að borða eða með lyfjum sem slá á magasýruna.
 • Verkirnir ágerast af kaffidrykkju og reyktum mat.

Sumir fá þó engin einkenni. Mikilvægt er að leggja áherslu á að kviðverkir eru ekki alltaf einkenni magasárs.

Magasár geta verið hættuleg!

Hættumerkin eru þessi:

 • blóðugar, svartar eða tjörukenndar hægðir
 • ógleði og blóðug uppköst eða uppköst sem líkjast kaffikorgi
 • þyngdartap
 • fölvi og þreyta vegna járnskorts, sem ekki er hægt að finna aðra skýringu á
 • skyndilegir og miklir kviðverkir.

Hvað skal gera?

Leita skal til sérfræðings í meltingarsjúkdómum til að fá rannsókn þig með magaspeglun og ganga úr skugga um hvort um magasár sé að ræða, þar sem:

 • greiningin ræður miklu um lyfjagjöf og val á verkjalyfjum.
 • hægt er að lækna magasár með sýklalyfjagjöf.

Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?

Örugga greiningu er einungis hægt að fá með magaspeglun eða röntgenmyndatöku. Ef um magasár er að ræða verður að rannsaka hvort viðkomandi sé einnig með bakteríuna „Helicobacter pylori„. Magaspeglun er gerð hjá meltingarfærasérfræðingum og er slanga þrædd niður í maga og skeifugörnina í gegnum munn. Þannig sér læknirinn hvort um magasár sé að ræða.

Hvað er til ráða?

 • Einungis skal nota væg verkjalyf, eins og magnyl og verkjastillandi gigtarlyf, ef það er nauðsynlegt, og þá helst að læknisráði.
 • Ef sjúklingurinn hefur hefur áður fengið magasár (sem hefur verið greint með magaspeglun eða röntgenmyndatöku) skal hann forðast magnýl sem verkjastillandi lyf sem og öll verkjastillandi gigtarlyf nema að læknisráði.
 • Ef sjúklingur reykir er rétt að hætta því.

Hver er meðferðin?

Yfirleitt er hægt að lækna magasár með lyfjagjöf. Í stöku tilvikum verður að grípa til skurðaðgerðar. Eftirfarandi lyf eru gefin:

 • lyf sem draga úr magasýruframleiðslu. Lyfin verka beint á magafrumur sem mynda saltsýru og draga úr saltsýruframleislunni. Þau eru dýr en mjög áhrifarík. Ef magasárið er af völdum bakteríu er lyfið einnig gefið með sýklalyfjum til að uppræta hana úr efri hluta meltingarfæra.
Lanser® Lanzap® Lanzo® Losec®mups
Lómex® Losec® Omezól® Prazol®
  lyf sem draga úr magasýruframleiðslunni. Þau minnka saltsýrumyndun í maganum með því að draga úr áhrifum histamíns og því oft nefnd H2-blokkarar. Þessi lyf eru ekki eins áhrifarík og fyrrnefnd lyf þó að þau hafi komið að góðum notuml og séu mun ódýrari.
Clímetidín Delta Tagamet® Zantac® Asýran®
Gastran® Ranex® Famex®
 • önnur lyf sem draga úr magasýruframleiðslu
Cytotec® Andapsin® Antepsin®
 • sýklalyf

Hvernig eru fylgikvillar magasárs læknaðir?

 • Ef um blæðandi magasár er að ræða gengur læknirinn fyrst úr skugga um hvaðan blæðingin er með magaspeglun. Ef blæðingin er frá slagæð reynir hann fyrst að gefa lyf sem verkar ætandi á æðina sem blæðir úr eða lyf sem dregur æðarnar í magasárinu saman, með því að sprauta lyfinu í sárið, nálægt slagæðinni.
 • Ef um blæðandi magasár er að ræða, sem ekki hættir að blæða úr eftir magaspeglun eða ef gat hefur myndast á magann, er skurðaðgerð nauðsynleg.
 • Til eru margar tegundir skurðaðgerða til að lækna blæðandi magasár, allt eftir því hvar það er staðsett. Tilgangurinn með aðgerðinni er alltaf sá sami þ.e. að stöðva blæðinguna og/eða loka gatinu á maganum út í kviðarholið. Aðgerðir af þessu tagi eru erfiðar og hættan á fylgikvillum er mikil.
 • Hér áður fyrr var algengt að skorið væri á þær taugar sem örva magasýruframleiðsluna. Þessi aðgerð er mjög sjaldan framkvæmd í dag þar sem til eru lyf sem hafa sömu áhrif en fáar aukaverkanir.