Mænurótardeyfing

 • Hvað er epidural-deyfing?

  Mænurótardeyfing (Epidural-deyfing) er bakdeyfing sem notuð er í læknisfræði við ýmiss konar verkjameðferð. Margar skurðaðgerðir eru einnig gerðar með þessari deyfingu. Epidural-deyfing í fæðingu minnkar verulega samdráttarverki legsins í fæðingarhríðum.

  Til að ná sem bestum árangri þarf að leggja epiduraldeyfinguna í útvíkkunarfasa fæðingarinnar þ.e. þegar leghálsinn er opinn ca. 4 sm (af 10). Um það bil 95% allra þeirra sem fá þessa verkjameðferð í fæðingu hafa verulegt gagn af henni.

  Það er mjög mismunandi eftir sjúkrahúsum hversu mikið epidural-deyfingar eru notaðar sem verkjameðferð í fæðingu, sjá einnig aðrar verkjameðferðir.

 • Hvernig verkar epidural-deyfing?

  Epidural-deyfingin verkar með því að deyfa taugarætur þeirra mænutauga sem fara til legsins. Á leið sinni frá mænunni til legsins liggja þessar taugar í svokölluðu epidural bili (holrúmi). Nafn deyfingarinnar er dregið af því.

  Epidural bilið liggur rétt utan við mænugöngin en inni í þeim er mænan sem er aftur umlukin mænuvökvanum.

  Þegar gera á keisaraskurð í deyfingu er lögð svokölluð mænudeyfing. Þá er deyfingarlyfinu blandað í sjálfan mænuvökvann og deyfir mænutaugarnar inn í mænugöngunum. Þessum tveimur tegundum af bakdeyfingu er oft ruglað saman þar sem stungustaðurinn í bakið er stundum sá sami, aðeins farið mismunandi djúpt.

 • Hvernig er epidural deyfing lögð?

  Epidural-deyfing er alltaf lögð af svæfingalæknum. Sá sem á að fá deyfingu, hvort sem það er kona í fæðingu eða sjúklingur að fara í aðgerð er látinn liggja á hliðinni og búa til kryppu á bakið eins og hægt er. Húðin er sótthreinsuð áður en húðin er deyfð. Síðan er fínni nál (svokallaðri epidural nál) stungið inn á milli hryggjarliða neðarlega á lendhryggnum oftast milli lendarhryggjarliða nr. L2 – L3 eða L3 – L4.

  Epidural nálin er þannig úr garði gerð að inni í sjálfri nálinni er leiðari sem er fjarlægður þegar nálaroddurinn er kominn á réttan stað í epidural bilinu. Síðan er fín plastslanga þrædd í gegnum nálina og inn í epidural bilið á þann stað sem sprauta á deyfingarlyfinu. Plastslangan er oftast tengd við dælu sem dælir ákveðnu magni af deyfingarlyfinu inn í epidural bilið þannig að verkirnir í fæðingarhríðunum hverfa eða minnka verulega.

 • Hvaða aukaverkanir geta komið við epidural-deyfingu?

  Helstu aukaverkanir við epidural-deyfingu eru:

  Blóðþrýstingsfall getur orðið í einstaka tilfellum en er tiltölulega sjaldgæft í þeim skömmtum sem notaðir eru af deyfingarlyfinu hjá fæðandi konum. Til öryggis er fylgst með blóðþrýstingnum með jöfnu millibili eftir að deyfingin er lögð. Sömuleiðis er regla að setja upp vökva í æð hjá viðkomandi og er þá hægt að gefa lyf beint í æð ef þörf er á því.

  Höfuðverkur getur komið eftir epidural-deyfingu. Hann verður vegna þess að epidural nálin hefur stungist aðeins of djúpt og farið inn í mænugöngin þar sem mænuvökvinn er. Við það kemur smágat á himnuna sem aðskilur mænugöngin frá epidural bilinu. Mænuvökvi getur lekið út um þetta gat og inn í epidural bilið. Þetta orsakar sérstaka tegund af höfuðverk sem lýsir sér einkum í því að viðkomandi fær höfuðverk ef hann sest eða stendur upp en hverfur jafnskjótt og hann leggst aftur út af. Þetta kemur fyrir hjá u.þ.b. 2% allra kvenna sem fá epidural-deyfingu í fæðingu. Til er mjög skjótvirk og góð meðferð við þessum höfuðverk sem svæfingalæknar gera með því að sprauta blóði úr viðkomandi inn í epidural bilið og kallast þessi meðferð epidural blóðbót.

 • Geta allar fæðandi konur fengið epidural-deyfingu?

  Ekki er hægt að bjóða öllum konum fæðingar-epidural af ýmsum ástæðum. Helstu ástæðurnar eru:

  • aukin blæðingartilhneiging af einhverjum orsökum
  • ofnæmi fyrir deyfingarlyfinu
  • sýkingar t.d. á eða nálægt stungustað
  • ef viðkomandi er með brjósklos
  • ýmsir taugasjúkdómar
  • vökvaþurrð hjá viðkomandi af einhverjum ástæðum