Lyfjamisnotkun og lyfjaeftirlit í íþróttum

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um lyfjamisnotkun og lyfjaeftirlit í íþróttum á vefsíðum ÍSÍ

Hvað er lyfjamisnotkun?

 • Lyfjamisnotkun (doping) í íþróttum er bönnuð.
 • Lyfjamisnotkun er notkun íþróttamanna á efnum eða aðferðum sem bæta árangur þeirra í íþróttum á óeðlilegan hátt.
 • Lyfjamisnotkun er óheiðarleg. Hún kemur í veg fyrir að keppni fari fram á jafnréttisgrundvelli og að árangur keppenda ráðist af hæfileikum þeirra og þjálfun.
 • Lyfjamisnotkun er hættuleg. Mörg bönnuð efni hafa alvarleg áhrif á líkama og heilsu þeirra sem nota þau og margir íþróttamenn hafa látið lífið af afleiðingum lyfjamisnotkunar.
 • Íþróttahreyfingin gefur út lista yfir efni og aðferðir sem bannað er að nota í tengslum við æfingar og keppni í íþróttum.

Hvað er lyfjaeftirlit?

 • Heilbrigðisráð ÍSÍ sér um skipulagningu og framkvæmd lyfjaeftirlits á Íslandi.
 • Heilbrigðisráð ÍSÍ má boða í lyfjaeftirlit:
  – alla félagsmenn í félögum innan ÍSÍ
  – alla sem taka þátt í keppni fyrir hönd ÍSÍ eða sérsambands innan ÍSÍ
 • Heilbrigðisráð ÍSÍ má boða íþróttamenn í lyfjaeftirlit hvar og hvenær sem er, án fyrirvara.
 • Sá sem er boðaður í lyfjaeftirlit þarf að gefa þvagsýni í návist lyfjaeftirlitsmanns.
 • Þvagsýni sem tekin eru við lyfjaeftirlit eru sett í innsiglaðar umbúðir og send til greiningar á viðurkenndri rannsóknarstofu.
 • Refsing fyrir lyfjamisnotkun er útilokun frá þátttöku í æfingum og keppni
 • Ef íþróttamaður neitar að mæta í lyfjaeftirlit má refsa honum eins og hann hafi notað bönnuð efni eða aðferðir.

Helstu flokkar bannaðra lyfja

Örvandi efni

 • Örvandi efni hafa áhrif á miðtaugakerfi, hjarta- og æðakerfi og öndunarfæri. Þau geta bætt árangur í íþróttum með því að auka árvekni, einbeitingu og þol. Notkun margra örvandi efna er því bönnuð í tengslum við keppni í íþróttum.
 • Örvandi efni draga úr sársaukaskyni og þreytu og auka því hættu á of miklu álagi og örmögnun. Einnig geta þau valdið lystarleysi, svefnleysi og ofskynjunum, hækkað blóðþrýsting og truflað hjartslátt.
 • Sum örvandi efni eru ólögleg fíkniefni, t.d. amfetamín og kókaín. Önnur örvandi efni, einkum efedrín og skyld efni, geta verið í algengum lyfjum, náttúrulyfjum og fæðubótarefnum og er því hætta á að þeirra sé neytt af vangá. Koffein, sem er í kaffi, ýmsum gosdrykkjum og svokölluðum orkudrykkjum, er líka örvandi, en notkun þess er ekki refsiverð nema magn þess fari yfir ákveðin mörk. Til þess þarf að drekka marga bolla af sterku kaffi eða nokkra lítra af gosdrykkjum.
 • Beta-2 virk efni (t.d. í sumum astmalyfjum) geta haft örvandi áhrif og er notkun þeirra bönnuð. Þó er leyfilegt að nota sum þeirra sem innöndunarlyf, en skylt er að tilkynna notkunina og leggja fram læknisvottorð um að hún sé nauðsynleg.
Deyfi- og verkjalyf

 • Deyfi- og verkjalyf hafa áhrif á miðtaugakerfi og skyntaugar. Þau geta bætt árangur í íþróttum með því að draga úr sársaukaskyni og gera íþróttamönnum þannig kleift að æfa og keppa þrátt fyrir meiðsli. Notkun margra deyfi- og verkjalyfja er því bönnuð í tengslum við keppni í íþróttum.
 • Sársaukaskyn skerðist við notkun deyfi- og verkjalyfja og geta meiðsli því ágerst ef álagi á meidda líkamshluta er viðhaldið með aðstoð þeirra. Einnig geta þau truflað öndun og hjartslátt, valdið ógleði, svefnleysi og þunglyndi og skert jafnvægi, einbeitingu og samhæfingu hreyfinga. Loks geta sum deyfi- og verkjalyf valdið fíkn, t.d. morfín.
 • Leyfilegt er að nota öll algengustu verkjalyf, t.d. aspirín, magnyl, paracetamol og skyld efni. Auk þess er leyfilegt að nota kódein og skyld efni að læknisráði.
Vefaukandi lyf

 • Vefaukandi sterar, t.d. karlkynshormónið testosteron og skyld efni, hafa áhrif á kynfæri, bein og vöðva. Þeir auka vaxtarhraða vöðva og geta bætt árangur í greinum sem krefjast mikils vöðvastyrks. Notkun vefaukandi stera og skyldra efna er því bönnuð í tengslum við æfingar og keppni í íþróttum.
 • Beta-2 virk efni (t.d. í sumum astmalyfjum) geta haft vefaukandi áhrif og er notkun þeirra bönnuð. Þó er leyfilegt að nota sum þeirra sem innöndunarlyf, en skylt er að tilkynna notkunina og leggja fram læknisvottorð um að hún sé nauðsynleg.
 • Vefaukandi sterar geta haft hættulegar aukaverkanir. Þeir geta valdið hækkuðum blóðþrýstingi, hjarta- og æðasjúkdómum, skemmdum á lifur og nýrum og húðsjúkdómum. Einnig geta þeir valdið sálrænum breytingum og atferlisbreytingum, t.d. aukinni ofbeldis- og árásarhneigð. Loks trufla þeir hormónaframleiðslu líkamans og geta þannig valdið breytingum á kynfærum og kyneinkennum.
Þvagræsilyf

 • Þvagræsilyf valda aukinni þvagmyndun og þar með hröðu vökvatapi. Notkun þeirra getur auðveldað íþróttamönnum að léttast og lenda í hagstæðari þyngdarflokki í íþróttum þar sem það á við. Einnig valda þau því að þvag þynnist og þar með dregur úr líkum á því að unnt sé að greina önnur óleyfileg efni í þvagsýnum sem tekin eru við lyfjaeftirlit. Notkun þvagræsilyfja er því bönnuð í tengslum við æfingar og keppni í íþróttum.
 • Þvagræsilyf geta haft hættulegar aukaverkanir. Meðal annars geta þau valdið ofþornun, krampa, nýrnabilunum og hjartsláttartruflunum.
Hormónalyf

 • Ýmis hormónalyf geta bætt árangur í íþróttum og er notkun þeirra því bönnuð í tengslum við æfingar og keppni.
 • HCG eykur framleiðslu vefaukandi sterahormóna í líkamanum og hefur því svipaðar aukaverkanir og vefaukandi sterar.
 • Vaxtarhormón eykur vöxt beinagrindar og vöðva og þar með vöðvastyrk. Það getur valdið ofvexti og liðaskemmdum og aukið líkur á sykursýki og hjarta- og æðasjúkdómum.
 • ACTH hraðar endurnýjun vefja og flýtir þannig bata eftir meiðsli. Það getur valdið hækkun blóðþrýstings og aukið líkur á sykursýki og beinþynningu.

Erythropoietin eykur þéttni rauðra blóðkorna og þar með súrefnisflutningsgetu blóðs og úthald. Það getur valdið hækkun blóðþrýstings og aukið líkur á hjartaáfalli og blóðtappa.

Önnur varasöm efni

Efni sem bannað er að nota í sumum íþróttagreinum:

 • áfengi
 • kannabisefni
 • beta-blokkarar (hjartalyf).

Lyf sem leyfilegt er að nota að læknisráði, en skylt að tilkynna:

 • sum algeng astmalyf (eingöngu sem innöndunarlyf)
 • flest algeng staðdeyfilyf (eingöngu sem sprautu í vef eða lið)
 • barksterar (útvortis notkun leyfileg, heimilt að sprauta í vef eða lið eða nota sem innöndunarlyf, önnur notkun bönnuð).

Bannaðar aðferðir

 

Misnotkun blóðgjafa

 • Með misnotkun blóðgjafa er átt við inngjöf blóðs eða blóðafurða í æð í öðrum tilgangi en til lækninga. Misnotkun blóðgjafa er bönnuð í tengslum við æfingar og keppni í íþróttum.
 • Inngjöf blóðs í æð eykur þéttni rauðra blóð korna og þar með súrefnisflutningsgetu blóðs- og úthald. Þetta bætir árangur í íþróttagreinum sem krefjast mikils úthalds.
 • Misnotkun blóðgjafa getur aukið líkur á blóðtappa, sýkingum og ofnæmisviðbrögðum.
 • Misnotkun blóðgjafa leiðir til sama ávinnings og notkun blóðaukandi hormóna (erythropoietin), sem einnig er bönnuð.
 • Unnt er að ná sambærilegum ávinningi með leyfilegum aðferðum, t.d. með dvöl hátt yfir sjávarmáli, þar sem súrefnisþrýstingur í andrúmslofti er lágur. Líkaminn bregst þá við með aukinni framleiðslu rauðra blóðkorna.
Fölsun sýna

 • Bannað er að falsa sýni sem tekin eru við lyfjaeftirlit á einhvern hátt sem getur dregið úr áreiðanleika niðurstöðunnar.

Með þessu er m.a. átt við:

 • að taka inn lyf sem draga úr útskilnaði óleyfilegra efna í nýrum svo styrkur þeirra í þvagi verður of lítill til að unnt sé að greina þau. Slík lyf geta m.a. valdið sjúkdómum í meltingarfærum og nýrum
 • að taka inn efni sem skekkja niðurstöður lyfjaeftirlits á annan hátt, t.d. óvirka sterann epitestosteron, sem hefur áhrif á túlkun greiningar á karlkynshormóninu testosteron
 • að skila röngu þvagsýni, en þess eru jafnvel dæmi að íþróttamenn hafi skipt um þvag í þvagblöðru sinni. Slíkar aðgerðir geta valdið alvarlegum þvagfærasýkingum
 • að þynna sýni eða blanda í það einhverjum efnum sem hafa áhrif á greiningu óleyfilegra efna í sýninu.

Til íþróttamanna

 • Notið engin lyf nema að höfðu samráði við lækni.
 • Ef þið þurfið að nota lyf, skýrið lækni ykkar þá frá því að þið stundið íþróttir, svo hægt sé að taka tillit til þess við lyfjagjöf ef kostur er.
 • Athugið að lyf sem bannað er að nota í tengslum við æfingar eða keppni geta verið mismunandi eftir íþróttagreinum.
 • Kynnið ykkur hvaða lyf eru bönnuð í íþrótt ykkar. Gangið sjálf úr skugga um hvort lyf sem þið þurfið að nota eru bönnuð í íþrótt ykkar.
 • Gangið sjálf úr skugga um hvort fæðubótarefni sem þið notið innihalda efni sem eru bönnuð í íþrótt ykkar.
 • Ef bönnuð efni finnast í líkama ykkar telst það lyfjamisnotkun, óháð því hvernig eða í hvaða tilgangi þau eru þangað komin. Ef bönnuð efni finnast í líkama ykkar berið þið sjálf ábyrgð á því og þurfið sjálf að taka út refsingu í samræmi við það.

Birt með góðfúslegu leyfi Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands