Lyfjaform

Töflur eru venjulega kringlóttar eða ávalar. Sumar eru með skoru sem auðveldar að brjóta þær í sundur. Þær geta einnig verið húðaðar með sykri eða öðru efni, sem kemur í veg fyrir að óþægilegt bragð eða slæm lykt af innihaldinutorveldi töku lyfsins. Fyrir utan hin virku efni eru í töflunum önnur efni sem notuð eru til þess að fá rétta stærð á þær og til þess að þær leysist upp eftir hæfilega langan tíma í maga eða þörmum. Þynnupökkun er það nefnt þegar hverri töflu er pakkað í sérstakt hólf í plastþynnu sem er lokað með álpappír.

Forðatöflur (depot, retard, prolongatum) eru framleiddar þannig að virka efnið losnar smám saman í maga og þörmum. Yfirleitt þarf því ekki að taka þær eins oft og venjulegar töflur. Oftast má ekki brjóta forðatöflur, því að þá verða áhrifin allt of mikil í fyrstu en vara mjög stutt. Það á að gleypa þær í heilu lagi og drekka með.

Hylki er lyfjaform sem gert er út tveimur hlutum og gengur annar helmingurinn inn í hinn. Þessi hylki eru yfirleitt búin til úr matarlími (gelatinu) og eru oft lituð með litarefnum. Hylkin á að gleypa í heilu lagi og drekka vökva með.

Forðahylki (depot, retard, prolongatum) er lyfjaform þar sem virka efnið losnar smám saman úr hylkinu á leið þess í gegnum maga og þarma. Þetta hefur þann kost að ekki þarf að taka hylkin jafn oft og venjuleg hylki. Forðahylki á að gleypa í heilu lagi.

Freyðitöflur á að leysa upp í vatni, áður en þær eru teknar inn. Nokkrar töflutegundir, sem eru yfirleitt notaðar gegn verkjum eru til sem freyðitöflur. Þær virka fyrr en venjulegar töflur og valda síður óþægindum í maga.

Sýruhjúptöflur (enterosolubilt húðaðar) eru húðaðar með sýruheldri húð, þannig að magasafinn hefur ekki áhrif á þær. Þær fara því í gegnum magann, án þess að hafa áhrif þar. Þegar þær eru komnar niður í þarma, leysist húðin upp og töflurnar byrja að hafa áhrif. Sýruhjúptöflur á ætíð að gleypa heilar og drekka með. Töflur eru stundum gerðar úr forðakyrni og eru þá kallaðar kornhúðaðar. Dæmi um slíkar töflur er Globentyl. Munnsogstöflur (pastillur) eiga að bráðna í munninum. Lyfjaformið er notað fyrir lyf, sem eiga að hafa áhrif í munni, t.d. gegn ýmsum sýkingum.

Tungurótartöflur (resoriblettur) eru látnar bráðna undir tungunni. Virka efnið fer út í æðakerfið í gegnum slímhúð munnsins. Tungurótartöflur hafa fyrr áhrif en venjulegar töflur.

Mixtúra er lyf í fljótandi formi til inntöku, og er venjulega skömmtuð eftir rúmmáli. Mixtúra getur verið lausn af einu eða fleiri efnum. Fast efni til að búa til mixtúru úr nefnist mixtúruduft eða mixtúrukyrni, eftir því sem við á hverju sinni. Sumar mixtúrur geymast fremur stutt og eru það aðallega sum sýklalyf, sem búin eru til úr mixtúrudufti eða mixtúrukyrni. Mixtúrur eru venjulega teknar með skeið eða mæliglasi. Ein teskeið tekur 5 ml, sama og ein mæliskeið. Ein barnaskeið tekur 10 ml og ein matskeið 15 ml. Mixtúrur á að hrista vel hverju sinni, áður en þær eru notaðar, annars er hætta á að maður fái of lítið af virku efni í byrjun, en of mikið þegar mixtúran er að verða búin.

Mixtúruposi inniheldur einn skammt af mixtúru sem á að taka inn. Ýmsar sýrubindandi magamixtúrur eru í mixtúruposum t.d. Novaluzid.

Dropar eru lyf í fljótandi formi ætlaðir til inntöku, þeir eru venjulega skammtaðir í dropatali. Það er mjög nauðsynlegt að dropateljarinn sem fylgir lyfjaglasinu sé notaður, því annars er hætta á að maður fái ekki rétta skammta af lyfinu. Skammtar kallast ákveðið magn af dufti sem sett hefur verið í þar til gerðar umbúðir. Skammtur er ætlaður til inntöku, oftast leystur upp í öðru efni eða blandaður því, t.d. vatni.

Kyrni er fast lyfjaform og hefur þá duftkenndum efnum verið breytt í korn, en þau eru oftast áþekk að stærð. Kyrni er venjulega ætlað til inntöku og hefur reynst heppilegra en duft til þeirra nota.

Forðakyrni er ætlað að leysast upp smám saman og hafa jöfn áhrif um alllangt skeið. Ekki þarf að taka það jafn oft og venjulegt kyrni. Forðakyrni má ekki mylja áður en því er kyngt, því þá verða áhrifin allt of mikil í fyrstu en vara of stutt. Forðakyrni á að gleypa með vökva.

Skammtakyrni er í föstu formi og er afgreitt í skömmtum. Skammtakyrni er stundum leyst upp í öðru efni eða blandað saman við það.

Sýruhjúpkyrni er framleitt á þann hátt, að hið virka efni losnar ekki úr því í maganum, heldur aðeins í þörmunum. Oft er ástæðan fyrir notkun þessa lyfjaforms sú, að hið virka efni þolir ekki sýrur magans. Sýruhjúpkyrni má ekki mylja áður en því er kyngt, heldur á að kyngja því með vökva. Duft er fíngert, fast efni. Duft, sem ætlað er til inntöku, á að skammta eftir rúmmáli.

  • Lyf sem sprautað er í líkamann

Stungulyf (sprautulyf) er vökvi til að sprauta t.d. í vöðva, í æð eða undir húð. Stungulyf eru oft notuð til að ná skjótum áhrifum eða þegar sjúklingurinn getur ekki tekið inn lyf af einhverjum ástæðum. Sum lyf svo sem insúlín eru þannig að þau virka því aðeins að þeim sé sprautað í líkamann. Stundum eru lyf gefin sem stungulyf með forðaverkun, lyfinu er þá blandað í olíulausn og sprautað djúpt í vöðva. Virka efnið leysist hægt úr olíunni og hefur þannig áhrif vikum saman. Stungulyf eru venjulega afgreidd í glerlykjum sem eru litlar, lokaðar glerflöskur sem eru opnaðar með því að brjóta stútinn af, eða í hettuglösum með gúmmítappa og er lyfið þá dregið upp í sprautuna með því að stinga nálinni í gegnum tappann.

Stungulyfsstofn er efni sem leyst er upp í vökva og sprautað í líkamann.

Innrennslislyf er vökvi sem oftast er látinn renna hægt í æð um þar til gerða slöngu, úr stórri flösku. Innrennslislyf eru oftast að stofni til sykur- eða saltlausnir blandaðar virku lyfi. Stundum er stungulyfjum blandað í þau og fæst þannig jöfn og kröftug verkun af lyfinu.

  • Lyf notuð í leggöng

Skeiðarkrem, skeiðarhlaup og skeiðarfroða. Þessi lyfjaform eru sett inn í leggöngin með sérstöku áhaldi sem nefnist stjaka (applicator). Stjökuna á að setja eins langt inn í leggöngin og mögulegt er. Síðan er stjakan tæmd, tekin út og þvegin. Notkunarleiðbeiningar eiga að fylgja lyfinu þegar það er selt.

Skeiðarstílar (vagitoriur) er lyfjaform sem sett er inn í leggöng. Þessu lyfjaformi fylgir oft sérstakt áhald sem nefnist stjaka og er notað til þess að stinga skeiðarstílnum í leggöngin. Stjakan er síðan tæmd, tekin út og hreinsuð. Nauðsynlegt er að fara eftir þeim leiðbeiningum sem fylgja með lyfinu.

  • Lyf notuð í endaþarm

Endaþarmsstílar eru til að stinga inn í endaþarminn. Virka efninu er venjulega blandað saman við feiti, sem leysist sundur í endaþarminum. Þar tekur líkaminn virka efnið upp í æðakerfið, eða það hefur staðbundin áhrif, svo sem við gyllinæð.

Endaþarmssmyrsl er notað annað hvort sem áburður inni í endaþarminum eða utan á endaþarmsopið. Þegar setja á smyrslið inn í endaþarminn, fylgir með stútur, sem á að skrúfa á túpuna.

Innhellislyf (endaþarmstúpa, klysma) er fljótandi lyfjaform, ætlað til innhellingar eða inndælingar í endaþarm. Þegar endaþarmstúpan er notuð er best að liggja á hliðinni með kreppt hné. Túpustútnum er stungið eins langt inn og hægt er og túpan kreist. Mikilvægt er að halda túpunni kreistri meðan hún er dregin út svo að innihaldið sogist ekki inn í hana aftur. Þegar lyfjaformið er gefið börnum undir þriggja ára aldri á aðeins að setja helminginn af túpustútnum inn í endaþarminn.

  • Lyf notuð á húð

Smyrsli (salva) er þykkt við stofuhita, frekar feitt og inniheldur ekki vatn. Smyrsli er notað á þurra og hreisturkennda húð. Það hindrar eðlilega öndun húðarinnar og heldur því raka í henni.

Krem er mjúkt og inniheldur ætíð vatn, þess vegna er þægilegt að bera það á. Það hleypir í gegnum sig raka úr húðinni og er því hentugt á rakamikla húð.

Pasti er mjög stífur og yfirleitt notaður þar sem þarf að þurrka upp húðsvæði t.d. á áblástra.

Hlaup er hálffljótandi lyfjaform notað á viðkvæma húð og slímhúð vegna þess hve auðvelt er að bera það á.

Áburður (liniment) er fljótandi lyfjaform til notkunar á húð. Áburður sem borinn er á úr þrýstibrúsa nefnist úðaáburður (aerosol liniment). Úðaáburð má ekki nota nálægt opnum eldi.

Stráduft (púður) er fast lyfjaform til að strá á húð, slímhúð eða sár. Stráduft í þrýstibrúsa nefnist úðaduft. Úðaduft af þessari gerð má ekki nota nálægt opnum eldi.

Forðaplástur er plástur sem límdur er á þunna, helst hárlausa húð. Virku efnin síast úr plástrinum inn í húðina og síðan inn í blóðrásina. Verkun af forðaplástri kemur fyrst nokkrum klukkustundum eftir að plásturinn er settur á. Verkunin getur varað lengi eftir að plásturinn er tekinn af þar sem lyfið situr í húðinni.

  • Lyf notuð í nef, augu og eyru

Nefdropar eru í glasi með dropateljara. Hreinsið nefið, hallið höfðinu aftur og látið dropana drjúpa í nasirnar. Gott er að anda nokkrum sinnum að sér í gegnum nefið. Gætið þess að dropateljarinn sjúgi ekki óhreinindi úr nefinu og óhreinki nefdropana. Óhreinan dropateljara á að skola með hreinu vatni. Þegar smábörnum eru gefnir nefdropar, á að byrja á því að hreinsa nefið eins og hægt er. Leggið síðan barnið á bakið með höfuðið aftur á bak. Þegar droparnir hafa verið settir í nefið, á að snúa barninu til þess að droparnir dreifist betur yfir slímhúð nefsins.

Nefúðalyf eru til að úða í nef. Lyfinu er úðað úr úðaflösku eða úðaskammtaflösku í nefið og á þá höfuðið að vera upprétt. Dragið andann djúpt í gegnum nefið um leið og þrýst er á úðaflöskuna.

Duft til innöndunar í nef. Duftið er framleitt í hylkjum sem komið er fyrir í þar til gerðu áhaldi og duftinu úr þeim blásið upp í nefið. Leiðarvísir um notkun á að fylgja lyfinu.

Nefdropahulstur eru litlar plastflöskur sem innihalda örlítið magn af nefdropum, einn eða tvo dropa, eitt hulstur er tæmt í hvora nös hverju sinni. Nefdropahulstrið er opnað með því að snúa lítinn tappa af stút flöskunnar.

Augndropar eru fljótandi lyfjaform til að dreypa í augu. Þeir eru framleiddir sýklafríir (sterílir) og haldast þannig þar til glasið er opnað. Átekið augndropaglas ætti ekki að nota lengur en í 1 mánuð vegna hættu á óhreinindum. Augndropabirgðir á að geyma samkvæmt ráðleggingu apóteks. Ráðlegt er að geyma glas í notkun við stofuhita, því að droparnir erta þá augað minna en ef þeir eru teknir beint úr kulda.

Augnsmyrsl er borið á innanvert neðra augnlokið. Augnlokið er togað niður og smyrslrönd er sett undir það, beint úr túpunni. Augnsmyrsl er einnig borið í kringum augun. Augnsmyrsl eru framleidd sýklafrí og haldast þannig þar til túpan er opnuð. Ekki er ráðlegt að nota átekna túpu lengur en í 1 mánuð vegna hættu á óhreinindum.

Augnskolvatn er lausn, til að skola augun. Það er framleitt sýklafrítt (sterílt) og helst þannig þar til flaskan er opnuð. Ekki er ráðlegt að nota átekna flösku lengur en í 1 mánuð vegna hættu á óhreinindum.

Augnflögur eru ræmur sem innihalda lyf. Þeim er komið fyrir með þar til gerðu áhaldi innan á neðra augnloki. Eyrnadropar eru til að setja í eyru og er það gert annað hvort með því að sitja og halla höfðinu eða leggjast á hliðina. Þeir eru framleiddir sýklafríir (sterílir) og haldast þannig þar til glasið er opnað. Ekki ætti að nota átekið glas lengur en í 1 mánuð vegna hættu á óhreinindum.

Eyrnasmyrsl er borið í eyrnagang. Það er framleitt sýklafrítt (sterílt) og helst þannig þar til túpan er opnuð. Ekki ætti að nota átekna túpu lengur en í 1 mánuð vegna hættu á óhreinindum.

  • Lyf sem verka á lungu

Innúðalyf er fljótandi lyfjaform til innúðunar. Um leið og skammtinum er úðað á að draga djúpt að sér andann og fer þá lyfið niður í lungun þar sem það hefur áhrif. Innúðalyf eru venjulega undir þrýstingi í úðastaukum sem gefa ákveðinn skammt við hverja úðun. Þessu lyfjaformi er betur lýst í kaflanum um astmalyf aftar í bókinni.

Innúðaduft er duft í hylkjum til að úða inn um munn. Hylkjunum er komið fyrir í þar til gerðu áhaldi (spinhaler). Um leið og úðað er á að draga djúpt að sér andann en þá fer lyfið niður í lungun þar sem það hefur áhrif.

Notkun úðalyfja Stórt skref var stigið í framfaraátt í meðferð öndunarfærasjúkdóma þegar farið var að framleiða handhæga úðastauka með berkjuvíkkandi- og bólgueyðandi lyfjum. Úðastaukarnir gefa frá sér ákveðinn skammt af lyfinu, og er stærð skammtanna ekki háð því hve lengi er ýtt á botn stauksins. Það er alls ekki vandalaust að nota úðalyf og við rannsóknir hefur komið í ljós að aðeins tæplega helmingur sjúklinga notar rétta úðatækni. Úðalyfin verka niðri í lungnaberkjunum og komist lyfin ekki þangað gera þau ekkert gagn. Því verða þeir sem nota úðalyf að kynna sér vel eftirfarandi leiðbeiningar – líka þeir sem lengi hafa notað úðalyfin. Gott er að æfa sig fyrir framan spegil, því þá má sjá hvort úðinn leitar út um nef eða munn, sem er röng leið.

1. Takið lokið af og hristið staukinn vel.
2. Setjið varirnar um munnstykkið.
3. Andið inn og út um staukinn tvisvar til þrisvar.
4. Andið vel út, dragið síðan hægt inn andann og þrýstið um leið stauknum fast og ákveðið dýpra niður í hulstrið.
5. Haldið niðri í ykkur andanum, helst þar til talið hefur verið upp að tíu í huganum. Andið síðan hægt út.

Ef læknir hefur ráðlagt 2 púst eða fleiri, endurtakið þetta þá með 1-3 mínútna millibili. Ef notaðar eru mismunandi tegundir af úðum samtímis á alltaf að nota berkjuvíkkandi úðann fyrst (dæmi:Ventolin, Bricanyl, Oxyvent, Atrovent) og síðan bólgueyðandi úða (dæmi: Becotide, Pulmicort). Ef menn nota bólguhamlandi úða (dæmi: Lomudal) þá kemur hann að bestum notum ef hann er notaður á eftir berkjuvíkkandi úðanum. Eftir að bólgueyðandi úði hefur verið notaður er mjög mikilvægt að skola kokið vel til þess að minnka hættuna á aukaverkunum.

Yfirleitt hjálpar ekki að fjölga skömmtum af bólgueyðandi lyfjum þótt einkenni hafi ágerst. Aftur á móti tekst oft að halda berkjuþrengingu í skefjum með aukinni notkun berkjuvíkkandi lyfja, það verður þó að gerast í samráði við lækni.

Nota má margs konar hjálpartæki til að ná sem mestu af úðalyfinu niður í lungnaberkjurnar. Þessi hjálpartæki koma einkum að gagni þegar menn eiga erfitt með að úða og anda inn um leið. Með því að nota úðahólkinn, sem sýndur er á myndinni hér á undan þar sem fjallað er um innúðalyf, er hægt að anda úðanum að sér í rólegheitum. Innöndunaropi úðahólksins er snúið upp á við og tveimur pústum dælt í hólkinn. Síðan anda menn að sér úr hólknum og halda andanum niðri í sér meðan talið er upp að tíu í huganum. Innöndunin er svo endurtekin tvisvar. Að öðru leyti er notkunin ekki frábrugðin því sem lýst var áður, þ.e.a.s. að nota berkjuvíkkandi lyfið fyrst, síðan bólgueyðandi lyfið og skola svo kokið vel á eftir.

Hulstrið utan um staukinn þarf að þvo einu sinni í viku. Málmhylkið er fyrst tekið úr og hulstrið þvegið úr volgu vatni, en síðan þerrað áður en málmhylkið er látið í hulstrið aftur. Ef notaður er plasthólkur er hann tekinn í sundur um samskeytin og þveginn á sama hátt.

Rétt er að eiga úðana alltaf vísa og gjarnan að eiga stauk til vara t.d. í náttborðsskúffunni, hanskahólfi eða skrifborðsskúffu eftir því sem best hentar.

Hafið í huga að staukarnir mega ekki hitna yfir 40$ag C og heldur ekki frjósa. Til þess að sjá hversu mikið er eftir í stauknum er hann settur í vatnsfyllt ílát. Fullur staukur sekkur til botns en tómur flýtur.

Sum innöndunarlyf eru notuð sem duft og án drifefna. Ný drifefni, sem eyða ekki ózonlaginu hafa komið til en búast má við að notkun innúðadufts án drifefna muni í framtíðinni aukast. Innúðaduftið er annað hvort í litlum plasthylkjum (Foradil og Atrovent) eða skífum (Ventoline diskhaler og Becotide diskhaler).

Einnig eru á markaðnum fjölskammtaúðatæki, t.d. Turbuhaler (Bricanyl og Pulmicort), Diskus (Serevent, Flixotide) og Easyhaler (Buventol).

Ef eitthvað er óljóst um notkun úðalyfjanna er gott að ræða það mál við lækninn sinn eða lyfjafræðinginn í apótekinu. Einnig hefur Vífilsstaðaspítali á sínum vegum vikulega hópfræðslu fyrir almenning um berkjuþrengjandi sjúkdóma og notkun úðalyfja.