Lyf við Parkinsonsveiki

Lyf við Parkinsonsveiki

Parkinsonsveiki er fremur algengur sjúkdómur sem yfirleitt kemur ekki í ljós fyrr en um eða eftir miðjan aldur. Parkinsonsveiki leggst nokkuð jafnt á bæði kynin þó ívið oftar á karla og lýsir sér sem vöðvastirðleiki með hægum hreyfingum, svipbrigðaleysi og fíngerður titringur á útlimum. Oft má þekkja sjúkdóminn á því hvernig göngulag breytist, einstaklingurinn verður skrefstuttur og á erfitt með að hreyfa sig frjálslega.

Orsök Parkinsonsveiki er óþekkt, erfðir koma þar við sögu en vafalítið er orsökin fjölþætt. Skortur á boðefninu dópamíni í heila, einkum í sortukjarna miðheilans, og ójafnvægi boðefna í kjölfarið er talinn vera orsök einkenna Parkinsonsveikinnar sem ofan er lýst. Einkenni sem líkjast Parkinsonseinkennum geta einnig komið fram sem aukaverkun geðlyfja sem draga úr virkni dópamínkerfisins.

Lyf sem verka á þennan sjúkdóm auka á dópamínmagn í heilanum, örva dópamínviðtækin eða draga úr virkni boðefnisins asetýlkólíns. Helstu flokkar lyfja sem notuð eru gegn sjúkdómnum eru: Dópamínvirk lyf og Andkólínvirk lyf.

Dópamínvirk lyf

Levodópa með dópadekarboxylasablokkurum. Levódópa er efni sem breytist í dópamín í líkamanum og virkar þannig á einkenni sjúkdómsins.

Í fyrstu var levódópa notað eitt sér en það olli miklum aukaverkunum vegna þess að dópamín er boðefni víðar í líkamanum en í miðtaugakerfi. Síðar komu fram lyf sem innihéldu annars vegar levódópa og hins vegar efni sem hindrar breytingu levódópa í dópamín. Þetta síðara efni kemst ekki inn í miðtaugakerfið og hindrar þannig eingöngu dópamínaukninguna utan miðtaugakerfis. Það dregur því úr aukaverkunum án þess að draga úr verkuninni í heila. Dæmi um slíkt efni er karbídópa sem er hluti af lyfinu Sinemet og benserazíð sem er hluti af lyfinu Madopar. Að jafnaði þarf 60-200 mg af karbídópa til að koma í veg fyrir umbreytingu levódópa í líkamanum og skiptir þá ekki miklu máli hversu stór skammturinn af levódópa er. Þetta er ástæða þess að Sinemet er framleitt í þremur mismunandi styrkleikum: 10/100, 25/100 og 25/250. Þessar tölur sýna hlutföll karbídópa og levódópa í lyfjaformunum. Forðatöflur, Sinemet Depot og Madopar Depot, gefa hæga en jafnari þéttni af lyfinu og geta nýst sjúklingum með Parkinsonsveiki til að minnka sveiflur í áhrifum dópamíns.

Lyf sem örva dópamínviðtæki: Brómókriptín, Pergólíð og Rópíneról. Lyfin hafa örvandi áhrif á dópamínviðtæki í heila og virka þannig á einkenni Parkinsonsveikinnar.

Apomorfin er lyf sem örvar dópamínviðtæki og er gefið í sprautuformi. Talsverðar aukaverkanir fylgja því og verður að taka inn lyf til að minnka líkurnar á aukaverkunum (Domperidon).
Amantadin er lyf sem talið er losa dópamín frá taugum og hefur svipaða verkan og dópamín.

Mónóamínóoxidasa-B-blokkarar hægja á niðurbroti dópamíns í heilanum og því má oft minnka skammt levódópalyfjanna þegar lyfin eru notuð saman. Þessi lyfjaflokkur hefur einnig verið talinn geta haft verndandi áhrif, en rannsóknir hafa ekki staðfest það. Þessi lyf eru oftast notuð með levódópameðferð þegar miklar sveiflur eru á sjúkdómseinkennum.

Katekól-O-metýl-transfersa hemlar (COMT-hemlar) eru ekki skráðir hér á landi um þessar mundir en þeir leiða til stöðugri þéttni levódópa með því að minnka umbrot þess og þar af leiðandi oft hægt að minnka skammta.

Andkólínvirk lyf

Lyfjaflokkur með lyfjum sem hamla virkni acetílkólins. Þau eru notuð við Parkinsonsveiki en fyrst og fremst í Parkinsonslíkum einkennum t.d. við aukaverkanir geðlyfja.

Þunglyndi getur fylgt Parkinsonsveiki og er meðferðin sú sama og hjá öðrum einstaklingum með þunglyndi en mikilvægt er að fara varlega. Þríhringja þunglyndislyf eru andkólínvirk og leiða því frekar til aukaverkana hjá öldruðum og við notkun nýrri þunglyndislyfja s.k. SSRI lyfja er hugsanlegt að einkenni Parkinsonsveikinnar versni og þau geta haft milliverkanir við Selegilin.

Minnistruflun getur fylgt Parkinsonsveiki, gæta þarf varúðar við notkun á lyfjum við minnistruflunum (Alzheimersveiki) vegna hættunnar á auknum Parkinsonseinkennum.

Ef fólk þarf að fara í skurðaðgerðir þar sem svæfingu er beitt þarf að ráðfæra sig við lækni um meðferðina vegna Parkinsonsveikinnar.

Fróðleikur um Parkinsonslyf