Lyf við hjartaöng


Lyf við hjartaöng

Hjartaöng er sjúkdómseinkenni sem kemur fram við blóðþurrð í hjartavöðvanum. Venjulega lýsir hún sér sem þrýstings- eða herpingsverkur fyrir miðju brjósti sem oft leggur út í vinstri öxl og handlegg en stundum einnig út í hægri handlegg, upp í háls og jafnvel upp í tennur. Hjartaöng kemur fram þegar það blóðflæði sem um æðarnar kemst fullnægir ekki þörf hjartavöðvans fyrir súrefni og misræmi verður milli framboðs og eftirspurnar eftir súrefni í hjartavöðvanum. Langalgengasta orsökin eru þrengsli vegna æðakölkunar í kransæðum sem takmarka flutningsgetu kransæðakerfisins. Þegar súrefnisþörf hjartavöðvans eykst, t.d. við áreynslu eða geðbrigði, getur þörfin fyrir aukið blóðflæði farið fram úr getu hinna þröngu kransæða til að flytja blóð og einkenni blóðþurrðar, hjartaöng, kemur fram. Meðferð á hjartaöng snýst um að leiðrétta þetta misræmi annað hvort með því að auka framboðið eða draga úr eftirspurninni eða hvort tveggja. Stundum hentar að víkka kransæðaþrengslin með belg eða tengja fram hjá þeim (hjáveituaðgerð) og auka þannig blóðflæði til hjartavöðvans, en þær aðgerðir eru ekki til umfjöllunar hér.

Þau lyf, sem notuð eru við meðferð á hjartaöng verka með ýmsum hætti á jafnvægið milli framboðs og eftirspurnar eftir súrefni í hjartavöðvanum. Aðallega er um að ræða þrjá lyfjaflokka: Glycerýlnítrat (nítróglýserín) og skyld lyf, betablokkara og kalsíumblokkara.

Nítróglýserín og skyld lyf

Nítróglýserín er elst í hettunni þeirra lyfja sem notuð eru við hjartaöng en er ennþá slíkt grundvallarlyf að allir sjúklingar með kransæðasjúkdóm ættu að ganga með það í vasanum. Grundvallarverkun þess hefur lengi verið þekkt en hún er að víkka æðar, sérstaklega bláæðar en einnig slagæðar og þar eru meðtaldar kransæðarnar. Víkkun bláæðanna leiðir til þess að skyndilega berst minna blóð frá vefjum líkamans til hjartans. Hjartað þarf því að dæla minna blóði, álagið á hjartavöðvann minnkar og þar með eftirspurnin eftir súrefni. Jafnframt leiðir víkkun slagæða til þess að blóðþrýstingur lækkar sem einnig dregur úr súrefnisþörfinni. Víkkun kransæðanna sjálfra hefur hins vegar í för með sér aukið blóðflæði til hjartavöðans og stuðlar með þeim hætti að leiðréttingu þess misræmis milli framboðs og eftirspurnar sem orsakar hjartaöng. Sennilega skiptir bláæðavíkkunin mestu máli í verkun nítróglýseríns. Sú verkun kemur mjög fljótt, innan 1-2 mínútna, og leiðir til þess að skyndilega er létt á hjartanu. Þegar vel tekst til hverfur brjóstverkurinn á örfáum mínútum. Rannsóknir síðustu ára benda til að nítróglýserín verki þannig að frá því losnar köfnunarefnisoxíð sem síðan verkar beint á slétta vöðva í æðum og veldur slökun og æðavíkkun. Köfnunarefnisoxíð myndast í æðaþeli heilbrigðra æða en þegar æðarnar gerast sjúkar dregur úr hæfni æðaþelsfrumanna til að mynda þetta „náttúrulega nítróglýserín og því kemur lyfið í svo góðar þarfir.

Aukaverkanir af nítróglýseríni tengjast æðavíkkunaráhrifum lyfsins, þ.e. höfuðverkur, sem er algengur í fyrstu en hverfur venjulega við frekari notkun, og blóðþrýstingsfall, sem leitt getur til svima og jafnvel yfirliðs.

Nítróglýserín er mest notað í formi tungurótartaflna sem látnar eru bráðna undir tungu og frásogast gegnum munnslímhúð inn í blóðrásina. Einnig er lyfið til sem smyrsli sem borið er á húð og forðaplástur sem einnig leyfir hægfara frásogun inn í blóðrásina og þannig lengri verkun heldur en fæst með tungurótartöflum. Loks er nítróglýserín til sem innrennslislyf og notað sem slíkt við alvarlegum tilfellum á sjúkrahúsum.

Meðal þeirra lyfja sem skyld eru nítróglýseríni og verka nánast með sama hætti er ísósorbíð dínítrat, sem hér er á markaðnum undir mörgum sérlyfjaheitum (Sorbangil, Sorbitrate) og ísósorbíð mónónítrat (Imdur, Mónit-L). Þessi lyf eru einkum notuð til að koma í veg fyrir hjartaöng. Verkun kemur seinna en eftir töku nítróglýseríns en stendur lengur. Aukaverkanir eru hins vegar svipaðar.

Við vaxandi notkun langverkandi lyfjaforma af nítróglýserínfjölskyldunni, einkum forðaplástranna sem ætlað var að verka allan sólarhringinn, hefur komið fram þol gegn nítróglýserínáhrifum. Lífefnafræðileg skýring hefur enn ekki fengist á þessari þolmyndun, þrátt fyrir miklar rannsóknir, en ljóst er að líkaminn verður að vera án nokkurs nítróglýseríns í nokkrar klukkustundir á hverjum sólarhring ef lyfin eiga að halda fullri verkun.

Betablokkarar

Þessum lyfjaflokki tilheyra fjölmörg lyf sem öll eiga það sammerkt að bindast viðtökum hormónanna aðrenalíns og noraðrenalíns í hinum ýmsu vefjum líkamans. Hormónunum er þannig bægt frá viðtökunum og þannig dregið úr verkun þeirra. Áhrif í líkamanum eru víðtæk og fjölþætt, t.d. eru lyfin notuð við ofstarfsemi skjaldkirtils, við handaskjálfta, hjartsláttaróreglu, háþrýstingi og fleiru. Notagildi betablokkaranna gegn hjartaöng byggist á því að lyfin hægja á hjartslætti, lækka blóðþrýsting og draga úr slagkrafti vinstra slegils. Öll þessi atriði hafa áhrif á súrefnisþörf hjartans. Betablokkararnir verka því fyrst og fremst með því að draga úr þeirri þörf. Einkum koma þeir í veg fyrir að súrefnisþörfin fari fram úr hófi við áreynslu og hefur notagildi þeirra við að fyrirbyggja áreynslubundna brjóstverki reynst mikið.

Aukaverkanir betablokkara tengjast beint þeirri verkun sem sóst er eftir. Þannig getur hjartsláttur orðið of hægur og blóðþrýstingur of lágur, en því fylgir kraftleysi, svimi og jafnvel yfirlið. Meðal annarra aukaverkana má nefna svefntruflanir, almenna þreytu, jafnvel vægt þunglyndi, hand- og fótkulda. Í flestum tilfellum þolir fólk lyfin þó vel í hæfilegum skömmtum og við hjartaöng hafa þau unnið sér fastan sess. Eins og fyrr getur eru mörg lyf úr þessum flokki á markaði hérlendis og skulu aðeins nefnd örfá dæmi: Própranólól (Inderal), atenólól (Tensól), metaprólól (Selóken, Betasel), pindólól (Visken), sótalól (Sotacor) og labetólól (Trandate).

Kalsíumblokkarar

Nýjastir í flokki lyfja sem notuð eru við hjartaöng eru svokallaðir kalsíumblokkarar, en í þeirra hópi eru verapamíl (Isoptin, Veraloc Retard), nífedipín (Adalat), diltíazem (t.d. Cardizem, Korzem, Dilangin) og amlodipín (Norvasc). Þessi lyf eru einnig notuð sem háþrýstingslyf og verapamíl til að temja óreglulegan hjartslátt. Nafn þessa lyfjaflokks er dregið af áhrifum lyfjanna á kalsíumgöng sem hleypa kalsíumjónum inn í frumur. Notagildi lyfjanna við hjartaöng byggist á slökun sléttra vöðva í æðum og þar með æðavíkkun sem hlýst af því að dregið er úr ferð kalsíumjóna inn í vöðvafrumurnar. Mest munar um bein víkkandi áhrif á kransæðarnar sjálfar, sem hafa í för með sér aukið framboð súrefnisríks blóðs til hjartavöðvans. Víkkun annarra slagæða lækkar blóðþrýsting og dregur þannig úr eftirspurninni eftir súrefni. Þannig verka kalsíumblokkararnir á báðar hliðar þess jafnvægis sem fer úr skorðum við hjartaöng.

Með því að nota eitt eða fleiri lyf úr ofangreindum þremur lyfjaflokkum má oft halda einkennum kransæðaþrengsla í lágmarki. Að ýmsu öðru þarf þó að hyggja, t.d. að greina og meðhöndla aðra kvilla sem auka álag á hjartað, svo sem blóðleysi, hjartabilun og ofstarfsemi skjaldkirtils. Huga þarf að áhættu- og orsakaþáttum kransæðasjúkdóms, reykingum, hækkaðri blóðfitu og hækkuðum blóðþrýstingi og sterk rök hníga til þess að asetýlsalisýlsýra (t.d. Magnýl) í litlum skömmtum dragi úr blóðsegamyndun og minnki þannig hættu á kransæðastíflu meðal þeirra sem hafa þröngar kransæðar. Loks hafa rannsóknir síðustu ára bent til þess að unnt sé að hafa áhrif á æðakölkunarkerfið sjálft með lyfjameðferð. Vega þar þyngst lyf sem hindra myndun kólesteróls í frumum, auka upptöku þess í lifur og lækka þannig magn þess í blóði. Þetta eru lyf af svokölluðum statín flokki og eru þegar 5 slík lyf á markaði hér á landi; lovastatin (Mevacor), simvastatin (Zocor), pravastatin (Pravachol), fluvastatin (Lescol, Canef) og atorvastatin (Zarator).