Lyf og heilsa

 

Notum við of mikið af lyfjum?

Alla þessa öld hefur meðalaldur fólks á vesturlöndum verið að hækka og heilsufar almennt að batna. Í meðalaldri vegur minnkandi barnadauði þungt en þar kemur einnig til hækkandi aldur þeirra sem lifa af barnsárin. Ástæður þessa eru fjölmargar og má þar nefna m.a. aukna þekkingu almennings á sjúkdómum og sjúkdómavörnum, ýmsar forvarnir eins og bólusetningar og sívaxandi þekkingu í læknisfræði. Einnig má nefna bætt mataræði, þó svo að sumir telji það hafa versnað aftur á undanförnum 10-20 árum. Með aukinni þekkingu í læknisfræði almennt, hefur lyfjum stöðugt fjölgað og notkun lyfja hefur aukist að sama skapi. Eðlilegt er að spyrja hver þáttur lyfja sé í batnandi heilsufari og hvort lyfjanotkun sé e.t.v. komin út í öfgar.

Óhætt er að fullyrða að lyf eiga stóran þátt í því batnandi heilsufari sem orðið hefur á þessari öld þó að þar komi einnig margt fleira til. Einnig má fullyrða að á síðustu 2-3 áratugum hefur átt sér stað ofnotkun vissra lyfja og lyfjaflokka að því marki að það hefur skaðað heilsu fólks, skapað ný heilbrigðisvandamál og valdið umhverfisspjöllum. Í slíkum tilvikum er gjarnan spurt hver eigi sökina og þá eru hlutirnir oft einfaldaðir um of. Þegar um ofnotkun eða ranga notkun einhverra lyfja er að ræða, er yfirleitt fleiri en einum um að kenna og þeir aðilar sem oftast bera ábyrgðina eru læknar, sjúklingar (eða aðstandendur þeirra), lyfjaframleiðendur og heilbrigðisyfirvöld.

Lyf má stundum nota til að bjarga mannslífum. Þar má nefna sýklalyf, lyf við illkynja sjúkdómum og lyf við ýmsum bráðum sjúkdómum t.d. í hjarta eða æðum. Sýklalyf ber oft á góma, þau hafa sennilega bjargað fleiri mannslífum en nokkur annar lyfjaflokkur en mikil notkun þeirra, og að flestra mati ofnotkun, hefur valdið ýmsum vandamálum. Sýklalyf eru venjulega notuð við sýkingum af völdum baktería, en mikil notkun lyfjanna veldur því að bakteríurnar verða ónæmar og stöðugt þarf að finna ný lyf. Erlendar rannsóknir hafa leitt í ljós að sýklalyf eru mjög oft notuð á rangan hátt, en það er einkum við veirusýkingum eins og kvefi og inflúensu þar sem þessi lyf gera ekkert gagn en stuðla að ónæmi baktería sem kunna að vera til staðar. Ástæður fyrir þessari vafasömu sýklalyfjanotkun eru þær að stundum kemur bakteríusýking í kjölfar veirusýkingarinnar, einkum ef fólk fer ekki vel með sig. Það sem oftast er rétt að gera er að bíða, sjá til hvort bakteríusýking verður og gefa þá sýklalyf ef nauðsyn krefur.

Annað dæmi um gagnleg lyf sem oft eru ofnotuð og misnotuð eru róandi lyf og svefnlyf. Sumir hafa mikið gagn af því að geta gripið til þessara lyfja stöku sinnum. Reyndin er því miður sú að fjöldi fólks notar þessi lyf að staðaldri, oft í einhvers konar langvarandi veruleikaflótta.

Fósturvarnir mætti kalla það að verja fóstur fyrir skaðlegum áhrifum framandi efna. Slík framandi efni geta verið lyf, vítamín, steinefni og náttúrumeðul. Hér er verið að tala um vítamín og steinefni í stærri skömmtum en ráðlögðum dagskömmtum Manneldisráðs. Lengi hefur verið vitað að aukinni lyfjanotkun á meðgöngutíma fylgir aukin tíðni fósturskemmda. Sum lyf eru þekkt að því að geta valdið fósturskemmdum en í flestum tilvikum er hættan óþekkt og um mjög fá lyf er hægt að segja með vissu að þau séu hættulaus fyrir fóstur. Ekki er heldur hægt að fullyrða að vítamín og steinefni séu hættulaus og vitað er að A-vítamín í stórum skömmtum getur valdið fósturskemmdum í dýrum. Í sumum nágrannalanda okkar eru ófrískar konur varaðar við neyslu A-vítamíns og lifrar, en dýralifur inniheldur oftast mjög mikið magn A-vítamíns. Svipað gildir einnig um náttúrumeðul, yfirleitt er lítið sem ekkert vitað um hugsanleg áhrif þeirra á fóstur. Ófrískar konur ættu því að forðast lyf, vítamín, steinefni og náttúrumeðul, og gildir það sérstaklega fyrstu þrjá mánuði meðgöngunnar. Sumar konur eru með þannig sjúkdóma að ekki er hægt að fylgja þessari reglu út í æsar og verður þá að finna þá leið sem skapar minnsta hættu fyrir móður og barn. Á síðari hluta meðgöngunnar eykst þörf líkamans fyrir sum vítamín og steinefni, sem þá er óhætt að taka inn í hæfilegu magni.

Lyf eru ekki gallalaus og þau eru stundum ofnotuð eða misnotuð en þau má vissulega nota til að bæta heilsufar, stundum til að bjarga mannslífum og oft til að gera lífið bærilegra fyrir sjúklinga með langvinna, ólæknandi sjúkdóma.