Lyf – Mikilvægur fróðleikur um lyfjaneyslu

 

Hvað eru lyf?

Öll lyf þurfa samþykki Lyfjanefndar áður en hægt er að selja þau hér á landi. Til að fá samþykki þarf að liggja fyrir staðfest lýsing á virkni og hugsanlegum aukaverkunum. Þessu er farið á annan veg en með fæðubótarefni og matvæli sem þurfa ekkert slíkt. Í lyfjum eru oft afar sterk efni sem geta valdið eitrun í röngum skömmtum sem er nauðsynlegt að þekkja. Fyrir sum lyf er krafist lyfseðils en önnur eru seld í lausasölu. Þ þó að þau séu ekki lyfseðilsskyld getur engu að síðurs verið hætta á banvænum skammti.

Hvenær á ég að taka inn lyfin?

Fylgja á fyrirmælum læknisins í meðferð lyfja. Sum lyf þarf að taka inn reglulega með ákveðnu millibili en önnur lyf eiga að hreinsast úr líkamanum á milli. Sum lyf á að taka með mat en önnur fyrir máltíðir. Þetta á allt að koma fram í leiðbeiningunum með lyfseðilsskyldum lyfjum.

Má ég neyta áfengis með þessu lyfi?

Um er að ræða þrjá hópa lyfja sem ekki er æskilegt að blanda við áfengi.

  • Einn lyfjahópurinn er ekki slævandi og verkar ekki sérlega illa með áfengi, þar af leiðandi er áfengisneysla ekkert yfirmáta hættuleg.
  • Hins vegar er lyfja yfirleitt neytt vegna veikinda og þar af leiðandi gild ástæða að fara gætilega með áfengi. Annar lyfjahópurinn er sljóvgandi og áhrifin magnast við áfengisneyslu. Því er óráðlegt að blanda þeim saman við áfengi. Þessi lyf eru oft merkt með viðvörunarþríhyrningi.
  • Þriðji lyfjahópurinn verður fyrir efnahvörfum með áfengi og getur valdið heiftarlegum verkunum, sem minna á verkun áfengis með antabus. Með slíkum lyfjum er glapræði að neyta áfengis.

Má keyra bíl eftir neyslu lyfsins?

Lyf, sem skerða hæfni til aksturs eru merkt með viðvörunarþríhyrningi. Þetta eru róandi lyf, sterk verkjalyf og ofnæmislyf. Önnur lyf geta einnig haft áhrif á aksturshæfni. Almennt á að fara gætilega með lyf. Einnig er ráðlegt að hafa samráð við lækni um hvort leyfilegt sé að aka bíl.

Má blanda saman lyfjum?

Ef fleiri en ein lyfjategund er tekin á sama tíma er mikilvægt að vera meðvituð/aður um að þau geta truflað verkun hvert annars. Venjan er að skilgreina samverkun lyfja á þrjá vegu:

  • Upptaka þeirra getur raskast vegna annars sýrustigs í maga, vegna breyttrar þarmastarfsemi eða áhrifa á bakteríubúskap, t.d. þegar sýklalyf eru notuð.
  • Nýting líkamans á lyfinu getur raskast. Þetta skiptir máli þar sem oft er aðeins verkun af þeim hluta lyfsins sem þannig fellur út. Lyfið keppir einfaldlega við burðarefnin í blóðinu og getur því virkjað annað lyf með því að slá út þau flutningsefni.
  • Úrfelling lyfsins getur hlotist af áhrifum annars lyfs. Þetta getur haft jákvæð eða neikvæð áhrif á verkun lyfsins þar sem önnur lyf geta ýmist hraðað eða hægt á niðurbroti lyfsins.

Því er mikilvægt að vita ævinlega hvaða lyf maður er að taka.

  • Þekktu alltaf nafnið á þeim lyfjum sem þú ert að taka, svo að læknirinn þinn eða sjúkrahúslæknirinn geti tekið tillit til þeirra þegar hann skrifar upp á ný lyf handa þér
  • Gott er að skrifa niður nöfn þeirra lyfja sem þú tekur.
  • Mundu að lausasölulyf, vítamíntöflur og náttúrulyf eru eins konar lyf og geta haft áhrif á önnur lyf.
  • Gefðu ætíð réttar upplýsingar um öll þau lyf sem þú tekur, þegar þú byrjar á nýju lyfi.

Fylgja einhverjar aukaverkanir?

Meðul geta haft ýmsar óheppilegar verkanir, svokallaðar aukaverkanir. Flestar líða þó hjá og eru minniháttar. Á lyfseðilsskyldum lyfjum er getið um hugsanlegar aukaverkanir á leiðbeiningunum með lyfinu. Þú getur einnig fræðst um aukaverkanir lyfsins með því að fletta upp í Lyfjaskrá Doktor.is. Hjá flestum eru litlar eða engar aukaverkanir. Ef hætta er á alvarlegum aukaverkunum er lækninum skylt að upplýsa um slíkt. Ómögulegt er að vita fyrirfram hvort aukaverkanir koma fram. Ef það gerist verður að ráðfæra sig við lækninn um það hvort eigi að sætta sig við þær eða skipta um lyf.