Lyf í fæðubótarefnum

Lyf í fæðubótarefnum hafa verið nokkuð í fréttum undanfarið, sérstaklega þar sem erlendir íþróttamenn hafa verið að falla á lyfjaprófum eftir notkun þeirra. Einnig féllu nýlega tveir íslenskir íþróttmenn á lyfjaprófi eftir að notað fæðubótarefni sem innihéldu lyfið efedrín. Skilin milli lyfja og fæðubótarefna eru alls ekki skýr. Notendur fæðubótarefna, jafnt íþróttafólk sem aðrir, þurfa því að vera á varðbergi þegar fæðubótarefni eru valin þannig að heilsunni sé ekki stofnað í hættu vegna misgánings eða vankunnáttu.

Samfara auknum áhuga á heilbrigði og heilsuvernd í samfélaginu hefur áhugi á heilsuvörum, náttúruvörum og bætiefnum ýmiss konar aukist mikið á undanförnum árum. Lengi vel stóðu aðeins fáar vörur af þessu tagi til boða, en nú er hins vegar gífurlegt framboð slíkra vara hér á landi sem annars staðar. Fjöldi næringarefna, sem fást úr fæðu, eru nauðsynleg fyrir eðlilega starfsemi líkamans eins og vítamín, steinefni og sykrur, en önnur geta haft áhrif á líkamsstarfsemi þó þau séu, að öllu jöfnu, ekki til staðar í líkamanum. Mörg fæðubótarefni eiga það sammerkt að notagildi þeirra hefur ekki verið að fullu sannað og misjafnt er hversu vel efnin hafa verið rannsökuð. Rétt eins og með allar vörur, eru framleiðendur sífellt að keppast við að bjóða bestu efnin með bestu samsetningunni og nýjar vörur líta reglulega dagsins ljós. Í þessu kapphlaupi eru framleiðendur sífellt að færa sig nær mörkunum sem skilja að leyfilegar heilsuvörur annars vegar og lyf hins vegar.

Fæðubótarefni eru lífsstíll og markaðurinn er stór.

Fæðubótarefni og heilsuvörur ýmiss konar virðast vera orðin sjálfsagður hluti af lífi tugþúsunda Íslendinga. Markaður fyrir þessi efni er gríðarlegur. Talið er að veltan á heilsuvörumarkaðnum hér á landi nemi allt að 500 milljónum króna á ári. Kannanir hafa sýnt að fjöldi íþróttafólks hér á landi notar fæðubótarefni til að bæta árangur sinn. Oft er íþróttafólk hvatt til að nota fæðubótarefni af þjálfurum og/eða forsvarsmönnum íþróttafélags síns og nokkuð er um að íþróttafélög borgi ákveðin fæðubótarefni fyrir íþróttafólk sitt. Auk íþróttafólks notar almenningur fæðubótarefni og heilsuvörur af ýmsu tagi til að auka heilbrigði og bæta líðan sína. Mjög margir framleiðendur eru á markaðnum og úrvalið er nánast óendanlegt. Ný efni og nýjar samsetningar eru sífellt að koma fram sem eiga að vera ennþá betri en það sem fyrir er og er nú svo komið að skilin milli fæðubótarefna og lyfja eru að verða þokukennd.

Skil milli fæðubótarefna og lyfja eru ekki alltaf skýr.

Það sem veldur því að oft er erfitt að greina á milli fæðubótarefna og lyfja eru mismunandi skilgreiningar þessara hugtaka á milli landa. Það sem er lyf í einu landi getur verið fæðubótarefni í öðru landi. Bandarísk lög eru ekki eins ströng og lög sem gilda í flestum Evrópulöndum. Hægt er að kaupa án lyfseðils í Bandaríkjunum (og á Netinu) efni sem eru lyfseðilsskyld í Evrópu. Íslenskir ferðamenn í Bandaríkjunum geta því auðveldlega keypt lyf eða fæðubótarefni án lyfseðils, sem þeir geta svo tekið með sér heim til Íslands þar sem viðkomandi efni eða lyf er lyfseðilsskylt.

Fæðubótarefni geta innihaldið efni sem eru á listum yfir lyf sem íþróttafólki er bannað að nota.

Listar yfir lyf og efni sem íþróttafólki er bannað að nota í íþróttum eru eins milli landa, óháð skilgreiningum á því hvað sé fæðubótarefni og hvað sé lyf í viðkomandi landi. Af því leiðir að efni eða lyf sem eru á bannlistum fyrir íþróttafólk geta verið í fæðubótarefnum sem keypt eru út í heilsuvörubúðum í sumum löndum. Íþróttafólk verður því að aðgæta vel hvort fæðubótarefni sem það hefur keypt, innihaldi efni á bannlista. Almennt líkamsræktarfólk og aðrir þeir sem standa utan keppnisíþrótta geta notað þessi fæðubótarefni að vild, enda er almenningur ekki lyfjaprófaður sérstaklega eins og keppnisíþróttafólk. Þessi hópur er miklu stærri en hópur keppnisíþróttafólks þannig að framleiðendur eru í raun að markaðssetja efni sem innihalda lyf fyrir þennan stóra hóp. Það kemur jafnvel fyrir að framleiðendur tilgreina sérstaklega að varan innihaldi efni sem eru á bannlista fyrir keppnisíþróttafólk. Þau fæðubótarefni sem eru ólögleg hér á landi virðast samt sem áður vera í töluverðri notkun og svo virðist sem „svartamarkaður“ með þessi efni blómstri hér á landi. Tvö helstu dæmin um lyf í fæðubótarefnum sem eru í gangi hér á landi eru efedrín og forstigshormón.

Efedrín.

Efnið efedrín er upprunalega komið úr austurlenskri lækningajurt og má því flokka það sem náttúruefni. Jurtin heitir Ma Huang og nefnist á íslensku Marvöndull. Efedrín er leyft í fæðubótarefnum í Bandaríkjunum í ákveðnu magni en er alltaf lyfseðilsskylt lyf hér á landi. Efnið er efnafræðilega skylt amfetamíni en hefur þó veikari áhrif á líkamann. Sem lyf í lækningalegum tilgangi er það núorðið aðallega notað í kveflyf og í megrunarlyf en var mest notað fyrir astmasjúklinga áður fyrr. Efedrín er á lista yfir efni sem íþróttafólki er óheimilt að nota. Ávinningur af notkun efedríns fyrir íþróttafólk er að efnið eykur árverkni, einbeitingu og þol auk þess sem það dregur úr þreytutilfinningu og sársaukaskyni. Efnið virðist einnig hraða efnaskiptum líkamans og jafnvel draga úr matarlyst. Aukaverkanir sem geta komið fram við notkun efedríns eru til dæmis hætta á ofálagi og örmögnun, lystarleysi, svefnleysi og ofskynjanir auk blóðþrýstings- og hjartsláttartruflana sem margir verða varir við strax í fyrsta skipti sem þeir nota efedrín.

Auðvelt að nálgast ólöglegt efedrín hér á landi.

Óformlegar athuganir okkar hjá Íþróttasambandinu gefa til kynna að neysla ólöglegra fæðubótarefna sem innihalda efedrín sé því miður töluverð hér á landi, sérstaklega meðal líkamsræktarfólks sem stendur utan hefðbundinna íþróttasamtaka. Mjög auðvelt virðist vera að nálgast þessi efni og „svartamarkaðurinn“ virðist blómstra. Efnið RIPPED FUEL er án efa þekktasta fæðubótarefnið sem inniheldur efedrín og er í umferð hér á landi. Þessar athuganir hafa einnig sýnt að fæðubótarefna, sem innihalda efedrín, er ekki einungis neytt í íþróttalegum eða útlitslegum tilgangi. Auk þess sem efedrín virðist vera hjálpartæki sumra við próflestur, virðist töluvert vera um að efedrín sé notað samfara vímugjöfum við skemmtanahald. Þá er efnisins neytt til að hressa fólk við og til að notandinn haldist vakandi lengur, til dæmis þegar fólk er að skemmta sér í marga daga samfellt. Í þessu sambandi virðist vera hægt að kaupa efedrín-töflur eða hylki í lausu á uppsprengdu verði af ákveðnum sölumönnum.

Vefaukandi forstigshormón.

Svokölluð forstigshormón (pro-hormons) er sá flokkur fæðubótarefna sem hefur vakið hvað mesta athygli síðustu misseri. Þessi flokkur efna er í raun forstigsefni fyrir ákveðin sterahormón líkamans og er leyfilegt að selja þau sem fæðubótarefni í Bandaríkjunum en í flestum Evrópulöndum er þau lyfseðilsskyld lyf. Líkaminn býr sjálfur til sterahormón eftir löngu og flóknu byggingarferli. Til sterahormóna teljast til dæmis hormón sem stjórna vöðvamyndun og eru vefaukandi, eins og karlhormónið testósterón. Hugmyndafræðin að baki notkunar forstigshormóna er sú að þó hormónin sjálf séu lyfseðilsskyld lyf þarf það ekki að þýða að öll byggingarefni þessa hormóna séu það líka. Þannig eru forstigshormón tekin inn sem “saklaus” fæðubótarefni sem breytast svo eftir flóknu kerfi yfir í vefaukandi sterahormón (til dæmis testósterón) eftir að í líkamann er komið. Gagnsemi þessara forstigshormóna sem vefaukandi efna er reyndar mjög umdeild og að minnsta kosti sum þeirra virðast gagnslaus við að auka vöðvamassa. Rannsóknir hafa jafnvel bent til að ákveðin forstigshormón sem hafa verið markaðssett fyrir íþróttafólk umbreytist frekar í kvenhormón en karlhormón þegar í líkamann er komið. Aðalmálið er þó að þessi efni geta haft hættulegt inngrip í eðlilega líkamsstarfsemi sem geta jafnvel valdið alvarlegum aukaverkunum. Að auki getur íþróttafólk auðveldlega fallið á lyfjaprófi vegna steranotkunar noti það þessi fæðubótarefni enda eru forstigshormónin sett á bannlista fyrir íþróttafólk jafnóðum og þau koma fram. Forstigshormón, sem hafa verið markaðssett í fæðubótarefnum, eru nú að verða hátt í tíu talsins. Þekktustu tvö efnin nefnast DHEA (Dí-hýdró-epi-andrósterón) og 19-norandróstendíón en flest þessara forstigshormóna bera nöfn flókinna efnafræðiformúla.

Nandrólón.

Vefaukandi hormónið nandrólón, sem er lokaafurð nokkurra forstigshormóna, hefur verið mikið í fréttum í tengslum við lyfjahneyksli íþróttafólks síðustu misseri. Efnið virðist hafa verið hálfgert tískulyf íþróttafólks. Sem dæmi um íþróttafólk sem fallið hefur á lyfjaprófi vegna nandrólóns má nefna frjálsíþróttafólkið Linford Christie og Merlene Ottey auk hollensku knattspyrnukappanna Edgar Davids og Frank de Boer sem báðir eru stórstjörnur í evrópskri knattspyrnu. Svo virðist sem margt af þessu íþróttafólki hafi neytt fæðubótarefna sem innihalda forstigshormón, hvort sem þau hafi vitað fyrirfram um innihaldsefnin eða ekki. Nandrólón hefur svipuð áhrif og hormónið testósterón í líkamanum. Nandrólón veldur aukningu á vöðvamassa og örvar myndun blóðkorna. Helstu aukaverkanir sem geta komið fram við notkun nandrólóns og annara vefaukandi hormóna eru til dæmis hækkaður blóðþrýstingur, hjarta- og æðasjúkdómar, lifrarskemmdir, húðsjúkdómar, aukin ofbeldishneigð og aðrir skapgerðarbrestir og áhrif á kynfæri.

Fylsta ástæða er til að vara alla við notkun þessara „vafasömu“ fæðubótarefna, eins og efedríns og forstigshormóna. Þó þessi efni sé hægt að kaupa í sumum löndum án lyfseðils, hafa þau mikil inngrip í líkamsstarfsemina og geta haft skaðleg áhrif á líkamann, bæði þegar til skemmri eða lengri tíma er litið. Allir þeir sem nota fæðubótarefni, hvort sem þeir eru í íþróttum eða ekki, ættu að kynna sér vel hvað þeir láta ofan í sig. Heilsan er eitt það dýrmætasta sem við eigum og hana er aldrei hægt að kaupa aftur.

Að lokum er rétt að geta þess að óski íþróttafólk eða aðrir eftir frekari upplýsingum um þessi mál, er velkomið að hafa samband við skrifstofu ÍSÍ í netfangið isi@isisport.is eða símann 514 4000. Lista yfir bönnuð lyf og efni í íþróttum má finna á Lyfjavef ÍSÍ á heimasíðu ÍSÍ, isisport.is undir „tenglar“.