Ljósið

Ljósið er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra og hefur aðsetur í Neskirkju við Hagatorg.  ,,Markviss stuðningur eftir greiningu á alvarlegum sjúkdómi er mikilvægur fyrir einstaklinginn sjálfan og samfélagið í heild.  Starfsemi Ljóssins leggur áherslu á traust, hjálpsemi og jafnræði,” segir í kynningarbæklingi sem Ljósið hefur gefið út.

Stuðningur Ljóssins miðar að því að ná upp virkni, efla heilsu og lífsgæði.  Hann stendur krabbameinsgreindum til boða frá greiningu sjúkdóms og eins lengi og þörf krefur.  Hann stendur líka aðstandendum til boða og fólki utan af landi.

Ljósið býður upp á fjölbreytta dagskrá og má í því sambandi nefna sjálfstykingu, handverkshús, leirlist, jóga, tai chi leikfimi, slökun, gönguhópa, svæðanudd, auk fræðslu og samverustunda.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið styrkir Ljósið sem svara hálfri stöðu en styrkir frá líknarsamtökum hafa dekkað annan kostnað.  Mikil sjálfboðavinna er unnin af félögum Ljóssins og þannig fá þeir líka hlutverk í endurhæfingunni.  Félagar greiða fyrir þá muni sem þeir gera í handverkinu en allt er á kostnaðarverði.  Eins er greitt fyrir jógatíma.  Göngudeildargjald er ekkert og öllum kostnaði er haldið í lágmarki.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Ljóssins  www.ljosid.org