Lífsorka

Spurningar:

• Er unnt að undirbúa efri árin með markvissum hætti til þess að okkur líði betur við betri heilsu?
Svar: Rannsóknir sýna að þeir sem búa sig undir efri árin með einhverjum hætti njóta þeirra að öllu jöfnu betur en hinir sem láta allt skeika að sköpuðu.

• Er skemmtilegt að hætta að vinna, komast á eftirlaun?
Svar: Reynsla aldraðra á Íslandi sýnir að þeir sem eru léttir í lundu, lifa við heilbrigðan lífsstíl og láta hverjum degi nægja sína þjáningu geta notið síðasta æviskeiðsins með unaði og gleði.

• Er til einhver töfralausn við ,,Eilífri æsku“ eða er ,,Eilíf æska“ ranghugmyndir kynslóða af röngu viðhorfi og ótta við ,,Elli kerlingu“ og dauða?
Svar: Glíma kynslóða frá örófi alda hefur sýnt svo ekki verður um villst, að maðurinn, homo sapiens, glímir við ,,eilífðarmálin“ svo lengi sem hann lifir. Um allan heim komast menn að ólíkum niðurstöðum um trú, von og framhaldslíf – sem hefur ákveðið vægi fyrir eintaklinga og hvernig þeir geta notið efri áranna.

 

Lífsorka og létt lund

Alla langar til að lifa lengi við sem besta heilsu. Meðalævi fólks lengist sífellt og æ fleiri ná háum aldri en búa samt heima við þolanlega heilsu. Með vísindalegri þekkingu, betri heilsugæslu og þekkingu fólks á hollum lífsháttum lengist síðasta æviskeið okkar og fjöldi fólks lifir í um 20-30 viðburðarík og skemmtileg ár eftir að það hættir launavinnu. Með hverjum áratugnum sem líður sjáum við sífellt fleiri hrausta aldraða á áttræðis-, níræðis- og tíræðisaldri.

En af hverju langar flesta til að lifa lengi? Höfum við velt því fyrir okkur hvað það er í raun sem gerir lífið spennandi og hver eru hin raunverulegu lífsgæði? Fullorðin kona sagði eitt sinn á námskeiði um starfslok: ,,Ég nenni bara ekki að lifa lengi ef ég verð gleymin, fúin og engum til gagns.“

Cíceró, ræðismaður Rómverja, sagði fyrir 2000 árum: ,,Allir þrá að höndla ellina, en fárast svo yfir henni þegar hennar verður vart . . . Ég kýs sannarlega fremur að eiga skamma elli en að verða gamall fyrir aldur fram.“

Gamall maður sagði skömmu áður en hann lést: ,,Mér fannst ég fyrir löngu vera saddur lífdaga svo lengi sem ég hef lifað sárveikur. Nú skynja ég gleði og gildi í hverri jákvæðri hugsun og bæn sem ég get stunið og hugsað til barna, barnabarna, vina, ástvina og samferðamanna.“

Lífið er ,,köflótt“ ef svo má að orði komast. Sífellt eru kaflaskil á vegferð okkar með ýmsu móti. Við flytjumst búferlum, kveðjum góða granna.og nýr þáttur hefst með nýjum nágrönnum. Við slítum barnsskónum í æsku. Unglingsárin hefjast með ótal tækifærum, spennandi þroska og við horfum með eftirvæntingu til fullorðinsáranna. Allir tímar bjóða upp á fjölbreytilegt líf og skemmtilega tilveru, hver með sínum blæ. Á síðasta æviskeiðinu birtist lífið okkur enn í nýjum víddum með óteljandi og óvæntum ævintýrum og ætíð skiptast á skin og skúrir.

Á öldinni sem leið lifði fólk oft ekki mörg ár eftir að launavinnu lauk og margir voru reyndar tilneyddir til að vinna fram í rauðan dauðann til að draga fram lífið. Nú er öldin önnur og full ástæða til að staldra við og heyra hvað aldraðir hafa að leggja til málanna þegar þeir líta til baka. Hvað getum við lært af þeim og reynslu þeirra í tímans rás? Af brjóstviti og reynslu sjáum við að líferni og umhverfisþættir á yngri árum geta haft alvarlegar afleiðingar á efri árum. Atvinnuleysi og kröpp kjör geta haft áhrif á heilsu og líðan. Reykingar og mikil kyrrseta hefur neikvæð áhrif á heilsufar fólks og þannig mætti áfram telja.

Oft hugsum við um lífsorku, lesum um hana, ræðum hana og hlustum á fólk sem hefur öðlast ,,orku“ með ýmsu móti. Við lesum um reynslu fólks sem öðlaðist lífskraft í kyrrð dala og friði fjalla og jökla. Fjöldi fólks hefur öðlast ,,nýjan kraft og yngst upp sem örninn“ við lestur heilagra ritninga og helgra bóka, við bænagjörðir, íhugun og andlega iðkun af ýmsum toga. Blöð og tímarit birta okkur myndir af ,,glæsilegu“ fólki sem hefur tekið inn lyf og jurtaseyði sem efla, styrkja og yngja upp gamlar frumur. Og þannig mætti lengi telja.

Gamli draumurinn um ,,yngingarlyfið“ skýtur ávallt upp kollinum í ýmsum myndum. Fólk vill gjarnan lifa lengi, líta vel út og vera við góða heilsu. Þannig var það einnig meðal Vestur-Íslendinga. Káinn (KN) eða Kristján Níels Jónsson (1860 – 1936) sem fluttist 18 ára til Ameríku þótti gamansamur og glaðlyndur, orðheppinn og oft skrítinn í orðatiltækjum. Einhverju sinni hafði hann rakað af sér yfirvaraskeggið. Stúlkunum leist ekki eins vel á hann skegglausan og vildu vita hvenær hann ætlaði að láta það vaxa aftur. Káinn svaraði að bragði fremur með hagsýni að leiðarljósi en útlitið:

Ég rækta mitt skegg í tæka tíð,
því tennurnar vantar að framan;
það kemur sér illa í kulda og hríð,
ef kjafturinn nær ekki saman.

Ýmislegt bendir til þess að við þurfum stundum að spara orkuna til efri ára. Sá sem ekur bifreið mánuðum saman langar leiðir án viðhalds á vélbúnaði og öryggistækjum má búast við að vélin bræði úr sér, búnaður bili eða rafgeymir tæmist. Því betur sem hugsað er um bifreiðina þeim mun lengur endist hún. Eins er það með líkamann og hugann. Ef við vanrækjum líkamann hverfur okkur þróttur, hugurinn daprast og lífsorkan dvín.

Í starfi mínu með öldruðum um áratugaskeið finnst mér stundum þrennt einkenna þá sem lifa lengi og njóta þess að vera til: Létt lund, lítil yfirvigt og heilbrigður lífsstíll. Margir þeirra hafa tekið undir með Elbert Hubbard sem sagði: ,,Taktu lífið ekki of alvarlega, þú kemst hvort sem er ekki lifandi frá því“, þó að undantekningar séu margar.

Kona nokkur á sjötugsaldri sagði: ,,Ég þekki níræða konu, þétta á velli en létta í lund. Allir í návist hennar yngjast til muna af smitandi lífsgleði hennar.“

Með léttri lund og heilbrigðum eða hollum lífsstíl er sennilegt að við getum aukið lífsorku okkar eða haldið henni við lengur en ella. En hvað er átt við með léttri lund? Er það glens, grín og gaman? Skrýtlur og skemmtilegar sögur? Hlátrasköll og hlægilegar uppákomur? Eða jafnaðargeð með góðu skopskyni? Lundarfar sem gerir sér ekki rellur út af smámunum? Hefur sá létta lund sem reynir að horfa á jákvæðu hliðar tilverunnar en verður ekki starsýnt á þær dökku? Ef til vill er létt lund sambland af þessu öllu. Starfandi er klúbbur í Kópavogi á vegum Hana-nú frístundahópsins þar sem fólk kemur saman reglulega til að segja skrýtlur og skemmtilegar sögur til að létta lundina. Hláturinn lengir lífið og styrkir ónæmiskerfið. Frábær hugmynd og snjöll framkvæmd.

En stundum er lífið erfitt, jafnvel um langan tíma, það þekkja allir. Enginn getur alltaf verið glaður.Þegar við erum að missa móðinn er mikilvægt að eiga góða að sem við getum leitað til og trúað fyrir áhyggjum og erfiðleikum.

Hvað er heilbrigður lífsstíll? Allir eru sammála um að gott heilsufar skipti unga jafnt sem aldraða miklu máli. Á námskeiðum um starfslok er fólk yfirleitt sammála um að góð heilsa sé forsenda þess að við getum notið lífsins þó ekki sé það skilyrði. Menn fara ýmsar leiðir til að ná góðri heilsu og viðhalda henni. Á þessu sviði sem öðru skipti mestu að hver finni sinn eigin farveg sem henti vel á hverjum tíma miðað við aðstæður.

Heilbrigður lífsstíll felst í lífsháttum sem við teljum okkur vera fyrir bestu. Lífsmáta sem stuðlar að farsæld okkar, ánægju og heill til líkama og sálar.

Stundum er sagt að við getum þekkt samferðamenn okkar á viðhorfum þeirra til framtíðar, hvers konar heim þeir vilja skapa. Víst er að fortíðin skiptir miklu máli, hefur áhrif á líf okkar, fylgir okkur fram á efri ár og er stundum eins og örlagavaldur á vegferð okkar. En maðurinn og persónuleiki hans mótast ekki einungis af því sem liðið er. Líf hans mótast einnig af framtíðarsýn hans, lífsgildum og þeim markmiðum sem hann setur sér. Manninum er gefið í vöggugjöf að geta horft til framtíðar, að eiga sér drauma og hugsjónir, eiga eitthvað til að lifa fyrir og stefna að. Hann styrkist oft og eflist við áskorun, ögranir og erfið verkefni. Þennan eiginleika getum við ræktað til hinstu stundar.

Markmið um framtíðina og leiðir sem við förum til að ná þeim skipta miklu máli um líf okkar og lund. Örlög geta verið ögrun til dáða, hvatning til að glíma við verkefni og leysa þau. Oft virðast þeir hæfastir til að mæta breytingum og vanda í lífinu sem líta á erfiðar aðstæður sem ögrun til dáða og góðra verka en ekki sem byrði sem veldur gleðisnauðu lífi.

Þess vegna er aldrei of seint að horfa fram á veginn, hversu gömul sem við verðum, leggja línur með bjarta, raunsæja von um góða framtíð, þar sem við sníðum okkur stakk eftir vexti með jákvæðu hugarfari.

Vefsett júlí 2003