Lífsleikni og forvarnir

Lífsleikni er ný skyldunámsgrein í íslenska skólakerfinu. Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla á nám í lífsleikni að snúast um sjálfsþekkingu og þroska sérhvers nemanda. Samfélag okkar er sífellt að verða flóknara og áreitin, sem dynja á unga fólkinu, eru mörg og áleitin. Því er mikilvægt, að nemendur læri það snemma á lífsleiðinni, að þeir hafa val og að þeir eru að miklu leyti ábyrgir fyrir eigin heilsu og líðan. Á hinn bóginn er það á ábyrgð foreldra og skólakerfisins að upplýsa og fræða nemendur svo þeir séu í stakk búnir til þess að mæta þessu vali.

Nú á haustdögum kom út námsefni í lífsleikni fyrir grunnskóla sem nefnist ÉG ER ÞAÐ SEM ÉG VEL. Þetta eru þemaverkefni sem unnin eru út frá markmiðum námsgreinarinnar og miða þau að því að aðstoða nemendur við að velja sér ábyrgan lífsstíl, sem byggður er á þekkingu. Námsefninu er þannig ætlað að hafa mikið forvarnargildi. Námsefnið var unnið í samráði við Námsgagnastofnum og Manneldisráð en auk þess kom KHÍ, Beinvernd og Tannheilsudeild Heilbrigðismálaráðuneytisins að efninu.

Beinvernd kom að gerð námsþátta í 4., 6. og 9. bekk. Þar eru námstillögur og verkefni, sem nemendur glíma við með aðstoð kennarans. Námstillögurnar fyrir 4. bekk byggjast á því, að nemendur kynnist því að mannslíkaminn hafi bein og þau gegna ákveðnu hlutverki. Einnig, að nauðsynlegt sé að hugsa vel um beinin og heilsuna almennt og átta sig á því, hvað er hollt og hvað er óhollt fyrir beinin.

Í 6. bekk eru námstillögurnar tengdar líffræðiefninu, sem kennt er í þeim árgangi, þ.e. að nemendur kynnist beinunum, líkamanum og uppbyggingu þeirra, átti sig á hlutverki beinanna og hvernig við byggjum upp og verndum beinin.

Í 9. bekk eru námstillögurnar þær, að nemendur rifji upp að beinin eru lifandi vefur, sem er í stöðugri endurnýjun og að þeir átti sig á mikilvægi þess að hugsa vel um beinin. Nemendur læra um beinþynningu og afleiðingar hennar, sem eru beinbrotin, og kynnast helstu áhættuþáttum og forvörnum gegn beinþynningu. Að auki læra nemendur um þjálfunarlögmál og þungaberandi líkamsæfingar.

Það er von Beinverndar að þetta námsefni stuðli að því að nemendur velji sér skynsamlega lífshætti og að það sé góð forvörn gegn hinum þögla an alvarlega sjúkdómi beinþynningu.

Heimildir:
ÉG ER ÞAÐ SEM ÉG VEL, Námsgagnastofnun, Reykjavík, 2001.

Vefur Beinverndar