Lífið og ég – sjálfsmyndarstyrking unglinga

Geðrækt og Jafningjafræðslan hófu samstarf síðastliðinn vetur um að styrkja sjálfsmynd unglinga. Innan Geðræktar er mikill áhugi á sjálfsmyndarstyrkingu þar sem slæm sjálfsmynd hefur háa fylgni við geðheilsuvandamál eins og kvíða og þunglyndi. Leiðbeinendur Jafningjafræðslunnar urðu varir við það síðasta sumar að unglingar voru ekki vel að sér um það hvernig þeir gætu styrkt sjálfsmynd sína og því var ákveðið að vinna saman að þessu málefni.

Í vetur hefur hópur unnið að undirbúningi fræðslu fyrir unglinga og nú í sumar munu Geðrækt og Jafningjafræðslan standa saman að fræðslu fyrir 15 ára unglinga sem eru í Vinnuskóla Reykjavíkur og fleiri, en hún nefnist „Lífið og ég”. Leiðbeinendur Jafningjafræðslunnar munu taka á móti yfir þúsund unglingum í sumar og kemur fyrsti hópurinn 18. júní. Í þessari fræðslu munu unglingarnir komast að því hverjar afleiðingarnar geta verið af slæmri sjálfsmynd og hvað þeir geti gert til að styrkja eigin sjálfsmynd og stuðlað þannig að bjartari framtíð.

Sterk áhersla er lögð á það að nálgast unglingana út frá þeirra forsendum og því var byrjað á því að hitta nokkra unglingahópa og fá þeirra hugmyndir um sjálfsmynd og hvernig þeir töldu að hægt væri að styrkja hana hjá unglingum. Fjölbreyttur hópur af ungu fólki með ólíka reynslu myndaðist, en þau áttu það sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á að styrkja sjálfsmynd unglinga í dag. Meginmarkmið samstarfsins var að finna jákvæðar leiðir til að styrkja sjálfsmynd unglinga á aldrinum 13-18 ára og stuðla þannig að betri líðan þeirra í framtíðinni. Sterk sjálfsmynd er eitt besta veganesti sem unglingar geta fengið út í lífið þar sem hún eykur líkurnar á velgengni og vellíðan. Með því að styrkja sjálfsmyndina er því unnið að forvörnum gegn óábyrgri áfengisneyslu, vímuefnaneyslu, ótímabæru brottfalli úr skóla, ofbeldi, óábyrgu kynlífi, geðheilsubrestum s.s. þunglyndi og átröskunum, sjálfsvígum o.s.frv.

Samstarfshópurinn fékk styrk frá Evrópusambandinu til að vinna að fræðsluefni fyrir unglinga. Verið er að vinna að ýmisskonar efni um sjálfsmynd sem gefið verður út í sumar. Þetta efni var unnið upp úr ýmsum rannsóknum á sjálfsmynd bæði íslenskum og erlendum og þar er skoðað hvaða atriði hafa áhrif á sjálfsmynd og hvaða áhrif sjálfsmynd hefur á ýmsa þætti í lífi unglinga. Allt efnið verður að finna á undirsíðu Geðræktar, sjalfsmynd.is sem opnuð verður seinna í sumar. Á þessari síðu verður að finna ýmsan fróðleik um sjálfsmynd, sjálfsmyndarpróf og góð ráð um það hvernig bæta megi sjálfsmyndina. Til að vinna enn frekar að sjálfsmynd unglinga er Geðrækt komin í samvinnu við Landlæknisembættið, Heilsugæsluna, forvarnarfulltrúa skólanna og fleiri en það átak er í fullum undirbúningi og mun hefjast næsta haust.

Í þessari fræðslu verður einnig lögð áhersla á að unglingarnir standa frammi fyrir ýmisskonar vali í gegnum allt lífið. Þeirra er valið og það er þeirra að taka afleiðingunum af sínu vali. Eitt af því snýst um það hvernig tekið er á erfiðleikum en sýnt hefur verið fram á það að helsti munurinn á þeim sem eru hamingjusamir og þeim sem eru það ekki er einmitt hvernig þeir takast á við erfiðleikana í lífinu. Í grófum dráttum má segja að þeir sem trúa því að þeir séu fórnarlömb örlaganna og geti ekkert gert til að láta sér líða betur nái ekki að vinna sig úr erfiðleikunum meðan þeir sem líta á erfiðleika sem eitthvað til að sigrast á, takast á við vandamál sín og standa uppi sterkari en áður.

Hægt er að vinna að forvörnum með hræðsluáróðri um ýmsar hættur sem geta haft hræðilegar afleiðingar. Með því er verið að velta sér upp úr því neikvæða til að reyna að koma í veg fyrir það. Geðrækt hefur í sinni fræðslu lagt mikla áherslu á að einblína á hið jákvæða og hvernig megi efla það. Eftir slíka fræðslu er einstaklingurinn með hugann við allt það jákvæða í stað þess neikvæða. Með því að styrkja sjálfsmyndina er höfðað til allra (ekki bara ákveðins áhættuhóps), að þeir læri að þekkja sjálfa sig, „hver er ég, hvað vil ég og hvað get ég” og að þeir læri að meta sína jákvæðu eiginleika og styrkja þá.

Vefur Geðræktar er ged.is