Lifðu lífinu reyklaus, námskeið gegn reykingum

Markmið:

Meginmarkmið námskeiðanna í Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði er að þátttakendum takist að hætta að reykja fyrir fullt og allt. Á námskeiðunum fer fram margþætt fræðsla, umræður og hvatning þar sem þátttakendum er hjálpað við að komast yfir fráhvarfseinkennin og vinna að reykleysi til frambúðar.

Markhópur:

Allir sem vilja aðstoð við að hætta að reykja geta sótt námskeið HNLFÍ. Miðað er við við að 10 manns séu í hverjum hópi og hafa þátttakendur verið á aldrinum 23 til 70 ára. Mjög góður árangur hefur náðst hjá stórreykingafólki sem reykt hefur lengi.

Hvar/hvenær:

Um er að ræða vikudvöl í Heilsustofnun og eftirlit í eitt ár. Námskeiðið tekur 7 daga, frá sunnudegi til sunnudags. Gert er ráð fyrir því að þátttakendur mæti í Heilsustofnun um kl. 16 á sunnudegi. Námskeiðið hefst á mánudagsmorgni með kynningarfundi og er þá gert ráð fyrir því að viðkomandi hafi slökkt í sinni síðustu sígarettu og reykingar eru ekki leyfðar meðan á námskeiði stendur eins og gefur að skilja.

Árangur:

Námskeið gegn reykingum hafa verið haldin með skipulegum hætti í HNLFÍ frá vorinu 1996 og hafa u.þ.b. 450 manns tekið þátt í námskeiðunum til þessa.

Könnun sem gerð var árið 2000 sýnir að 36% þátttakenda voru enn reyklausir eftir árið, sem telst góð niðurstaða þar sem kannanir á öðrum námskeiðum sýna um 30% árangur!!

Ný könnun verður gerð á vegum HNLFÍ á árinu 2002 og verður sú könnun enn nákvæmari en sú fyrri.

Kostnaður:

Hver þátttakandi greiðir 42.000 kr. fyrir námskeiðið. Innifalið í verði námskeiðsins er gisting í eins manns herbergi með sturtu og wc og fullu fæði.

Uppbygging námskeiðs:

Vikan er skipulögð samkvæmt dagskrá, sem ýmsir koma að svo sem læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, sjúkraþjálfarar, íþróttakennari og næringarfræðingur. Meðferðin byggist á andlegri, líkamlegri og félagslegri uppbyggingu. Á hverjum degi er margþætt hreyfiþjálfun, þol og þrekþjálfun og slökun þess á milli. Dagskráin hefst með morgunfundi og stund til íhugunar síðan rekur hvað annað svo sem vatnsleikfimi, leikfimi, gönguferðir, fræðsla, umræður, slökun og hvíld. Dagskránni lýkur svo með samverustund eftir kvöldverð. Þá er farið yfir atburði dagsins, skipst á skoðunum og næsti dagur undirbúinn.

-Um leið og tekist er á við reykleysið er áhersla lögð á að kenna fólki að breyta lífsstíl með heilsurækt og hugarþjálfun. Segja má að námskeiðið sé sýnishorn af heilbrigðum lífsháttum þar sem þátttakendum er m.a. kennt að fylla upp í þann tíma sem fór í reykingar með heilsurækt og hugarþjálfun.

Fræðsla og umræður:

Fræðsla er um ýmis efni sem tengjast reykingum. Þar má nefna fræðslu um fráhvarf- og fráhvarfseinkenni, ávana- og fíkniefnaáráttu, gildi þjálfunar, mataræði, lífsstílbreytingar, að takast á við reyklausa framtíð og heilbrigt líferni. Í lok námskeiðsins gerir hver og einn einkaáætlum um heilbrigðan lífsstíl þegar heim er komið og að lifa samkvæmt einkunnuarorðunm „Berum ábyrgð á eigin heilsu“.

Eftirfylgd:

Boðið er upp á eftirlit í eitt ár eftir námskeið en reynslan sýnir að þeir sem fá stuðning eiga auðveldara með að standa við reykbindindið. Hringt er í þátttakendur mánuði eftir námskeið og síðan annað slagið allt árið til að veita þeim stuðning og hvatningu.

Einnig er boðið upp á endurkomu og eru eftirkomudagar ársins 2002 laugardagarnir 12. janúar, 9. febrúar, 16. mars og 11. maí Mæting á endurkomudögum er kl. 11 og er dvalið til kl. 13.

Byrjað er á fundi með lækni eða verkefnisstjóra og hádegisverði í boði Heilsustofnunar. Hægt er að fara í göngutúr eða í sundlaugina. Göngudeildin er opin þessa daga og geta þeir sem vilja farið t.d. í nudd eða leirbað, en þá þjónustu þarf að panta fyrirfram og greiða sérstaklega.

Símatímar eru alla miðvikudaga frá 13-13:30 í síma 483 0347 þar sem hægt er að fá stuðning og ráðleggingar. Á öðrum tímum er hægt að skilja eftir skilaboð á símsvaranum.

Nánari upplýsingar á vef Heilsustofnunnar NLFÍ, hnlfi.is