Lifðu lengur – lifðu betur

 

Sykursýki er vaxandi vandamál

Með auknum fjölda fólks sem er of þungur vex fjöldi þeirra sem fá sykursýki af gerð 2. Árið 1985 var áætlað að í heiminum væru 30 milljónir manna með sykursýki. Árið 1995 var talan komin í 135 milljónir og árið 2000 í 177 milljónir. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin áætlar að árið 2025 verði fjöldi fólks með sykursýki orðinn 300 milljónir. Sykursýki af gerð 2 á eftir að verða þjóðfélaginu dýr baggi, en það sem er enn verra er að hún hefur í för með sér aðra sjúkdóma og að fólk deyr fyrir aldur fram.

Forvarnir

Besta leiðin til að koma í veg fyrir að þessi spá rætist eru forvarnir, bæði til að fækka þeim sem fá sykursýki og koma í veg fyrir fylgikvilla sjúkdómsins. Ráðin eru í sjálfu sér einföld:

· Haltu þyngdinni í skefjum.

· Hreyfðu þig reglulega.

· Borðaðu fjölbreyttan og hollan mat í hófi.

Einkenni

Einkenni sykursýki af gerð 2 geta verið lúmsk. Helstu einkennin eru:

· Þorsti

· Tíð þvaglát

· Sjóntruflanir

· Kláði í nára eða fótum

· Þreyta

Hafðu samand við lækninn þinn ef þú hefur þessi einkenni og láttu mæla blóðsykurinn.

Góð ráð fyrir sykursjúka

Fyrir þá sem þjást af sykursýki af gerð 2 er mikilvægt að hafa eftirfarandi ráð í huga:

· Margir eru of þungir og verða að grenna sig – hugsanlega þarf þá ekki lyf.

· Hollur matur – lítil fita, grófmeti, grænmeti, forðast sykur og borða 5-6 máltíðir á dag.

· Ekkert tóbak og áfengi í hófi.

· Fylgjast með blóðþrýstingnum og blóðfitunni.

· Hreyfa sig í að minnsta kosti hálftíma á dag.

· Reglulegt eftirlit hjá lækninum þínum.

· Vegna hættu á blóðrásartruflunum þarf að passa fæturna vel.

Fræðsluefni Samtaka sykursjúkra

Samtök sykursjúkra standa nú fyrir fræðsluherferð í því augnamiði að vekja athygli fólks á því hvernig draga megi úr hættu á að fá sykursýki af gerð 2 og minnka lýkur á fylgikvillum sjúkdómsins. Samtökin hafa gefið út fræðsluefni fyrir almenning og heilbrigðistarfsfólk sem nálgast má á heilsugæslustöðvum, apótekum og hjá Samtökum sykursjúkra.

09/02/2003
Anna Björg Aradóttir hjúkrunarfræðingur

Frá Landlæknisembættinu