Leikskólar og sýkingar

Þegar barnið fer í leikskóla eftir að hafa verið heima við frá fæðingu, er næsta víst að það fer að fá endurteknar kvefsýkingar og aðrar pestir. Þetta er eðlilegt þar sem barnið kynnist nýjum veirum og bakteríum við að fara á nýjan stað. En það er hægt að minnka hættuna á sýkingum með einföldum ráðum.

Okkur þykir öllum vænt um börnin okkar og gerum það sem við getum til að þau verði hraust og komist vel áfram í lífinu. Í því felst að við önnumst þaumeðan þau eru ósjálfbjarga, gætum þeirra og ölum þau upp þar til þau ná fullum þroska. Allt fram á síðustu áratugi hafa þau börn sem hafa átt þess kost dvalið heima hjá sér þar til þau fara í skóla við 6 eða 7 ára aldur.

Uppeldi og umönnun var í höndum foreldra og/eða ömmu og afa. Börnin léku sérvið vini sína, yfirleitt 2 eða 3 saman (nema í hópleikjum). Á forskólaaldri voru þau sjaldan saman í stórum barnahópum nema í afmælisveislum. Á síðustu árum hafa orðið umtalsverðar þjóðfélags- breytingar sem hafa gjörbreytt þessum aðstæðum. Á Íslandi hófust þessar breytingar varla að ráði fyrr en eftir síðari heimsstyrjöldina, en þær hafa verið mjög hraðar síðustu 2–3 áratugina. Þær þjóðfélagsbreytingar sem lúta að uppeldi barna okkar eru mest tengdar fjölskylduhögum. Aukið framboð á atvinnu samfara vaxandi jafnræði kynjanna gerir það að verkum að flestar konur vinna nú utan heimilis. Á sama tíma hefur hlutfallsleg fjölgun karla sem vinna innan heimilisins orðið margfalt minni. Fyrir margar fjölskyldur er jafnframt nauðsynlegt að báðir foreldrar vinni utan heimilis til að tekjurnar dugi fyrir framfærslu hennar.

Einstæðir foreldrar eiga sjaldnast annarra kosta völ en að vinna utan heimilis. Þessar breytingar hefðu ekki verið mögulegar nema einhver tæki að sér að hugsa um þá sem hafa ekki þroska eða getu til að sjá um sig sjálfir, þ.e. börn og gamalmenni. Leikskólar og dagmæður hafa í vaxandi mæli tekið að sér umönnun barnanna. Á síðasta ári voru hvorki meira né minna en 90,3% reykvískra barna á aldrinum 2ja til 6 ára í dagvistun. Flest börn eru í dagvistun á aldrinum 3–5 ára. Þessi börn eru mest á leikskólum borgarinnar (80%), en einnig á einkareknum leikskólum (14%) og hjá dagmæðrum(6%). Þessi breyting hefur verið mjög hröð. Á árinu 1940 voru aðeins 317 börn á öllu landinu í dagvistun (rúm 2%), en árið 1990 vour þau orðin 11.300 (yfir 50%).

Á aðeins liðlega hálfri öld hefur dagvistun barna (í hópum) því aukist úr rúmum 2% í rúm 80%. Eðlilegt er að við veltum því fyrir okkur hvaða áhrifþetta hefur á börnin okkar. Hægt er að líta á áhrifin frá mörgum sjónarhornum, en ég ætla að gera sýkingar að sérstöku umtalsefni.

Faraldsfræði sýkinga

Þær sýkingar, sem eru algengastar hjá börnum á Vesturlöndum, berast á milli einstaklinga beint eða óbeint með snertingu eða úðasmiti. Nálægð við smitaða einstaklinga og snerting við þá auka þess vegna mjög möguleikana á smiti.

Það er vel þekkt staðreynd að sýkingar eru algengari á veturna en sumrin, og hefur það verið skýrt með því að þá dvelja fleiri innandyra og aukast þar með líkur á nálægð og snertingu. Það, að safna börnum saman í stóra hópa ístað þess að hafa þau heima með systkinum sínum, eykur því verulega líkur á smiti. Dagvistun í stórum hópum eins og á leikskólum auðveldar útbreiðsluákveðinna sýkla. Fjölmargar nýlegar rannsóknir styðja þessar kenningar.

Sýkingar á leikskólum

Langalgengustu sýkingarnar, sem hrjá börnin okkar, eru svokallaðaröndunarfærasýkingar. Dæmi eru kvef, eyrnabólga, hálsbólga, skútabólga og lungnabólga. Þessar sýkingar geta breiðst út með úðasmiti og beinni eða óbeinni snertingu. Veirur valda kvefi og vel þekktum einkennum, sem oftast eru það væg að viðkomandi þarf ekki að vera rúmliggjandi á meðan. Sýktir einstaklingar fara því áfram í vinnuna, börnin í leikskóla og eru um leið virkir smitberar. Kvef er mun algengara hjá börnum sem sækja leikskóla en hjá öðrum börnum. Leikskólastjóri nokkur komst þannig að orði að eftir að börn byrjuðu á leikskóla væru þau með hor í nös meira eða minna fyrstu tvö árin. Eyrnabólga er ein af algengustu ástæðum þess að börn fara til læknis og langalgengasta ástæða sýklalyfjagjafar. Eyrnabólga veldur gjarnan hita og eyrnaverk sem oft leiðir til andvökunátta bæði fyrir börnin og foreldra þeirra. Eyrnabólgur byrja gjarnan með kvefi, en í kjölfarið komast bakteríur sem eiga heimkynni í nefkokinu (pneumókokkar o.fl.) um kokhlustina inn í miðeyrað. Þar valda þær sýkingu, sem getur leitt til hita og graftarmyndunar sem þrýstir á hljóðhimnuna og veldur eyrnaverk. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt, að eyrnabólgur eru algengari hjá börnum á leikskólum en öðrum börnum,og jafnframt að meðferð eyrnabólgu getur verið erfiðari hjá börnum sem eru á leikskóla (svara síður meðferð og fá oftar endursýkingu). Þetta stafar líklega af því að eyrnabólguvaldandi bakteríur eru oftar til staðar í nefkoki barna á leikskólum, svo og að þær eru oftar ónæmar fyrir sýklalyfjum. Aðrar sýkingar, sem eru taldar algengari hjá börnum á leikskólum, eru iðrakveisur af völdum veira. Þær smitast einkum með beinni eða óbeinni snertingu um munn (t.d. með menguðum matvælum eða með því að setja mengaðar hendur eða hluti í munninn). Þessar kveisur valda einkum uppköstum og/eða niðurgangi og ganga yfir á tiltölulega skömmum tíma.

  • Sýklalyfjaónæmi

Vaxandi sýklalyfjaónæmi í þeirri bakteríu sem oftast veldur eyrnabólgu(pneumókokkum) er sennilega ein af meginástæðum fyrir auknum áhuga áfaraldsfræði smitsjúkdóma á leikskólum. Á Íslandi jókst hlutfall pneumókokka, ónæmum fyrir helstu sýklalyfjum, úr 0% árið 1989 upp í 20% árið 1993. Talið var að þessa hröðu aukningu mætti helst rekja til mikillar sýklalyfja- notkunar barna á leikskólaaldri og þess að flest börnin voru áleikskólum (sem auðveldar dreifingu bakteríanna). Svipaða sögu má segja frá flestum ríkjum heims. Vaxandi ónæmi eyrnabólgubaktería leiðir til þess að eyrnabólgur svara síður sýklalyfjameðferð, sem kallar á fleiri meðferðarkúra með nýrri og breiðvirkari sýklalyfjum. Þetta kallar síðan á enn aukið ónæmi og vítahringurinn heldur áfram. Mikilvægt er að rjúfa slíkan vítahring, með því að draga úr líkum á smiti og draga úr ónauðsynlegri sýklalyfjanotkun. Á Íslandi tókst að draga verulega úr sýklalyfjanotkun hjá börnum á árunum 1992til 1995. Í kjölfarið hefur sýkingum með ónæmum eyrnabólgubakteríum fækkað.

Hvað er til ráða?

Ljóst er að ekki er auðvelt að breyta dagvistunarformi barna á skömmum tíma og ekki víst að það væri ákjósanlegt miðað við núverandi aðstæður. Því miður skortir enn talsvert á rannsóknir á því hvaða leiðir henta best til að draga úr sýkingum á leikskólum. Þótt rannsóknir séu af skornum skammti á þessu sviði, er þó talið líklegt að draga megi úr sýkingum með bættum sýkingavörnum og úr ónæmi með því að draga úr ónauðsynlegri sýklalyfjanotkun. Sýkingavarnir gætu m.a. falist í tíðari handþvotti (og/eða notkun á handspritti), notkun einnota bréfþurrka við að snýta börnum og aðauka það rými sem hvert barn hefur á leikskólunum. Jafnvel mætti hugsa sér að minnka beina snertingu milli barna í mismunandi hópum á leikskólunum. Óvíst er þó hvað slíkar aðgerðir yrðu árangursríkar. Þá verður að sjálfsögðu einnig að hafa í huga nauðsyn barna að leika sér í hóp og þroskast félagslega. Líklegt er að hafa megi áhrif á sýkingartíðni með því að fækka komum smitandi barna á leikskólana. Foreldrar þrýsta gjarnan á að leikskólar taki við börnum, sem hafa ekki jafnað sig til fulls á sýkingum, svo þau komist aftur til vinnu. Til að hægt sé að fækka komum smitandi barna á leikskóla gæti reynst nauðsynlegt að lengja veikindaorlof foreldra vegna veikra barna. Mikilvægt er að draga úr þarflausri sýklalyfjanotkun. Aldrei skyldi nota sýklalyf við kvefi. Sýklalyf á aðeins að gefa við hálsbólgu þegar sýnt hefurverið fram á að hún er af völdum baktería. Sýklalyf eru ofnotuð við eyrnabólgum og skútabólgum. Flestar eyrnabólgur og skútabólgur læknast af sjálfu sér, en ekki allar. Læknar þurfa að vanda til greiningar eyrna- og skútabólgna og meta þörf á sýklalyfjameðferð í hverju tilfelli. Það er þekkt, að því yngri sem börn eru þegar þau fá sína fyrstu eyrnabólgu, þeim mun líklegri eru þau til að fá fleiri eyrnabólgur síðar. Þar sem meiri líkur eru á því að börn fái eyrnabólgur á leikskólum, felst mikil forvörn í því að draga eins og hægt er að senda börn á leikskóla. Þróunin á Íslandi hefur þó verið allt önnur. Ef við viljum snúa þessari þróun við, þarf að gera börnunum kleift að vera lengur heima hjá sér. Það krefst þess að annað foreldrið verði lengur frá vinnu, en til þess þarf lengra fæðingarorlof. Það er fræðilegur möguleiki að lenging fæðingarorlofs sé hagkvæm fyrir þjóðfélagið. Mikilvægt væri að kanna áhrif slíkra breytinga á sýkingatíðni og kostnað. Foreldrar, heilbrigðis-, borgar- og bæjaryfirvöld þurfa að gera sér grein fyrir ofangreindri þróun. Jafnframt eru frekari rannsóknir á gagnsemi íhlutandi aðgerða nauðsynlegar. Þegar búið er að tæma biðlista eftir leikskólaplássum kann vandinn að vera orðinn enn meiri. Það er börnum,foreldrum og þjóðfélaginu mikilvægt að dagvistunarmöguleikar séu góðir. Hins vegar er nauðsynlegt að geta brugðist skynsamlega við nýjum vandamálum samfara aukinni dagvistun. Forvarnir gegn sýkingum ættu að skipa þar veigamikinn sess.

Heimildir:

Hagskinna. Sögulegar hagtölur um Ísland.
Ritstjórar Guðmundur Jónsson og Magnús S. Magnússon.
Hagstofa Íslands, Reykjavík, 1997.
Landshagir, Hagskýrslur Íslands III, 47. Hagstofa Íslands, Reykjavík, 1997.
Ársskýrsla Dagvistar barna. Leikskólar Reykjavíkur, Reykjavík, 1999.
Kristinsson KG, Axelsson A, Guðnason Þ. Vítahringur á leikskólum. Fréttabréf lækna, 1993;11(No 3):18–19.
Kristinsson KG. Faraldsfræði penisillín ónæmra pneumókokka.
Læknablaðið, 1996;82:9–19.
Kristinsson KG, Guðnason Þ, Sigfússon E.
Þróun sýklalyfjaónæmis og sýklalyfjanotkunar á Íslandi. Þörf á áframhaldandi aðhaldi.
Læknablaðið, 1997;83:46–47.

Pistillinn birtist áður í tímaritinu Uppeldi.