Leiðin að bættri líðan

 

Heilbrigður á margar óskir – sjúkur aðeins eina.
Frá Indlandi.

 

Leit mannsins að betra lífi hófst að öllum líkindum með fyrsta manninum. Allar götur síðan hefur hann leitast við að finna leiðir til að láta sér líða betur enda sjálfsagt í eðli hans. Leiðirnar eru margar en oft virðist vera erfitt að finna þá réttu.

 

Heilsa

 

Fátt er manninum dýrmætara en góð heilsa. Þeir sem tapa henni eru fljótir að samþykkja það enda þráir sjúkur maður bara það eitt að fá heilsuna aftur. Kílóin fimm sem eru umfram á líkamanum eða hæðin er ekki sú rétta verður ósköp lítilfjörlegt vandamál þegar heilsan hefur tapast eða henni hrakað. Það er ekki nóg að vera með ,,ágætis heilsu“ í merkingunni að þjást ekki af alvarlegum sjúkdómi. Margir eru ekki veikir í sjálfu sér en þurfa að glíma við vandamál eins og þreytu, stöðuga verki eða of mikla streitu eða depurð.

 

Heilsuleysi

 

Flest okkar eru svo heppin að geta farið í gegnum lífið án þess að verða fyrir alvarlegum áföllum en öll lendum við einhvern tímann í því á lífsleiðinni að líðanin gæti verið betri. Það koma tímabil í lífi fólks sem einkennast af vandamálum eins og svefnleysi, þreytu eða streitu með afleiðingum eins og höfuðverkjum, síþreytu, vöðvaverkjum, bakverkjum, vöðvabólgu eða liðverkjum svo eitthvað sé nefnt.

Ástæðurnar fyrir þessu geta verið jafn margar og mennirnir eru margir. Nefna má þó nokkur tímabil sem margir ganga í gegnum eins og að vaka yfir ungabörnum. Unglingsárin geta verið mörgum erfið með mismunandi afleiðingum. Eins er með breytingaskeið kvenna en það getur haft gífurleg áhrif á almenna líðan þeirra, en margar þjást af þreytu, pirringi, svitaköstum, grátköstum og líkamlegum verkjum. Þegar efri árin taka við má gera ráð fyrir að ýmsir kvillar láti á sér kræla enda er það svo að margir af eldri kynslóðinni telja að það sé eðlilegur fylgikvilli þess að eldast að þjást af verkjum og oft almennri vanlíðan. Mikils vinnuálags er oft krafist af fullorðnu fólki – það vinnur langan vinnudag á sama tíma og verið er að ala upp börn, koma sér upp þaki yfir höfuðið og síðan er það krafan um að taka þátt í því sem lífið hefur upp á að bjóða. Oft á tíðum lendir fólk í vítahring vegna þessa með afleiðingum eins og stöðugri þreytu, verkjum og vanlíðan. Aðrir lenda í erfiðari aðstæðum og veikjast af alvarlegri sjúkdómum sem þeir þurfa að kljást við og afleiðingum þeirra.

 

 

Hvað er til ráða?

 

Það er margt sem við getum gert svo okkur líði vel eða betur þegar það á við. Hér eins og í flestu eru það margir þættir sem þurfa að vera í lagi svo hægt sé að segja með góðri samvisku: ,,Mér líður vel.“

Mikilvægt er að vinna forvarnarstarf og búa í haginn fyrir framtíðina. Best er þó þegar fólk tekur ábyrgð á eigin lífi og vinnur markvisst að því að rækta og hlúa að andlega og líkamlega þættinum.

Þegar eitthvað bjátar á er nauðsynlegt að hlusta á eigin líkama því að þegar heilsan er ekki upp á það besta og verkir og veikindi hrjá þarf að bregðast strax við. Ekki bíða of lengi því að það er ekki þess virði. Hver og einn þarf að skoða hvað er í boði á hverjum tíma, velta því fyrir sér hvað henti best, fikra sig áfram og velja síðan það sem honum líkar við. Við eigum alltaf að nýta okkur það sem er í boði hverju sinni, hvort sem það er heimsókn til heimilislækna, sérfræðinga, notkun lyfja, bætiefna eða jurta. Leita til þeirra sem bjóða upp á heildrænar meðferðir, stunda hreyfingu, útiveru og síðast en ekki síst að huga að mataræðinu. Stundum er nóg að gera eitthvað eitt en í öðrum tilfellum þarf að blanda saman ýmsum meðferðarformum, lyfjum og bætiefnum. Flestir hafa reyndar gott af því að auka útiveru og hreyfingu svo og að borða hollan og góðan mat. Nauðsynlegt er að leita markvisst að leiðum til að bæta heilsuna, vera vakandi yfir árangri og leita nýrra leiða ef þörf er á. Ekki gefast upp.

 

Hvar er á að leita?

 

Þær eru margar leiðirnar sem hægt er að fara í leitinni að bættri líðan. Bækur hafa verið skrifaðar um heilsuna með það að markmiði að hjálpa lesandanum að bæta líðan sína – flestar eru eftir erlenda höfunda og miðast þá oft við erlendar aðstæður. Einnig hafa verið skrifaðar bækur um sem fjalla um einangraða sjúkdóma.

Þeir sem hafa aðgang að veraldarvefnum geta fundið mikið magn upplýsinga um bætiefni, jurtir, heildrænar meðferðir og ýmsar leiðir til að bæta líðan sína.

Oft eru haldnir góðir fyrirlestrar um heilsumál og ákveðna sjúkdóma og eru þeir þá gjarnan haldnir af félögum eins og Gigtarfélaginu, Mígrenisamtökunum eða Krabbameinsfélaginu. Ég hvet fólk eindregið til að sækja þá fyrirlestra. NLFÍ í Hveragerði er með góð námskeið sem stuðla að bættri líðan og hefur fagfólk á sínum snærum sem hefur hjálpað mörgum.

 

Mín saga

 

Mín saga er í sjálfu sér ekkert öðruvísi en saga annarra fyrir utan það að vera mín saga. Ég var svo lánsöm að veikjast af vefjagigt. Þetta hljómar kannski kaldhæðnislega en þannig er það ekki meint. Mín gæfa felst í því að hafa veikst af sjúkdómi sem ég gat haft einhver áhrif á en ekki einhverjum sjúkdómi sem tók af mér völdin og leiddi til óbærilegs lífs eða dauða.

Ég veiktist ekki allt í einu heldur var þetta nokkurra ára þróun sem náði hámarki árið sem ég varð 35 ára gömul. Þegar ég var sem allra verst missti ég talið í þeim skilningi að ég átti erfitt með að finna réttu orðin, sagði röng orð, var lengi að tala og það að halda uppi samræðum var oft á tíðum kvalræði. Ég var auðvitað undirlögð af verkjum, gat ekki hreyft mig og lá því í rúminu dögum og vikum saman. Mér gekk afspyrnu illa að inna einföldustu verk af hendi eins og að greiða mér, klæða mig og ég tala nú ekki um að sinna ungum börnunum mínum tveimur. Þetta kom því allt í hlut mannsins míns. Afleiðingin var sú að ég get eiginlega sagt að á þessum tíma hafi ég nánast gefist upp. Mér fannst þessi veikindi buga mig og eina sem kom í veg fyrir að ég henti mér í höfnina var að ég gat hvorki keyrt né gengið þangað.

Þegar svo illa var komið sögu tók ég góða ákvörðun að nýta mér þessi veikindi og þessa reynslu til góðs. Þá hófst leit mín að leiðinni að bættri líðan. Næstu árin voru ár erfiðleika og vonleysis, ár vonbrigða en einnig sigra. Smám saman en þó óskaplega hægt fór mér að líða betur. Framfarirnar urðu sýnilegri og köstin urðu vægari og stóðu styttra yfir.

Á þessu tímabili safnaði ég saman miklu magni upplýsinga sem höfðu nýst mér til góðs svo og upplýsingum sem nýttust mér ekki neitt. Þessu hélt ég til haga. Ég hefði gjarnan vilja hafa hjálparrit við höndina á þessu tímabili með aðgengilegum upplýsingum um það sem gæti nýst manninum í leit hans að betra lífi. Leit mín hefði þá hugsanlega verið auðveldari og staðið styttra yfir. Þegar ég upplifði þá stund að finnast ég ekki lengur veik fylltist ég þakklæti til lífsins og tilverunnar og ákvað að skrifa bókina Leiðin að bættri líðan, sem ég hefði svo gjarnan vilja hafa við höndina þegar ég stóð í minni orrahríð. Það er von mín að hún nýtist öllum sem vilja eða þurfa að bæta líðan sína.

Mér hefur lærst það augljósa á liðnum árum að maðurinn ber sjálfur ábyrgð á eigin lífi og að miklu leyti eigin líðan. Maður fær þetta eina líf í vöggugjöf og ætti að lifa því eins vel og skynsamlega og kostur er. Við ein berum ábyrgðina á eigin lífi og líðan og því er það okkar að velja leiðina sem leiðir okkur að betra lífi.

Halldóra Sigurdórsdóttir er höfundur bókarinnar „Leiðin að bættri líðan“